Textaleit í útdráttum
Leita í textum Íslenska málfrćđifélagsins    Leita í öllu efni á Kvisti


Pistlar um íslenskt mál:   13. nóvember 2004

Jón G. Friđjónsson

Íslenskt mál - 40. ţáttur

Íslenskt mál - 40. þáttur

Munurinn á forsetningunum eftir og á eftir mun vera skýr í hugum flestra Íslendinga.

Forsetningin eftir að viðbættu þolfalli vísar í flestum tilvikum beint eða óbeint til tíma, t.d.:

 • ég kem eftir tvo daga

 • skilja eitthvað eftir sig

Forsetningin á eftir að viðbættu þágufalli vísar hins vegar oft til hreyfingar í röð, t.d.:

 • hlaupa á eftir einhverjum

 • koma á eftir einhverjum

Málið er þó ekki alveg svona einfalt því að í föstum orðasamböndum er nokkurt svigrúm til að nota hvort sem er eftir e-m eða á eftir e-m, t.d. er ýmist sagt reka eftir einhverjum [eftirrekstur] eða reka á eftir einhverjum (oftast þannig).

Ástæðan er sú myndin reka eftir einhverjum er upprunaleg og breytingin eftir > á eftir (með vísan til hreyfingar í röð) er ekki um garð gengin í tilteknum samböndum. Þetta kemur þó ekki að sök, málkennd manna sker úr í vafatilvikum.

Hitt er verra og nýtt af nálinni að forsetningin á eftir sé látin vísa til tíma, t.d.:

 • ?á eftir allt [þ.e. eftir allt] sem á undan er gengið

 • ?á eftir messu [þ.e. eftir messuna] er kirkjugestum boðið að ...

 • ?Morguninn á eftir [þ.e. eftir] fór hann

 • ?eignast eitthvað á eftir e-m [þ.e. eftir e-n]

 • ?Er líf á eftir dauðanum? [þ.e. eftir dauðann].

Öll eru þessi dæmi fengin úr prentuðu máli og hér er nýmæli á ferð sem hvorki samræmist málvenju né getur talist til fyrirmyndar.

Eins og áður sagði er upphaflega myndin eftir einhverjum enn notuð í föstum orðasamböndum. Allir ættu að geta verið sammála um það að við segjum t.d.

 • láta eitthvað/allt eftir einhverjum

 • sjá eftir einhverju

 • fylgja einhverju (góðum sigri) eftir

Umsjónarmaður varð því mjög undrandi er hann rakst á dæmið ?fylgja e-u á eftir [þ.e. eftir] (Sjónv. 23. 6.04).

Sögnin að forða sér/e-m merkir ‘bjarga sér/e-m, koma sér/e-m undan e-u’, t.d.:

 • Guð forði mér frá því að ...

 • forða lífi sínu

 • eitthvað forðar einhverjum frá gjaldþroti

 • þjófurinn reyndi að forða sér

Í nútímamáli ber oft við að sögnin sé látin merkja ‘koma í veg fyrir e-ð, afstýra e-u, hindra e-ð’, t.d.:

 • ?forða því að brúargólfið fari af stað (Mbl. 5.8.04)

 • ?Ökumaður jeppans ... náði ekki að forða árekstri (Fréttabl 5.8.04)

 • ?reyndi að forða slysi (Fréttabl, 11.8.04)

 • ?forða verkfalli (19.9.04)

 • ?forða sér frá fallbaráttunni (Mbl 20.8.04).

Slík notkun mun einungis vera kunn úr nútímamáli og getur ekki talist til fyrirmyndar.

Eindæmin eru verst sagði Grettir Ásmundarson (Grettis saga, 16. kafli). Í nútímamáli er til hvort tveggja eindæmi ‘sjálfdæmi’ og einsdæmi ‘einstæður atburður’.

Með orðinu eindæmi er myndað orðasambandið gera eitthvað upp á sitt eindæmi ‘á eigin ábyrgð’ en orðið einsdæmi er notað í beinni merkingu, t.d. það er ekkert einsdæmi að ...

Þessum tveimur orðum bera að halda aðskildum, þeim má helst ekki rugla saman eins og í eftirfarandi dæmi: ?Koma þarf í veg fyrir að einn ráðherra geti tekið geðþóttaákvörðun upp á sitt einsdæmi [þ.e. eindæmi] hver setjist í æðsta rétt þjóðarinnar (30.9.04). - Það er örugglega ekkert einsdæmi að ráðherra geri eitt og annað upp á sitt eindæmi, það er raunar eindæma ósennilegt að þeir láti af því.

Til gamans má geta þess að af myndinni eindæmi (t.d. í Grettis sögu) er myndað nafnorðið endimi eða endemi og er það notað í ýmsum samböndum, t.d.: mörg endemi tóku menn þá til önnur, þau er nú mundi ódæmi þykja og eitthvað er með (mikilum) endemum, sbr. enn fremur: endemis rugl, vitleysa ... (‘einstakt rugl’).

Orðatiltækið e-ð liggur í loftinu merkir ‘e-ð mun gerast (fljótlega), e-ð vofir yfir’, t.d.:

 • mér fannst einhver ógnun beinlínis liggja í loftinu

 • það liggur í loftinu að stjórnvöld láti verkfallið til sín taka

Orðatiltæki þetta mun vera erlent að uppruna en það skiptir reyndar ekki höfuðmáli, telja má að það hafi öðlast fullan þegnrétt í íslensku. Hitt finnst umsjónarmanni mikilvægt að það sé notað með þeim hætti sem málnotendur hafa komið sér saman um. Svo er þó ekki alltaf eins og eftirfarandi dæmi sýnir: Hin endalausa spurning sem hangið hefur í loftinu ... (Fréttabl, 5.7.04).

Slík málbeiting finnst umsjónarmanni ekki til fyrirmyndar en hér dæmi hver fyrir sig.

Úr handraðanum

Sögnin stagast á e-u merkir ‘klifa á e-u, endurtaka e-ð (í sífellu); þrástagast á e-u’, t.d. skrifar Jón Thoroddsen í Pilti og stúlku: Þetta er nú hún Tigga þín, sem þú hefur verið allajafna að stagast á og í þjóðsögum Jóns Árnasonar stendur: stagast aftur og aftur á þessu.

Umsjónarmaður telur að líkingin að baki orðasambandinu vísi til þess er bót er stöguð á flík eða skó. Til þessa bendir að Gísli biskup Þorláksson segir í bréfi (1669) að hann geti ei legið í því skóbótarstagi árlega árs að skrifa nýtt umboðsbréf en þar er vísað til sífelldra endurtekninga.

Sögnin að staglast á e-u ‘stagast á e-u, endurtaka e-ð í sífellu’ er talsvert yngri (frá 19. öld) en þar kann líkingin að vísa til þess er menn stagla sokk, stagla í gat (á flík) eða stagla saman gat. Til slíkrar iðju vísar nafnorðið stagl, t.d. málfræðistagl og bónastagl.

Umsjónarmaður hefur vanist því að nota fremur sögnina staglast á e-u en stagast á e-u og málfræðistag (eða annað af þeim toga) þekkir hann alls ekki.

Morgunblaðið, 13. nóvember 2004