Textaleit í útdráttum
Leita í textum Íslenska málfrćđifélagsins    Leita í öllu efni á Kvisti


Pistlar um íslenskt mál:   17. júlí 2004

Jón G. Friđjónsson

Íslenskt mál - 32. ţáttur

Íslenskt mál - 32. þáttur

Notkun sagnarinnar úthluta e-m e-u og orðasambandsins fá e-ð úthlutað virðist talsvert á reiki í nútímamáli.

Dæmi í seðlasafni Orðabókar Háskólans sýna að fallstjórn sagnarinnar úthluta hefur reyndar alllengi verið nokkuð breytileg. Flestir munu þó vera sammála um að í nútímamáli sé rétt að segja úthluta einhverjum einhverju en ekki ?úthluta einhverjum eitthvað.

Því kjósa flestir að segja t.d.: Stjórnvöld úthlutuðu útgerðinni miklum kvóta eða nefndin úthlutaði listamanninum háum styrk. Málnotkun virðist vera í föstum skorðum í germyndarsetningum sem þessum en svo er hins vegar ekki í samsvarandi þolmyndarsetningum. Rétt notkun er: Útgerðinni var úthlutað miklum kvóta [ekki ?Útgerðinni var úthlutaður mikill kvóti] og Listamanninum var úthlutað háum styrk [ekki ?Listamanninum var úthlutaður hár styrkur].

Sú breyting, eða öllu heldur tilhneiging til breytingar, sem fram kemur í dæmunum innan hornklofa, felst í því að þar er mynduð svo kölluð persónuleg þolmynd - eins og gert er af öllum þeim sögnum er stýra þolfalli. Ástæða þessa er vafalaust sú að fjölmargar sagnir taka með sér andlag í þágufalli og þolfalli (afhenda e-m e-ð; bjóða e-m e-ð; færa e-m e-ð; gefa e-m e-ð; senda e-m e-ð; rétta e-m e-ð) en þær sagnir sem taka með sér tvö andlög í þágufalli (úthluta e-m e-u; skila e-m e-u; svara e-m e-u; lofa e-m e-u) eru miklu færri. Breytingin felst því í því að sögnin úthluta skiptir um flokk (úthluta einhverjum einhverju > ?úthluta einhverjum eitthvað).

Í orðasambandinu fá e-ð úthlutað stýrir sögnin þolfalli og lýsingarhátturinn af sögninni úthluta tekur ekki þátt í fallstýringu, heldur er hann sagnfylling með sögninni .

Af þessu leiðir að eðlilegt er að segja (dæmin innan hornklofa samræmast ekki málvenju):

  • Sjónvarpsstöðin fékk 16 örbylgjurásir úthlutaðar [?fékk úthlutað 16 rásum]
  • þeir fá þennan rétt úthlutaðan til fjögurra ára [?fá þessum rétti úthlutað til fjögurra ára]
  • taka sér hlutverk dómarans rétt eins og þeir hafi fengið úthlutað hið guðlega vald [? ... fengið úthlutað hinu guðlega valdi
  • Útgerð skipsins fékk úhlutuð tæp 64 tonn af þorski [? ... fékk úthlutað tæpum 64 tonnum af þorski]
  • menn fengu úthlutaða olíu [?... fengu úthlutað olíu].


Umsjónarmanni þykir reyndar orðasambandið fá e-ð úthlutað ekki fagurt en það er auðvitað aukaatriði. Hitt hlýtur hins vegar að vera mikilvægt að það sé notað í samræmi við málvenju.

Við þetta er loks því að bæta að talsverður merkingarmunur er á orðasamböndunum fá e-ð úthlutað og fá (ekki) úthlutað e-u. Í síðara tilvikinu stendur sögnin sem hjálparsögn í merkingunni ‘geta’, sbr.:

  • Ég fæ ekki séð að ...
  • fá ekki að einhverju gert
  • fá ekki vatni haldið
  • Hann fær ekki skilið hvers vegna ...


Þessi munur veldur því að eftirfarandi setning verður enn fráleitari en ella: ?Útgerðin fékk ekki úthlutað neinum kvóta (‘fékk ekki neinn kvóta úthlutaðan’). Hún er málfræðilega röng og merkingin stenst ekki. Sama á við um sögnina fá e-ð ávísað, t.d.: ?Fjölmargir sjúklingar fengu lyfinu ávísað (‘fengu lyfið ávísað’).

