Textaleit í útdráttum
Leita í textum Íslenska málfrćđifélagsins    Leita í öllu efni á Kvisti


Pistlar um íslenskt mál:   25. júní 2005

Jón G. Friđjónsson

Íslenskt mál - 54. ţáttur

Íslenskt mál - 54. þáttur

Kvenkynsnafnorðið ávirðing merkir samkvæmt Íslenskri orðabók ‘yfirsjón, misgerð’ enda leitt af sagnarsambandinu e-m verður e-ð á. Meistari Jón Vídalín segir t.d.: hinn bakmálugi fiskar í annarra ávirðingum. Í dæmasafni Orðabókar Háskólans er einnig að finna merkinguna ‘last’ frá miðri 20. öld: segja e-ð e-m til ávirðingar.

Í nútímamáli er merkingin ‘ásökun’ algeng, t.d.: skrifa að beiðni hennar greinargerð með ávirðingum gegn sóknarprestinum (Mbl .28.4.05); ávirðingar voru bornar á skólameistarann (26.4.05) og í mörgum þeim ávirðingum sem gagnaðilar ... hafa borið á málshefjanda (Mbl. 28. 4.05). Hér er greinilega um nýja merkingu að ræða.

Í 13. pistli var vikið að ofnotkun forsetningarinnar vegna. Með ofnotkun er átt við að hún er látin vísa til ýmiss konar tengsla þar sem aðrar forsetningar eru venjulega notaðar. Þetta er best sýnt með dæmum, innan hornklofa er sýnd málbeiting sem samræmist málvenju: 

  • iðgjöld vegna ársins 2004 [fyrir árið 2004]
  • greinargerð vegna þróunar [um þróun] verðbólgu (Fréttabl. 20.2.05)
  • deilur sem nú standa yfir vegna nýtingar [um nýtingu] á norsk-íslensku síldinni (Mbl. 4.5.05)
  • Þverpóltísk samstaða er meðal sveitarstjórnarmanna vegna samgönguáætlunar [um samgönguáætlun] þeirrar sem ... (Blaðið 6.5.2005)
  • Það var erfitt að komast áfram á hestbaki vegna líkanna [fyrir líkunum] (Fréttabl. 14.5.05); verða fyrir vonbrigðum vegna e-s [með e-ð] (Mbl. 21.2.05)
  • greiða hluthöfum x milljónir vegna arðs [í arð] (Útv. 13.1.04)
  • hafa samráð vegna e-s [um e-ð] (Frétt 1.8.03)
  • fréttir vegna seinasta máls [af seinasta máli] (Mbl. 20.6.03)

 

Af dæmunum má sjá að forsetningin vegna er látin samsvara fjölmörgum forsetningum, m.a. fyrir, með, um, í og af. Sumum kann að finnast þægilegt að geta gripið til slíkrar ‘ofurforsetningar’, líkt og with í ensku, en flestir hljóta þó að vera sammála um að slík málbeiting ber vott um málfátækt.

Forsetningin fyrir getur vísað til tíma en stýrir þá þolfalli. Það er því ekki rétt að segja: Gríðarleg spenna ríkir fyrir þessum leik (Fréttabl. 10.4.05). Hér kann að gæta áhrifa frá orðasambandinu hafa áhuga fyrir e-u en réttara er þó að hafa áhuga á e-u. Sagnarsambandið e-ð dugir fyrir e-u vísar til þess er ‘e-ð (oft peningar) hrekkur til’, t.d.: Þúsundkallinn dugir fyrir níu lítrum af bensíni. Hins vegar gengur hvorki að segja þrípútt mundi duga fyrir sigrinum ‘til sigurs’ (Mbl. 22.3.05) né Braust inn fyrir efnum ‘eftir efnum; til að stela efnum’ (Fréttabl 11.5.05).

Sagnarsambandið gangast við e-u merkir ‘viðurkenna e-ð’, t.d.: gangast við barni ‘viðurkenna faðerni’ og gangast við sekt sinni/broti sínu ‘viðurkenna sekt sína/brot sitt’.  Sagnarsambandið ganga að e-u er allt annarrar merkingar. Það getur t.d. merkt‘samþykkja, fallast á’ [aðgengilegur], t.d.: Hann gekk að tilboðinu/öllum kröfum. Ekki gengur að rugla þessum samböndum saman eins og gert er í eftirfarandi dæmi: félagið var ekki reiðubúið að gangast við kröfum J. (Fréttabl. 22.4.2005).

Orðasambandið rasa fyrir/(um) ráð fram ‘flýta sér um of/meira en skynsamlegt er’ er algengt í fornu máli. Í Laxdæla sögu segir t.d.: Hreystimannlega er slíkt mælt en þó er ráðlegra að rasa eigi fyrir ráð fram. Myndin með fyrir er einhöfð fram á síðari hluta 19. aldar en þá skýtur upp afbrigðinu rasa um ráð fram og er það trúlega myndað með hliðsjón af samböndum eins og flýta sér um of.

Af sama meiði er orðasambandið fara að öllu af rasanda ráði. Í nútímamáli virðist yngra afbrigðið býsna algengt: Rasið ekki um ráð fram á hálli braut fordómanna (Mbl. 14.5.05). Umsjónarmaður telur að þeir sem vilja vanda mál sitt hljóti að kjósa upprunalegu myndina (rasa fyrir ráð fram ‘ana lengra en skynsamlegt getur talist’) og eftirláti öðrum að rasa um ráð fram

Úr handraðanum

Orðasambandið oft og tíðum er kunnugt frá 16. öld og í þessari mynd hefur það lengstum verið notað. Tímaþágufallið tíðum stendur hér sem atviksorð, líkt og löngum og stundum. Í nútímamáli er allalgengt að nota myndina oft á tíðum og virðist myndin tíðum þá skilin sem þgf.flt. af tíð, kvk., t.d.: enda [eru] pistlarnir oft á tíðum beittir og skemmtilegir (Mbl. 12. 2.05); sóknarleikurinn  [hefur] verið slakur oft á tíðum (Mbl. 4.5.05) og Spjall um veðrið, íþróttir og fræga fólkið er kannski oft á tíðum harla innihaldsrýrt (Mbl. 26.4.05).  

Slík málnotkun getur ekki talist til fyrirmyndar enda ekki í samræmi við uppruna. — Umsjónarmaður hefur um langt skeið safnað slíkum dæmum og hefur hann einungis rekist á eitt dæmi um oft á tíðum frá 19. öld, öll önnur eru frá 20. öld eða úr nútímamáli.

Morgunblaðið, 25. júní 2005