Pistlar um íslenskt mál:   15. október 2005

Jón G. Friđjónsson

Íslenskt mál - 62. ţáttur

Íslenskt mál - 62. þáttur

Það er alkunna að ýmsum orðatiltækjum og föstum orðasamböndum getur slegið saman, einkum ef merking þeirra er svipuð, og þannig breytist búningurinn. Sem dæmi má taka orðatiltækið binda/ríða(reka) endahnútinn á e-ð ‘ljúka við e-ð; leggja síðustu hönd á e-ð’. Enginn vafi er á því að upphafleg mynd þess er binda/ríða endahnútinn á e-ð en endahnútur var sérstakur hnútur sem riðinn eða bundinn var á enda bands eða reipis til að hindra að það rektist upp. Afbrigðið með reka er trúlega myndað með hliðsjón af reka smiðshöggið á e-ð og það er býsna gamalt í íslensku. Sem dæmi má nefna að Jónas Hallgrímsson notar það. Umsjónarmanni þykir því einsýnt að það sé gott og gilt, t.d.: Hann rak endahnútinn á 3-0 sigur með fallegu marki (Útv 13.8.05).

Það er mikill munur á atviksorðunum niðri (kyrrstaða ‘hvar’) og niður (hreyfing ‘hvert’) og kemur hann fram í ýmsum orðasamböndum. Í flestum tilvikum er munurinn skýr og málnotkun í föstum skorðum en svo er þó ekki alltaf. Umsjónarmaður hefur veitt því athygli að í nútímamáli er oft ranglega farið með orðasambandið ná sér niðri á e-m ‘hefna sín á e-m’, t.d.: Það er eins og þessi rannsókn og málatilbúnaður hafi allur miðað að því að ná sér niður á okkur ... og sverta mannorð okkar út í eitt (Frbl 13.8.05). — Bein merking orðasambandsins ná sér niðri er ‘kenna botns’ en merkingarþróunina má hugsa sér svo: ‘til botns’ > ‘til fulls’ > ‘hefna sín (til fulls)’. Orðasambandið ná sér niður er kunnugt úr nútímamáli og er auðvitað allt annarrar merkingar (‘róast, jafna sig (eftir að hafa verið hátt uppi)’ sem og orðasambandið ná sér niður á e-ð ‘komast að niðurstöðu, samkomulagi um e-ð’.

Afturbeyging í íslensku er tvenns konar: miðmyndarendingin -st vísar ávallt til nefnifalls en afturbeygða fornafnið sig/sér/sín vísar til aukafalls. Auðvelt er að ganga úr skugga um þetta með því að umorða dæmi, t.d.: Hún segist vera þreytt [hún segir það; hún (sjálf) er þreytt] og Hún segir að sig langi til að ... [hún segir það; hana (sjálfa) langar til að ...], sbr. einnig: Hún segist hlakka til og Hún segir að sér finnist gaman [hún segir það; henni finnst gaman]. Útlendingar sem læra íslensku verða að læra slíkar ‘reglur’ en Íslendingar drekka þær í sig með móðurmjólkinni, málkennd þeirra bregst þeim nánast aldrei hvað þetta varðar. Umsjónarmann rak því í rogastans er hann sá eftirfarandi dæmi: [Listamaðurinn] segist ítrekað hafa verið hafnað (‘segir að sér hafi ítrekað verið hafnað’) (Frbl 13.7.05). Hér er trúlega um að ræða mistök sem ekki er mark á takandi.

Eiður Guðnason sendi umsjónarmanni eftirfarandi dæmi: Peningar eru að fara til Íraks og þar eru þeir að kaupa vopn og skotfæri sem notuð eru gegn íröskum lögreglumönnum og bandarískum hermönnum (Mbl. 23.6.05). Þetta þykir Eiði ekki fagurt og lái honum hver sem vill. Hann spyr: Hvernig skyldu peningarnir fara? Gangandi? Fljúgandi? — Hér má glöggt sjá ofnotkun orðasambandsins vera að + nafnháttur (peningarnir eru að fara; peningarnir eru að kaupa) auk þess sem það verður að teljast óvenjulegt að persónugera peninga með þessum hætti, væntanlega kaupa þeir hvorki eitt né neitt. Annað dæmi frá Eiði: búið er að boða til mikillar hátíðar á Þingvöllum og hefst dagskráin formlega klukkan eitt þegar gengið verður við undirleik lúðraþyts og kvennasöng (DV 19.6.05). Umsjónarmaður tekur undir það með Eiði að orðasambandið undirleikur lúðraþyts fær engan veginn staðist.

Enskra áhrifa á íslensku gætir í sívaxandi mæli. Aðeins tvö dæmi af þeim toga skulu tilgreind þótt af nógu sé að taka: Það fer ... að verða ansi þunn línan á milli þess sem KEA er að gera núna og þess að stíga skrefið til fulls og bera hreinlega fé á menn [e. thin line] (Blaðið 18.7.05) og Ellefu mánuðum eftir skilnaðinn frá Jóakim ... [e. divorce from] (Frbl 12.8.05).

Orðasambandið fá leiða á e-u er gamalt í íslensku og er það kunnugt í ýmsum afbrigðum, t.d.: hafa leiða á e-u og vera kominn með leiða á e-u. Í nútímamáli er það alloft afbakað, t.d.: Ég er kominn með leið á meðalmennsku (Frbl. 26.8. 05) og segist ekki kominn með leið á því að ... (Frbl 15.5.05). Vant er að sjá hvernig þetta nýmæli er hugsað, trúlega er um að ræða ranga ritmynd, myndaða á grundvelli framburðar [fá leiða á > fá leið’ á].

Úr handraðanum

Nafnorðið orrahríð (kvk.) merkir upphaflega ‘ákafur bardagi’ en í nútímamáli vísar það til ‘harðrar eða snarprar deilu, mikilla átaka’, t.d.: Formaður flokksins ... kom mér ekki til varnar í þessari orrahríð (Mbl. 4.2.05) og Gengu margir sárir frá borði eftir þá orrahríð (Frbl. 18.8.05). Upphafleg merking er skýrð í Haralds sögu Sigurðarsonar en þar segir (texti Hauksbókar): Eysteinn orri sækir að konungi og Valþjófi. Svo var sá bardagi harður að jafnan er orrahríð við brugðið síðan í Englandi þá er mannraunir verða.