Íslensk tunga breytist vitaskuld og svo hefur ávallt verið. Sumum finnst vafalaust nóg um hve örar og miklar breytingarnar eru í hraða nútímans. Umsjónarmaður telur að það hafi ávallt verið aðal okkar Íslendinga hve vel okkur hefur tekist að laga menningu okkar og tungu að breyttum aðstæðum.

Í þessu sambandi má minna á kristnitökuna á 11. öld, upphaf ritaldar (12. öld), siðaskiptin á 16. öld og prentöld frá sama tíma. Í öllum þessum tilvikum varð íslensk menning og tunga fyrir miklum erlendum áhrifum en íslensk menning hélt sínu ef svo má að orði komast og auðgaðist jafnframt að ýmsu leyti.

Sama virðist uppi nú á tölvuöld. Margir menn vinna óeigingjarnt starf á sviði orðfræði og eiga þeir þakkir skildar. Þeir leitast við að smíða ný orð eða nota gömul orð í nýrri merkingu til að Íslendingar geti tjáð sig á móðurmálinu um hvað sem er. Í flestum tilvikum tekst vel til um nýmæli og nýjungar en málkennd almennings sker úr um það hvaða orð eru sett á og hver deyja drottni sínum.

Eitt þeirra nýmæla sem virðist hafa náð að lauma sér inn í íslensku er orðasambandið skipta um hendur, t.d.: ?þúsundir hluta skiptu um hendur á verðbréfamarkaðnum. Að því er best verður séð er hér um að ræða óþörf, erlend áhrif (e. change hands). Það er alkunna að menn geta skipt um skoðun eða skipt um hjólbarða en vandséð er hvernig eitthvað getur skipt um hendur. Um þetta segir Eiður Guðnason: ‘þessi óværa virðist vera að festa rætur í íslensku, svei attan.’ Umsjónarmaður hefur engu við orð Eiðs að bæta.

Annað nýmæli sem skotið hefur upp kollinum í nútímamáli er orðasambandið skauta fram hjá e-u, t.d.: Hann kýs að skauta algjörlega fram hjá umfjöllun minni. Í sjálfu sér er ekkert rangt við að komast svona að orði í merkingunni ‘líta fram hjá e-u; hunsa e-ð’ en umsjónarmaður þekkir þetta orðafar ekki og hann grunar að hér kunni að liggja að baki enska: skate over sth. Tíminn mun leiða í ljós hvort þetta orðasamband nær að festa rætur.

Úr handraðanum

Orðasambandið vasast í e-u/(e-ð) merkir ‘stússast í e-u, fást við e-ð (oft lítilræði eða smáerindi) á hlaupum, snattast í e-u; hnýsast í, skipta sér af’, t.d.: Hún mun leggja starf okkar í rúst ef hún fer að vasast í okkar málum; Hann ætlar að nota daginn til að vasast í ýmsu ‘sinna snatterindum’ og vasast í mörgu ‘hafa mörg járn í eldinum’ (Blöndal).

Orðasambandið er m.a. kunnugt úr Njáls sögu: Þetta mál kemur ekki til þín, nema þú vilir vasast í með þeim (Nj, 139.k) og Hænsa-Þóris sögu: Fátt er hér verkmanna, segir Þórir, en eg nenni lítt ferðum, og vil eg eigi vasast í slíku ‘starfa í, snattast í’ (5.k.).

Grunnmerking sagnarinnar vasa/vasast virðist vera ‘hlaupa/fara hratt fram’, sbr. vas, hk., ‘hlaup fram og til baka’; vasaði svo [þessi vondi maður] út úr káhyttunni með illu geði (17. öld); vasa ‘geisast’ (Blöndal) og vasa inn (18. öld), og kemur hún vel heim við fornmálsdæmin, þ.e. ‘hlaupa í’ > ‘hafa afskipti af’.

Elstu dæmi um vasa (á flík) eru frá því um 1400. Því kemur ekki til greina að sú merking geti legið til grundvallar í fornmálsdæmunum en hún gæti verið kveikjan að síðari merkingunni ‘hnýsast í’, þeirri merkingu kunn er í nútímamáli.

Morgunblaðið, 17. júlí 2004