Pistlar um íslenskt mál:   2. apríl 2005

Jón G. Friđjónsson

Íslenskt mál - 48. ţáttur

Íslenskt mál - 48. þáttur

Í íslensku gegna hugtökin ‘hreyfing’ og ‘dvöl’ mikilvægu hlutverki. Þau koma t.d. fram með kerfisbundnum hætti í notkun og mynd ýmissa staðaratviksorða. Þannig er mikill munur á atviksorðunum upp, uppi og ofan og fram, frammi og framan.

Framangreind atviksorð og ýmis önnur mynda nokkurs konar samstæður sem gegna m.a. því hlutverki að staðsetja hlutina í tíma eða rúmi (hvar) eða þau vísa til hreyfingar, hvert og hvaðan. Svipuð kerfi má greina í ýmsum öðrum tungumálim (d. < upp á; e. upon, into; þ. hinauf, hinein) en umsjónarmaður þekkir ekkert mál sem notar staðaratviksorð í jafn ríkum mæli og íslenska.

Gera má ráð fyrir að staðsetning hluta og afstaða þeirra hafi skipt meira máli á öldum áður en nú á dögum, á þeim tíma er menn voru í nánu sambýli við landið og náttúruna.

Málbeiting er orðin sérhæfðari en áður var. Enda er það svo að í ýmsum grannmála okkar virðist réttmætt að tala um leifar slíks kerfis. En í íslensku er kerfið afar virkt og lifandi og í flestum tilvikum eru Íslendingar sammála um merkingu og notkun orðasambanda sem vísa til þess.

Nú er það auðvitað svo að íslenska er ekki kyrrstæð, skilningur manna á orðasamböndum getur breyst — og hefur vissulega breyst í mörgum tilvikum. Fram til þessa hafa málnotendur verið sammála um notkun orðasambandsins ná sér niðri á e-m í merkingunni ‘ná fram hefndum, hefna sín á e-m, t.d.’: ná sér niðri á andstæðingum sínum í stjórnmálum eða ná sér niðri á manni.

Í nútímamáli hefur umsjónarmaður oft rekist á myndina ná sér niður á e-m, t.d.: Hins vegar dylst engum að valdastéttin í Úkraínu vill gjarnan ná sér niður á Júlíu Tímósjenko (Mbl 7.12.04). Þetta er nýmæli sem á sér enga stoð í uppruna né traustum heimildum. Það er auðvitað mikill munur á því að ná sér/e-u niður og ná sér niðri á e-m. Bein merking orðasambandsins ná sér niðri er trúlega ‘kenna botns’ og merkingarþróunina má hugsa sér svo: ‘ná til botns’ > ‘ná til fulls’ > ‘hefna sín (til fulls)’.

Af sama meiði eru ýmis önnur nýmæli í nútímamáli, t.d. hafa upp á e-m (verður hafa uppi á e-m) og þefa/snuðra e-ð (frétt) upp (verður þefa/snuðra e-ð uppi). Í tilvikum sem þessum þykir umsjónarmanni rétt að fara eftir málvenju.

Í síðasta þætti var vikið að því sem kallað var leynd áhrif ensku á íslensku. Með því var átt við að notuð væru íslensk orð og orðasambönd en setningaskipan væri ensk. Nú skal vikið að öðru dæmi af þessum toga. Í ensku og ýmsum öðrum málum er algengt að nafnháttur eða fallsetning (að-setning eða spurnarsetning) standi fremst í málsgrein og umsagnarliður komi síðan á eftir, t.d.:  

 

  • Að svona lítið sé gert úr fólki ... er með eindæmum (Mbl. 10.2.05);

  • Að þjóð sem er svona háð sjávarútvegi skuli ekki viðurkenna það ... er illskiljanlegt (Mbl. 10.2.05);

  • Hvar upptökin eru er ómögulegt að segja til um (Útv. 13.2.05);

  • Að lögsækja menn er ekki skynsamlegt og Að lesa leikinn vel er mikilvægast.

Málnotkun sem þessi er að vísu ekki ný af nálinni en umsjónarmanni virðist hún hafa aukist í nútímamáli, ef til vill af þeirri ástæðu að mikið efni er þýtt beint af ensku á íslensku. Umsjónarmanni þykir ekki mikil reisn yfir slíkum stílbrögðum. Þau eru framandleg og virðast í flestum tilvikum óþörf en um það er best að hver dæmi fyrir sig. 

 

Venjulega eru sagnirnar opna og loka áhrifssagnir og er andlag þeirra það sem opnað er eða lokað, t.d.: Hún opnaði pakkann og hún lokaði dyrunum. Í nútímamáli er alloft brugðið út af þessari reglu þannig að þær eru notaðar sem áhrifslausar sagnir og verður þá það sem opnað er eða lokað að frumlagi þeirra, t.d.: Kjörstaðir opnuðu í Írak kl.fjögur í nótt (Fréttabl. 30.1.05) og búðin lokar kl. sex, sbr. enn fremur: Verslunin flytur (‘verður flutt’). 

Flestir ættu að geta verið sammála um að ‘kjörstaður opnar hvorki eitt né neitt’ og ‘búð/verslun lokar engu’. Hér væri eðlilegt að segja Kjörstaðir voru opnaðir ... og búðinni verður lokað ...

Eiður Guðnason minnir á að hlutabréf geta ekki skipt um hendur, enda handalaus. Hér er um að ræða nýmæli, fengið úr ensku (change hands). Þótt hvert orð sé hér íslenskt getur slík málbeiting ekki talist til fyrirmyndar. Þýðingin er ekki rökrétt, nánast kjánaleg, og orðasambandið er ekki að finna í rituðum heimildum; hefur ekki öðlast þegnrétt í vönduðu máli.

Úr handraðanum 

Hér að framan var vikið að því að hugtökin ‘hreyfing’ og ‘kyrrstaða’ væru mikilvæg í íslensku. Jafnframt var minnst á að í ýmsum tilvikum gæti skilningur manna á ýmsum orðasamböndum breyst.

Sem dæmi um þetta má nefna orðatltækið halda e-u á loft/(lofti), t.d.: Sumum finnst þingmaðurinn leitast um of við að halda eigin ágæti á loft og því skal eigi á loft halda sem leynt á að fara

Svipað orðafar er algengt í fornu máli, t.d.: Konungur gaf Gesti kerti og sagði sjálft kveikjast mundu, ef því væri á loft haldið; kom það ekki mjög á loft fyrir alþýðu manna og Finnboga var vel til hans og hélt honum mjög á loft fyrir sakir konu sinnar. Dæmin sýna að upprunalega vísar líkingin til hreyfingar (ekki dvalar).

Það sést annars vegar á því að í eldra máli er ávallt notuð þolfallsmyndin loft (halda e-u á loft) og hins vegar á því að sé atviksorð notað í stað forsetningarliðarins kemur ávallt fram styttri myndin (vísar til hreyfingar), t.d. halda e-u fram (< halda fram máli). Í síðari alda máli hefur skilningur manna breyst þannig að sumum finns orðatiltækið vísa til dvalar: halda e-u á lofti. Elsta dæmi um þá breytingu er frá fyrri hluta 19. aldar.

Ýmsar hliðstæðar breytingar eru kunnar, t.d. halda e-u upp > halda e-u uppi