Textaleit í útdráttum
Leita í textum Íslenska málfrćđifélagsins    Leita í öllu efni á Kvisti


Pistlar um íslenskt mál:   9. júlí 2005

Jón G. Friđjónsson

Íslenskt mál - 55. ţáttur

Íslenskt mál - 55. þáttur

Það er kunnara en frá þurfi að segja að föst orðasambönd geta verði vandmeðfarin, oftast má hvergi víkja frá málvenju. Sem dæmi má nefna orðasamböndin leggja ástfóstur við e-n (t.d. leggja ástfóstur við barn) og taka ástfóstri við e-n/e-ð (t.d. taka (miklu) ástfóstri við kvæði skáldsins/landið).

 

Nafnorðið ástfóstur merkir í beinni merkingu ‘uppfæðsla sem einkennist af át; ást við fósturbarn’ en yfirfærð merking er ‘dálæti, væntumþykja’. Orðasamböndin tvö eru gamalgróin í málinu og notkun þeirra er í föstum skorðum; þeim má ekki rugla saman. Það getur því ekki talist rétt að rita: en hann hefur þó ekki lagt ástfóstri við hjólamennskuna (Fréttabl 22.5.05).

Annað dæmi af svipuðum toga skal tilgreint. Alkunn má telja orðasamböndin sjá ekki út úr e-u/verkefnum ‘sjá ekki fyrir endann á e-u (verkefnum)’ og sjá ekki fram úr e-u/því sem þarf að gera í svipaðri merkingu. Þá er einnig kunnugt orðasambandið sjá ekki út úr augunum (fyrir þoku, myrkri, sorta). Notkun framangreindra þriggja orðasambanda má styðja traustum dæmum og umsjónarmanni virðast þau gagnsæ að merkingu. Það skýtur hins vegar skökku við þegar þeim er slengt saman, t.d.: Það hefur nánast ekkert heyrst í NN meðan JJ sér ekki fram úr augum vegna anna (Fréttabl 18.6.05). Hér er tveimur orðasamböndum ruglað saman og auk þess notuð ‘tískuforsetningin’ vegna (vegna anna) í stað fyrir (fyrir önnum).

Í Íslenskri orðabók segir að ‘helmingi stærri [merki] ýmist tvöfalt eða hálfu stærri, 100% (50%) stærri’ og ‘helmingi minni [merki] 50% minni’. Í orðabók Blöndals segir hins vegar að helmingi merki 100% þegar um aukningu er að ræða en 50% þegar vísað er til smækkunar (‘naar der er Tale om Forögelse eller Formindskelse betyder helmingi henholdsvis 100% og 50%’).

 

Umsjónarmaður hefur vanist því að helmingi stærra, meira, dýrara ... merki ‘tvöfalt, tvisvar sinnum stærra, meira, dýrara ..., 100%’ en helmingi minna, léttara, dýrara ... merki ‘50% minna, léttara, dýrara ...’, t.d.: Pabbi minn er helmingi sterkari en pabbi þinn ‘tvöfalt sterkari, 100% sterkari’ og húsið mitt er helmingi minna en þitt ‘50% minna’. Dæmi úr fornu máli sýna ótvírætt að hálfu/helmingi fleiri merkir ‘tvöfalt fleiri, 100%’. Umsjónarmaður er að vísu ekki töluglöggur maður en honum sýnist þó að þetta megi til sanns vegar færa, allt veltur á því í hvora áttina viðmiðunin gengur (upp eða niður) ef svo má að orði komast. Sem dæmi má taka: Jón á 200 krónur en Páll á helmingi meira (‘400 krónur’) og Jón á 200 krónur en Páll á helmingi minna (‘100 krónur’).

 

Sá sem á helmingi minna en annar hlýtur að eiga ‘50% minna’, ef helmingi minna gæti merkt ‘100% minna’ ætti hann ekkert. Í nýlegri könnun var talið koma fram að konur hefðu helmingi lægri laun en karlar (100 ‘stig’) og karlar helmingi hærri laun en konur (200 ‘stig’) og samræmist slík framsetning því sem að framan greindi. Umsjónarmanni er ljóst að málnotkun kann að vera nokkuð á reiki hvað merkingu slíkra orðasambanda varðar en finnst slíkur margbreytileiki eitt af því sem gerir íslenska tungu skemmtilega.

Fjölmörg orð og orðasambönd í íslensku vísa til starfa og starfshátta á sjó og landi. Í mörgum tilvikum hefur sú vísun sem slík orð og orðasambönd hafa breyst eða horfið svo að þau eru ekki lengur gagnsæ, bein eða upphafleg merking liggur ekki í augum uppi.

 

Nýlega las umsjónarmaður skemmtilegt viðtal í Morgunblaðinu við Markús Guðmundsson, togaraskipstjóra. Þar komst Markús svo að orði: ... menn í bullandi ágjöf (á dekkinu) (Mbl 3.6.05). Hér er merkingin vitaskuld bein en lýsingarhátturinn bullandi er einnig notaður í herðandi merkingu í ýmsum samböndum. Þannig geta sjómenn verið í bullandi fiski, skákmenn lenda oft í bullandi tímahraki, stundum eru fyrirtæki rekin með bullandi tapi og umsjónarmaður minnist gamals vísubrots þar sem sagt er komið er bullandi stríð.

 

Það getur auðvitað verið matsatriði hvernig bullandi er notað en umsjónarmaður hrökk við þegar hann heyrði út undan sér sagt í sjónvarpi: það verður bullandi fótbolti um alla helgina. Dæmi sem þessi sýna að merkingarbreytingar geta verið með ýmsum hætti og afmörkun þeirra er ekki skörp. Sumar ná fram að ganga en aðrar ekki.

Úr handraðanum

Áhugamaður um íslensku spyr: Hver er munurinn á því að ríða hratt eða hart — eða hlaupa hratt eða hart? — Þessu er ekki auðsvarað að mati umsjónarmanns. Í Íslenskri orðabók er einungis að finna orðasambandið ríða hart ‘mjög hratt’ (Ísl. ob. 536) og á það sér samsvörun í fornu máli: Ríðum undan hart (Vatnsd 47.k.). Hart stendur hér sem atviksorð í merkingunni ‘harkalega; á miklum hraða’.

 

Í seðlasafni Orðabókar Háskólans er að finna hliðstæðurnar hlaupa hart (16. öld); aka hart (19.öld) og fara ekki hart yfir (20. öld). En þar með er ekki öll sagan sögð. Atviksorðið hratt er kunnugt í svipaðri merkingu í fornu máli, t.d. bátinn rak hratt frá landi, og Hallgrímur Pétursson kveður: Lífið manns hratt fram hleypur / hafandi öngva bið / í dauðans grimmar greipur, / gröfin tekur þá við. Í nútímanum lifa menn (of) hratt og margir hafa hratt á hæli.

Niðurstaða umsjónarmanns er sú að hvort tveggja sé rétt: ríða hart og ríða hratt. Fyrra afbrigðið á sér stoð í fornu máli og styðst við málvenju en vera má að merkingin í fornu máli sé ekki alveg sú sama og í nútímamáli. Síðara afbrigðið á sér ýmsar hliðstæður í fornu máli og fellur vel að merkingu lýsingarorðsins hraður. Umsjónarmaður hefur að vísu ekki kannað það en telur að í nútímamáli sé algengast að nota hratt (af hraður) í orðasamböndum af þessum toga, t.d. aka, ganga, hlaupa ... hratt.  

Morgunblaðið, 9. júlí 2005