Textaleit í útdráttum
Leita í textum Íslenska málfrćđifélagsins    Leita í öllu efni á Kvisti


Pistlar um íslenskt mál:   19. janúar 2008

Jón G. Friđjónsson

Íslenskt mál - 120. ţáttur

 

Orðfræði

Orðatiltækið koma einhverju í hús vísar upphaflega til þess er heyi er komið í hús (hlöðu) en fær síðan merkinguna ‘ljúka einhverju farsællega’. Af allt öðrum meiði er orðatiltækið fylgja einhverju úr hlaði en það vísar upphaflega til þess er gesti er fylgt úr hlaði en í nútímamáli merkir það oftast ‘gera grein fyrir einhverju (við upphaf þess)’, t.d. geta menn fylgt tillögu sinni úr hlaði. Þessu orðatiltækjum má ekki rugla saman eins og gert er í eftirfarandi dæmi: og mun Bjarni sitja áfram sem stjórnarformaður REI til að fylgja ráðgerðum verkefnum úr húsi (23.11.07). Hér virðist merking orðasambandsins fylgja einhverju úr húsi vera ‘fylgja verkefnunum úr hlaði, fyrsta spölinn’ eða ‘koma verkefnunum af stað’. Umsjónarmanni finnast kostir þessa nýmælis rýrir.

Atviksorðið skammt (af lo. skammur) hefur tvær myndir í miðstigi, annars vegar skemmra og hins vegar skemur. Orðmyndin skemmra vísar jafnan til staðar eða rúms, t.d. mín tillaga gengur skemmra en þín, en myndin skemur vísar hins vegar oftast til tíma, t.d.: hvort sem beðið verður lengur eða skemur. Þessu tvennu er jafnan haldið aðgreindu en þó ekki í eftirfarandi dæmi enda samræmist það ekki málvenju: að þá sé skemur [þ.e. skemmra] gengið [hvað virkjanir varðar] (10.11.07).

Samræmi

Í nútímamáli eru nokkur brögð að því að í þolmynd sé ekki gætt samræmis í tölu og/eða kyni. Umsjónarmaður hefur alloft vikið að dæmum um slíkt, t.d.: Krafa að þeim [kynferðisbrotamönnum] sé sett [þ.e. séu settar] ákveðnar hömlur (13.11.07); Þar [í Noregi] hefur [þ.e. hafa] fórnarlömbunum verið greiddar bætur og Um kl. 19 verður [þ.e. verða] helstu íþróttaviðburðum dagsins gerð skil. Óregla af þessum toga er einkum algeng með sagnorðum sem stýra tveimur föllum og öðru í þolfalli sem þá ræður sambeygingu (setja e-m e-ð; greiða e-m e-ð). Hefbundin sambeyging kemur glöggt fram við umorðun, sbr. hömlur voru settar þeim > þeim voru settar hömlur og bætur voru greiddar þeim > þeim voru greiddar bætur. — Óreglu af þessum toga er reyndar að finna í nýju Biblíunni: Þeir fara einnig eftir mörgum öðrum fyrirmælum sem þeim hefur verið kennt [þ.e. hafa verið kennd] svo sem að hreinsa bikara, könnur og eirkatla (Mark 7, 4 (2007)). Þess skal getið að eldri þýðingar sýna að hér er um að ræða tilvísunarsetningu en ekki samanburðarsetningu.

Með þgf.-sögnum er oftast merkingargreinandi hvort notuð er germynd eða þolmynd, t.d. bankinn var lokaður (lengi) (germynd) eða bankanum var lokað (kl. 12) (þolmynd). Munurinn er í flestum tilvikum augljós enda vefst það sjaldnast fyrir málnotendum að halda slíkum dæmum aðgreindum. Í einstökum tilvikum getur þó brugðið út af því og þá getur útkoman orðið spaugileg, t.d.: en vefur LungA var verr útleikinn, gagnagrunnurinn ónýtur og fjöldi skráa spilltur (24.7.07). — Menn geta vissulega verið spilltir en í þessu tilviki hefur skránum væntanlega verið spillt.

Úr handraðanum

Orðasambandið ekki múkk merkir ‘alls ekkert’, t.d.: segja ekki múkk og heyra ekki múkk frá einhverjum. Það á rætur sínar í dönsku: ikke et muk, dregið af sögninni mukke ‘æmta, mögla; vera fúll yfir einhverju’ en hún mun eiga rætur sínar að rekja til þýsku mucken. Orðasambandið ekki múkk er frá 18. öld og á sér því nokkra sögu í íslensku. Hætt er þó við að það hljómi framandlega í eyrum unga fólksins, sbr. eftirfarandi dæmi: Þrátt fyrir krassandi kafla um t.d. átök Guðna og Halldórs Ásgrímssonar heyrist ekki múkk frá framsóknarflokknum (Frbl. 18.12.09).