Textaleit í útdráttum
Leita í textum Íslenska málfrćđifélagsins    Leita í öllu efni á Kvisti


Pistlar um íslenskt mál:   2. febrúar 2008

Jón G. Friđjónsson

Íslenskt mál - 121. ţáttur

Orðfræði

Orðatiltækið e-ð er runnið undan rifjum e-s á sér fornar rætur og vísar það til þess er menn töldu brjóstið aðsetur vitsmuna og kennda, sbr. nafnorðið brjóstvit sem enn lifir góðu lífi. Orðatiltækið e-ð er af e-m rótum runnið/(sprottið) ‘e-ð stafar af e-u’ er einnig eldfornt og kunnugt í ýmsum afbrigðum. Þessum tveimur orðatiltækjum má ekki rugla saman eins og gert er í eftirfarandi dæmi: Það er ógæfa framsóknarmanna að koma því ekki nógsamlega á framfæri við þjóðina að þetta brölt væri ekki undan þeirra rótum runnið (26.11.07).

Það eru augljós sannindi að of seint er að byrgja brunninn þegar barnið er dottið ofan í hann. Málshátturinn vísar til þess að of seint sé að vera vitur eftir á, koma verði í veg fyrir slys eða óhöpp áður en þau verða. Reynslan kennir okkur einnig að mönnum verði oft á sömu mistök og öðrum, þ.e. falli í sömu gryfju og aðrir. Þótt ýmislegt sé sameiginlegt þessu tvennu er mikill munur á brunni og gryfju og best fer á að halda þeim aðgreindum. Þess er þó ekki gætt í eftirfarandi dæmi: Ætla mætti í ljósi gagnrýni sjálfstæðismanna á opinbera markaðsstarfssemi Alfreðs að þeir mundu gæta þess að falla ekki í sama brunninn og Alfreð (19.12.07).

Orðatiltækið bera einhverjum vel/illa söguna ‘fara lofsamlegum orðum um einhvern/hallmæla einhverjum’ er eldfornt og er búningur þess fastbundinn og honum má ekki raska. Eftirfarandi dæmi hljóma ekki vel: Haraldur ber fundarmönnum góða söguna (12.11.07) og bar landinu góða söguna (28.7.07).

Orðatiltækið koma við sögu ‘snerta eitthvað (atburðarás), tengjast einhverju’ er algengt og allt annarrar merkingar en þegar hér/þar var komið sögu ‘þegar hingað var komið; á þessu stigi’ en samt er furðu algengt að þessum orðatiltækjum er ruglað saman, t.d.: Sautjánda brautin var algjör bónus fyrir mig en þegar þar var komið við sögu hafði ég misst nokkur pútt (21.11.07). Smáorðinu við er hér augljóslega ofaukið.

Orðatiltækið e-ð fer forgörðum ‘e-ð eyðileggst, glatast eða tortímist’ á sér fornar rætur og kann það að vísa til hugmynda manna um hættur er leynast utan mannabústaða (forgörðum). Það sem fer forgörðum er jafnan hlutstætt (skjöl, efni, tæki) en ekki huglægt (reiði, ást, agi). Því hljómar eftirfarandi dæmi ekki vel í eyrum umsjónarmanns: Það sem helst hefur þó [á] skort er að sá agi, sem felst í skipulaginu, fer stundum forgörðum þegar komið er að því að loka fjárlögunum (23.8.07).

Forsetningar

Kerfi forsetninga í íslensku er um margt afar nákvæmt. Þar er t.d. ekki aðeins gerður munur á stefnu hreyfingar (hvert — hvaðan) heldur skiptir einnig máli hvort það sem hreyfist var undir einhverju, á einhverju eða í einhverju. Þessi munur kemur m.a. fram í forsetningapörum (undir — undan; á — af; í — úr) og hann er okkur í blóð borinn. Af þessu leiðir m.a. að mikill munur er á forsetningunum af og undan þótt þær vísi báðar til hreyfingar. Það kemur því á óvart að sjá og heyra þeim ruglað saman, t.d.: Dekkjum stolið af bíl hreyfihamlaðs manns [þriggja dálka fyrirsögn] (1.11.07) og Kjölurinn rifnaði af [skútunni] í látunum [í óveðrinu] (14.12.07). Ætla mætti af fyrra dæminu að dekkin hefðu verið á palli vörubíls en svo var ekki, þau voru undir bílnum og því var þeim stolið undan honum. Umsjónarmanni finnst einnig órökrétt að tala um kjöl á (‘undir’) skútu.

Að hafa þjóðina á bakinu

Mánudagskvöldið 7. janúar var rætt um fyrirhugað Evrópumót í handknattleik. Þar féllu þau orð að mikilvægt væri fyrir strákana okkar að hafa þjóðina á bakinu. Ætli það yrði þeim ekki ofraun?

Tilfinningasvall

Eitt einkenna íslenskrar tungu er að orðaforðinn er sveigjanlegur en hann má stöðugt auka og auðga með nýyrðum. Það er vandasamt að búa til ný samsett orð en þegar vel tekst til eru þau gagnsæ en jafnframt hlaðin merkingu. Umsjónarmaður rakst nýlega á bráðskemmtilegt nýyrði, mótað af þeim manni sem hlaut verðlaun á degi íslenskrar tungu: Hamingjan er ekkert tilfinningasvall. Hún einkennist af innra jafnvægi og hugarró. Hamingjusamt fólk er þannig í sæmilegri sátt við sjálft sig, en þó ekki án sjálfsgagnrýni. Skorti hana verður einstaklingurinn hrokafullur sjálfbirgingur, skopskyni skroppinn (Sigurbjörn Einarsson, 24.12.07).