Textaleit í útdráttum
Leita í textum Íslenska málfrćđifélagsins    Leita í öllu efni á Kvisti


Pistlar um íslenskt mál:   1. mars 2008

Jón G. Friđjónsson

Íslenskt mál - 123. ţáttur

Gróa á Leiti

Í skáldsögunni Piltur og stúlka eftir Jón Thoroddsen gegnir Gróa á Leiti miklu hlutverki og svo minnisstæð er sú mynd sem skáldið dregur upp af henni að hún er fyrir löngu orðin hluti af íslensku máli og menningu, nokkurs konar tákn sögusmettunnar, sbr. einnig nafnorðið Gróusögur ‘slúðursögur’. Eftirfarandi dæmi virðist eiga að vísa til þessa: Ef menn telja að kerfið við mat og val á dómurum hér á landi sé ekki rétt þá skulu menn breyta því, ræða það af röggsemi og breyta því en ekki baknaga og leggjast við neðstu skör Gróu á leiti (1.1.08). Hér er ýmislegt athugavert. Vel má vera að ýmsir hafi lært sitthvað af Gróu og þá setið við fótskör meistarans en engum sögum fer af því að nokkur hafi legið við neðstu skör Gróu. Í öðru lagi hefur naumast nokkur numið baknag um náungann af Gróu enda mikill munur á baknagi og slúðri.

Brimfullur?

Enska orðið brim merkir ‘(efsta) brún á bolla, glasi’ og því er enska samsetningin brimful rökrétt og gangsæ. Í íslensku hljómar lo. brimfullur hins vegar ekki vel að skoðun umsjónarmanns, sbr.: Flutningabíllinn er stærstur sinnar tegundar í eigu FedEx og var hann brimfullur af jólagjöfum (22.12.07). Hér er vitaskuld á ferðinni sletta sem sumpart hefur verið löguð að íslensku, enskan skín í gegn.

Eftir mig — á eftir mér

Forsetningin eftir að viðbættu þolfalli vísar jafnan til tíma, jafnt í beinni merkingu (eftir minn dag; eftir þetta) sem óbeinni (bók eftir hana; spor eftir fugla). Forsetningin á eftir að viðbættu þágufalli vísar ávallt til raðar, oftast í rúmi (hann hljóp á eftir mér), sbr. andstæðuna á undan. Í talmáli er þessum forsetningum stundum ruglað saman, t.d. er sagt líf á eftir dauðanum í stað líf eftir dauðann og kaffi á eftir messunni í stað kaffi eftir messuna. Eftirfarandi dæmi eru af þessum toga: Hverri senunni eftir annarri [þ.e. eftir aðra] var stolið af franska forsetanum (19.12.07) og gagnrýnt hversu lítinn stuðning aðstandendur fórnarlambanna fengu fyrst á eftir árásina [þ.e. eftir árásina] (29.8.07). Lesendur munu hafa orðið þess varir að ég hef sérstakan áhuga á forsetningum enda hef ég safnað dæmum um notkun þeirra í liðlega 30 ár. Ég þykist geta fullyrt að dæmi um rugling forsetninganna eftir og á eftir eru afar sjaldséð í ritmáli. Mig rak því í rogastans er ég sá eftirfarandi dæmi í nýju Biblíunni: Á eftir henni tók hann Maöku sér fyrir konu (2. Kron 11, 20). Í Biblíunni frá 1912 og 1981 (og eldri útgáfum) er þetta að sjálfsögðu rétt: Og eftir hana fékk hann Maöku Absalómsdóttur (1981, 1912).

Æ sér gjöf til gjalda

Málshátturinn Æ sér gjöf til gjalda vísar til þess að sá sem gefur væntir þess að fá eitthvað í staðinn. Þetta eru gömul sannindi, sbr. Hávamál: sýtir æ glöggr við gjöfum ‘nirfillinn fyllist sút við gjafir’ [því að hann veit að hann þarf að endurgjalda þær] og ey [‘ávallt’] sér til gildis gjöf. Í flestum tilvikum er afar lítið svigrúm til að breyta búningi málshátta og það á einnig við um eftirfarandi dæmi sem umsjónarmaður telur ótækt: Æ skal gjöf til gjalda. Þjóðin fylgist að sjálfsögðu spennt með hver hagnaður bankanna verður af því að hella víni í ráðherrana (4.1.08).

Að renna sitt skeið

Reynir Ingibjartsson skrifar grein í Morgunblaðið: Saga Guðna Ágústssonar — veröld sem var. — Greinin er skemmtileg og vel skrifuð. Þar segir m.a. (leturbreytingar umsjónarmanns):

Framsóknarflokkurinn átti þar [í sögu þjóðarinnar] sína góðu spretti en nú eru aðrir komnir með keflið. Vonandi helst þeim vel á því (7.1.08).

Úr handraðanum

Nafnorðið innstæða í merkingunni ‘eign’ er kunn í fornu máli en merkingin ‘inneign á bók eða reikningi’ mun vera frá 19. öld og tíðkast hvort tveggja enn, sbr.: Tók út 6,5 milljónir án innstæðu á reikningi (7.1.08) og tók út án þess að innstæða væri fyrir því (7.1.08).  Orðmyndin innistæða (frá fyrri hl. 19. aldar) mun nú vera algengust, t.d.: Þá kemur betur og betur í ljós að rökin og sönnunargögnin [fyrir innrás í Írak] voru hönnuð en innistæða var fyrir hvorugu (1.8.07). Orðmyndin innstæða er tvímælalaust upprunaleg og í alla staði rétt, sbr. hliðstæðuna inneign