Textaleit í útdráttum
Leita í textum Íslenska málfrćđifélagsins    Leita í öllu efni á Kvisti


Pistlar um íslenskt mál:   30. apríl 2005

Jón G. Friđjónsson

Íslenskt mál - 50. ţáttur

Íslenskt mál - 50. þáttur

Í fjölmörgum orðasamböndum eru óákveðna fornafnið sjálfur og afturbeygða fornafnið sig (þgf. sér, ef. sín) notuð saman, t.d.: falla á sjálfs sín bragði, koma til sjálfs sín og stela úr sjálfs sín hendi

Stundum bregður svo við að með afturbeygða fornafnið er farið sem eignarfornafn, þ.e. í stað sín er notað síns, t.d.: Hann hefur hagsmuni þeirra sem settu hann í starfið að leiðarljósi og þar með hagsmuni síns sjálfs (Fréttabl 1.4.05). Einföld leið til að átta sig á sambeygingunni er að breyta tölu frumlagsins (eintölu í fleirtölu) eða skipta um kyn, nota t.d. hún í stað hann. Þá ætti málkenndin að sýna sambeyginguna, t.d.: Hún hefur hagsmuni þeirra sem settu hana í starfið að leiðarljósi og þar með hagsmuni sín sjálfrar. 

Hér dytti væntanlega engum í huga að segja eða skrifa síns sjáfrar eða sinnar sjálfrar. — Þannig hefur þetta ávallt verið notað í íslensku. Jón Ólafsson Indíafari talar t.d. um að sníða sér skó eftir sjálfs sín vexti en nú sníða menn sér stakk eftir vexti.

Í fréttum ríkisútvarpsins var sagt: við getum ekki skorist undan ábyrgð í þeim efnum [skólamálum] (1.4.2005). Hér er fremur óvenjulega en rétt að orði komist. Í nútímamáli er jafnan talað um að skorast undan e-u í merkingunni ‘hliðra sér hjá e-u, koma sér undan e-u’ og er sú mynd kunn í fornu máli og algeng í síðari alda máli og nútímamáli. Afbrigðið skerast undan e-u er algengt í fornu máli,t.d: skerast undan liðsinni við e-n og skorast undan allri liðveislu við e-n. Umsjónarmaður hélt satt að segja að þetta afbrigði væri ekki lengur notað.

En dæmið sýnir það sem alkunna er: ýmiss konar orðafar getur varðveist ótrúlega vel í munnlegri geymd. Þetta er eitt af því sem gerir íslenska tungu fjölbreytilega og margbrotna.

Orðatiltækið sitja við sinn keip vísar til þess er menn halda fast við afstöðu sína. Keipur merkir ‘árarþollur’ og vísar líkingin til þess er maður er fastheldinn við sinn róðrarstað á báti, vill ógjarnan breyta til. Það er oft aukið með ao. fast en síður með lo. fastur enda er merkingarmunur á orðasamböndunum sitja fast og sitja fastur. Efirfarandi dæmi er því óvenjulegt: J.G. segir að meðan Markús Örn útvarpsstjóri sitji fastur við sinn keip standi Félag fréttamanna fast við samþykktir sínar (Fréttabl. 12. 3. 2005).

Orðatiltækið það er ljóná veginum á rætur sínar að rekja til Orðskviða Salómons (Orðskv 22, 13). Í nútímamáli er afbrigðið ljón í veginum (það eru mörg ljón í veginum) oft notað og gætir þar áhrifa frá dönsku [i vejen].

Ýmis önnur orðasambönd bera uppruna sinn með sér, t.d. ganga út frá e-u: ganga verður út frá að þeim [viðræðum] lykti með þeirri niðurstöðu að ... (Mbl. 22.8.04); e-ð gengur út á e-ð: Sú áætlun gengur í stuttu máli út á að fækka hermönnum (Mbl. 22.8.04); áttar sig engan veginn á því út á hvað varnarsamstarf Íslands við Bandaríkin gengur (Mbl 22.8.04); úttala sig um e-ð: Þegar banninu lýkur kem ég til með að úttala mig um þetta gegnum almenna [svo] fréttatilkynningu (Fréttabl. 8.2.05); í gegnum tíðina: verið sökuð um að ráðskast mikið með NN í gegnum tíðina (Mbl. 7.2.05); gera mikið af (‘að’) e-u í gegnum tíðina (4.7.04) og til margra ára: hann sleit samstarfi við samstarfsmann sinn til margra ára (Mbl. 7.2.05).

Það ætti að vera vandalaust fyrir þá sem vilja vanda málfar sitt að finna íslensk orð og orðasambönd til að tjá þá merkingu sem í ofangreindum orðasamböndum felst.

Hvíla, kvk., merkir ‘rúm’ en hvíld getur m.a. merkt ‘það að hvílast; svefninn langi’. Algengt er að menn gangi til hvílu eða leggist í hvílu og einnig er talað um að bera e-n til hinstu hvíldar eða leggja e-n til hinstu hvíldar. Það er hins vegar ekki rökrétt að tala um að leggja páfa til hinstu hvílu (Fréttabl 9.4.2005) né heldur leggjast til hinstu hvílu. Orðasambönd af þessum toga eru ekki tilgreind í orðabókum enda er það óþarfi, menn nota þau fyrirhafnarlaust í samræmi við málkerfið og málkennd sína.  

Úr handraðanum

Fjölmörg orð og orðasambönd í íslensku vísa til lífsbaráttunnar í harðbýlu landi og gamalla verkhátta. Eitt þeirra er sögnin andæfa/(andæfta) ((á) móti e-u). Í bréfum Jóns Sigurðssonar má t.d. lesa: Hvað vill hann nú með því að andæfta móti árgjaldinu? og  ... heldur gjöri hvað eg get til að andæfa móti því.

Sögnin andæfa vísar í beinni merkingu til þess er róið er gegn vindi eða straumi og þannig séð til þess að bát hvorki reki né hreki. Í Sturlungu segir t.d.: Þá féll á stormur svo mikill, að þeir fengu eigi betur en andæft, sbr. enn fremur hið forna orðasamband sitja við andóf.

Óbein merking eða yfirfærð ‘mótmæla e-u, mæla gegn e-u’ er kunn frá fyrri hluta 17. aldar: var svo andæft Staðarbakka dómi.

Morgunblaðið, 30. apríl 2005