Textaleit í útdráttum
Leita í textum Íslenska málfrćđifélagsins    Leita í öllu efni á Kvisti


Pistlar um íslenskt mál:   15. mars 2008

Jón G. Friđjónsson

Íslenskt mál - 124. ţáttur

Standa á einhverju eins og hundur á roði

Sum orðatiltæki eru skemmtilegri en önnur. Umsjónarmanni hefur alltaf þótt orðatiltækið standa á einhverju eins og hundur á roði afar skemmtilegt og lýsandi. Yfirfærð merking vísar til þrákelkni en bein merking bendir til þess annars vegar að hundar eru mjög hrifnir af roði og hins vegar til þess að þegar þeir naga það standa þeir iðulega á öðrum enda þess. Ekki er víst að vísunin liggi í augum uppi í nútímamáli en þótt viðmið fjölmargra orðatiltækja hafi bliknað eða horfið stendur umsjónarmaður á því eins og hundur á roði að fara verði rétt með þau. Í eftirfarandi dæmi hefur talsvert skolast til: Segir af lánlausum ráðherra ... sem þekkir ekkert annað en innviði stjórnkerfisins og hangir því á stöðu sinni eins og hundur á roði, án sjálfsvirðingar og siðlegrar vitundar (5.1.08)

Áður en haninn galar tvisvar muntu þrisvar afneita mér

Frásögnina af því er Pétur afneitaði Jesú er að finna á fimm stöðum í Nýja testamentinu en einna þekktust mun sagan vera úr Markúsarguðspjalli: Áður en haninn [hani (1981, 2007)] galar tvisvar, muntu þrisvar afneita mér (Mark 14, 72 (1912)). Sögnin gala vísar til augnabliksins, hani galar á tilteknu andartaki en naumast lengi. Það er erfitt að ímynda sér mann gera eitthvað á meðan hani galar en lengi er von á einum: Blaðið [Mbl.] reynir með öðrum orðum að sannfæra okkur öll um að það sé helsta málgagn Vinstri grænna. Og afneitar Bush meðan haninn galar þrisvar (7.1.08). Hér er klaufalega vísað í góða bók. Umsjónarmanni finnst hins vegar eftirfarandi dæmi býsna gott: Áður en haninn nær að gala einu sinni er formaður VG búinn að kasta [stóriðju]stefnunni út í hafsauga (18.6.07).

Hann er bara ekki að svara?

Í pistlum þessum hefur þráfaldlega verið vikið að ofnotkun nafnháttar, sbr. eftirfarandi dæmi:

skiljanlega voru alltaf einhverjir sem voru kannski ekki alveg að kaupa það að einhver ... væri að segja þeim [fyrir verkum] (31.12.07); Ef það [lán] er tekið þegar krónan er mjög sterk þá er líklegt að þú sért að borga flestar afborganirnar þegar hún er veikari og það er óhagstætt (13.12.07); kirkjan er ekki að sinna trúboði í skólum og ætlar sér það ekki (22.12.07); fyrirtæki sem er að selja Landspítalanum lyf (21.12.07) og Þá þurfi að huga að því þegar verið sé að bjóða upp á kennslu á ensku. Þar er Háskólinn á Bifröst að stíga nýtt skref (14.2.08).

Margoft hefur komið fram að ætla má að breyting þessi stafi að nokkru leyti af áhrifum frá ensku. Ef hún nær fram að ganga verður íslenska snauðari eftir. Í fyrsta lagi hverfur munurinn á einfaldri nútíð (ég les (daglega)) og nafnháttarsambandinu (ég er að lesa (núna)) og í öðru lagi virðist umsjónarmanni fátæklegra að nota (að óþörfu) fremur nafnhátt en persónubeygða sagnmynd.

Umsjónarmanni virðist breytingin svo langt komin að erfitt muni reynast að sporna við henni. Þó er rétt að leggja áherslu á að í fagurbókmenntum okkar er ofnotkun nafnháttar nánast óþekkt. Sem dæmi þess hve algeng og eðlileg þessi málbeiting er orðin skal þess getið að nýlega þurfti umsjónarmaður að hringja í starfsmann stórs fyrirtækis hér í borg. Erfiðlega gekk að ná sambandi við manninn og var viðkvæðið jafnan: Hann er bara ekki að svara (14.12.07).

Sátt eða sætt?

Nafnorði sátt beygist oftast svo í nútímamáli: sátt-sátt-sátt-sáttar; sættir/(sáttir)-sættir/(sáttir)-sáttum-sátta. Sökum þess að í ýmsum föllum átti að verða i-hljóðvarp (á > æ) hafa skapast tvímyndir, t.d. sátt/sætt og sáttir/sættir. Slíkar tvímyndir eiga sér ýmsar hliðstæður, t.d.: átt/ætt, bón/bæn og sjón/sýn.

Segja má að notkun orðanna sátt/sætt sé í föstum skorðum í nútímamáli, t.d.: bjóða sátt/sættir/(sáttir); ganga á sátt/sáttir; hyggja á sættir/(sáttir); leita um sættir/(sáttir) [sáttaumleitanir]; sættast heilum sáttum og taka sáttum/(sættum). Umsjónarmanni virðist eftirfarandi dæmi fremur óvenjulegt: Lögin eru talin mikilvæg til að koma á sættum milli stríðandi fylkinga í Írak (13.1.08). Í dæmum sem þessum sker málkennd úr.