Textaleit í útdráttum
Leita í textum Íslenska málfrćđifélagsins    Leita í öllu efni á Kvisti


Pistlar um íslenskt mál:   16. apríl 2005

Jón G. Friđjónsson

Íslenskt mál - 49. ţáttur

Íslenskt mál - 49. þáttur

Samræmi á milli orða er mikilvægt í íslensku, t.d. samræmi í kyni, tölu eða falli.

Í flestum tilvikum er samræmi í föstum skorðum en stundum getur þó brugðið út af því. Í textavarpinu var t.d. nýlega fjallað um fráfall Jóhannesar Páls páfa og yfirskriftin var: Yfir miljón manna hafa kvatt páfa (6.4.2005). Samkvæmt málvenju ætti sögnin að laga sig að eintölunni milljón og því ætti hún að standa í eintölu (hefur).

Trúlega er það fleirtalan manna sem hefur hér áhrif. Í meginmáli undir fyrirsögninni var sambeygingin hins vegar í samræmi við málvenju: Talið er að um ein miljón manna þegar búin að votta Jóhannesi Páli páfa virðingu sína ... yfir miljón, sem beið í röð (6.4.05).

Sambeyging í íslensku er jafnan málfræðileg, tala og/eða kyn frumlags ræður ferðinni en ekki merking þess. Þannig er fjöldi eintöluorð þótt merking þess vísi til fleirtölu og sama á við um nafnorðið fólk og fjölmörg önnur og það er málfræðileg mynd sem ákvarðar sambeygingu en ekki merkingin, t.d.: fjöldi manna þusti; stóð þar fjöldi manna og beið þess; fjöldi bifreiða er bilaður; fjöldi manns sótti hátíðina og hvorugt ríkjanna flytur út olíu.

Á síðum dagblaða og í fjölmiðlum gætir þess nokkuð að reglur um ýmiss konar samræmi séu ekki virtar. Umsjónarmaður telur reyndar að fremur sé um að kenna fljótfærni og óvandvirkni en slíkt geti verið mál viðkomanddi fjölmiðlunga. Sem dæmi má nefna eftirfarandi (innan hornklofa eru þær myndir sem venjulegar má telja): 

  • fórnarlömb [fórnarlömbum], sem hlutu læknisfræðilega örorku undir 16%, var meinað um bætur (Mbl. 31.1.04);

  • Nú er svo komið að fíkn í lyf, sem læknar ávísa eru [er] orðinn [orðin] aðalvandi allt að 10% sjúklinga (Mbl 7.4.05);

  • Þeir læknar [þeim læknum] sem neita að vinna samkvæmt þessu svindlkerfi virðist vera synjað um að taka þátt í tveggja lækna mötum (Mbl. 6.3.05);

  • Öryggi við höfuðstöðvar Bagdad voru [var] ófullnægjandi (Mbl 22.10.03);

  • Stúlkan [stúlkunni], sem varð fyrir voðaskoti á Hallormsstað, líður vel (Fréttabl. 8.1.04);

  • heilsu [heilsa] hans tók að versna (Fréttabl 18.12.04);

  • viðræðunum [viðræðurnar] sigldi [sigldu] í strand (Sjónv 11.12.04) 

  • eftirlit [eftirliti] ... hafi verið verulega áfátt (Mbl. 24.12.04)

Eins og áður gat virðast ágallarnir í dæmunum hér að ofan vera þess eðlis að prófarkalesari ætti að geta kippt þeim í lag. Í sumum tilvikum virðist óreglan hins vegar vera annars eðlis. Umsjónarmaður á við endurtekin frávik, tilvik sem sjá má aftur og aftur.

Sem dæmi um þetta skal tekið orðasambandið gera grein fyrir einhverju. Það er oft notað í þolmynd, t.d. í samanburðarliðum, og þá á lh. þt. af gera vitaskuld að sambeyjast kvenkyns nafnorðinu grein, t.d.: eins og gerð hefur verið (glögg) grein fyrir og ástæðurnar eru þær sem gerð hefur verið grein fyrir. Í nútímamáli er hins vegar oft notuð hvorugkyn eintölu, t.d.: kröfur sem gert [gerð] hefur verið grein fyrir.

Alloft er erfitt að útskýra eða skilja þær breytingar sem hafa orðið á íslensku í aldanna rás. Ein þessara breytinga snertir forsetningarliðinn í gærkvöldi. Upprunaleg mynd er í gærkvöld, sbr. hliðstæðurnar í morgun, í gærmorgun, í fyrradag og ýmsar aðrar þar sem notað er þolfall. Á 17. öld kemur hins vegar upp myndin í gærkvöldi (fyrir í gærkvöld), sem sker sig úr.

Þess ber að geta að ef stofnorðið er ákveðið (síðasta vika, ár) þá er vísað til liðins tíma með fs. í/á að viðbættu þágufalli, t.d. í há­deg­inu; í síðust viku / síðasta ­mánuði; í þessari viku; á síðasta ári og í þessum mánuði.

Umsjónarmanni var kennt í skóla að réttara væri að segja í gærkvöld en í gærkvöldi. Vissulega er það rétt að fyrri myndin er í samræmi við uppruna en síðari myndin er trúlega 400 ára gömul í íslensku. Þar við bætist að í nútímamáli er lengri myndin í gærkvöldi miklu algengari en styttri myndin í gærkvöld.

Umsjónarmaður athugaði tíðnina á leitarvefnum google og í leitarvefnum mbl.is. Í fyrra tilvikinu voru hlutföllin 41.500:1631 og því síðara 962: 290, lengri myndinni í vil. Í Íslenskri orðabók er báðum myndunum gert jafn hátt undir höfði. Hér ber því allt að sama brunni: myndin í gærkvöldi á sér allgamlar rætur í íslensku og hún er algeng í nútímamáli. Hún hlýtur því að teljast góð og gild í íslensku.

Í Morgunblaðinu var fyrir skömmu fjallað um framkvæmdir við Kárahnjúkavirkjun. Greinin birtist á forsíðu undir yfirskriftinni Fimm kílómetrar af göngum í fjallinu (Mbl 16. 2. 05) í merkingunni ‘göng í fjallinu eru samtals fimm kílómetrar (að lengd)’. Flestir munu finna að hér er óvenjulega að orði komist. Ástæðan er sú að forsetningarliðurinn af e-u vísar oft til magns (kaupa þrjú kg. af eplum; eiga mikið/lítið af e-u), tegundar (kaupa tvo metra af e-u/lérefti) eða hluta (ganga tvo kílómetra af leiðinni), en ekki til vegalengdar (leggja tvo kílómetra af vegi).   

Úr handraðanum

Flestir munu kannast við málsháttinn Því verr duga/gefast heimskra manna ráð sem fleiri koma saman. Hann á rætur sínar í Laxdæla sögu, ummælium Ólafs pá er hann hafði lent í hafvillu. Menn greindi á hvert stefna skyldi og var skotið til hans að skera úr um það. Hann hallaðist á sveif með Erni stýrimanni, gegn vilja flestra innan borðs, og mælti:

Það vil eg að þeir ráði sem hyggnari eru; því verr þykir mér sem oss muni duga heimskra manna ráð, er þau koma fleiri saman (Laxd, 21.k.). Sömu hugsun er að finna annars staðar í fornu máli, t.d. í Hauksbók: Oft dvelur (‘tefur’) góð ráð fjölmenn yfirseta og í Hungurvöku: ... á einn veg reyndist það ávallt að eiga undir mörgum heimskum, er einn vitur maður má vel fyrir sjá með stillingu