Textaleit í útdráttum
Leita í textum Íslenska málfrćđifélagsins    Leita í öllu efni á Kvisti


Pistlar um íslenskt mál:   5. janúar 2008

Jón G. Friđjónsson

Íslenskt mál - 119. ţáttur

Orðfræði

Nafnorðið brestur er notað sem stofnorð í ýmsum föstum orðasamböndum. Í Njáls sögu segir t.d. frá því er Kaupa-Héðinn (Gunnar Hámundarson) fór um sveitir og bauð smíði til kaups. Ef að söluvörunni var fundið barði hann í brestina (‘afsakaði ágalla’) og í Orðskviðunum segir: kærleikurinn breiðir yfir alla bresti. Umsjónarmaður kannast hins vegar alls ekki við afbrigðið sópa yfir brestina en það gat þó nýlega að líta í dagblaði: það er stjórnarliðið sem þarf að vera samstætt og getur ekkert sópað yfir brestina í því að masa (27.10.07). Trúlega er þetta misritun eins og reyndar fleira í sama dæmi. Hvað merkir að vera samstæður? Og menn breiða yfir besti með einhverju en ekki í einhverju. Stjórnmálamenn jafnt sem allir aðrir er rita í blöð verða að vanda sig.

Fastur/föst eða fast

Stundum ber við að lýsingarorðinu fastur/föst og atviksorðið fast sé ruglað saman. Það krefst reyndar ekki neinnar málfræðikunnáttu að halda þeim aðgreindum, málkenndin nægir auk þess sem merkingarmunur er á lýsingarorðinu fastur og atviksorðinu fast (‘fastlega’) og þar við bætist að ao. vísar til sagnar en lo. til nafnorðs. Þannig er mikill munur á dæmunum maðurinn stendur fast við framburð sinn og naglinn stendur fastur í veggnum. Eins og áður sagði getur þó brugðið út af venjubundinni málbeitingu, t.d.: [borgarfulltrúinn] stendur hins vegar fastur á að [svo] ábyrgð stjórnar OR (24.10.07); Ráðherrann ..... afnam z með auglýsingu í september 1974 og stóð fastur á sínu (8.10. 07) og Á meðan situr dómsmálaráðherra fastur við sinn sérstæða keip (4.12.06).

Ofnotkun nafnháttarsambanda

Í þessum þáttum hefur oft verið vikið að ofnotkun nafnáttar, t.d. í dæmum eins og: ég er ekki að skilja þetta eða liðið er ekki að leika vel. Í allmörgum tilvikum kann að vera um álitamál að ræða en flestir hljóta þó að vera sammála um að eftirfarandi dæmi séu óeðlileg: Ég er ekki að reikna með mikilli úrkomu á morgun (18.11.07) og ritstjóri Mbl. getur sofið rólegur því ég er ekki að rjúka upp og standa fyrir lagningu á nýjum vegi yfir Kjöl (16.6.07). — Í síðara dæminu er vísað til framtíðar og virðist umsjónarmanni það til vitnis um að ofnotkun nafnháttar sé orðin býsna föst í málinu.

Hugarleti eða tískudaður

Í nýársávarpi sínu sagði Ólafur Ragnar Grímsson forseti Íslands: „Þeir sem efast um að háskólar eða fyrirtæki geti áfram notað íslenskuna í daglegum önnum og halda því fram að enskan eða önnur heimsmál eigi leikinn, ættu að muna hvernig Jónas [Hallgrímsson] beitti íslenskunni, fangaði þekkingu í vísindum og tækni með snjöllum nýyrðum sem okkur eru nú svo tungutöm að flestum kemur á óvart að þau eru í raun gjöf Jónasar til Íslendinga, áminning um að íslensk tunga er tæk á allt, að móðurmálið býr yfir slíkum krafti til nýsköpunar að einungis hugarleti eða tískudaður eru afsökun fyrir því að veita enskunni nú aukinn rétt.“ (1.1.2008). Þetta ætti að vera okkur öllum þörf áminning, íslensk tunga er tæk á allt.“

Fallstjórn

Fjölmörg sagnorð stýra ýmist þolfalli eða þágufalli í ólíkri merkingu, t.d. ausa bátinn en ausa vatninu; sópa gólfið en sópa ruslinu; moka tröppurnar en moka snjónum og ryðja götuna en ryðja snjónum burt. Í fyrra tilvikinu vísar þolfallið til kyrrstöðu (það sem ausið er hreyfist ekki) en þágufallið vísar til „hreyfingar“ (því/einhverju/vatni er ausið). Merkingarmunur er jafnan skýr og málkenndin bregst sjaldan. — Eftirfarandi dæmi samræmist ekki umræddum „reglum“: Veislustjóri bragðaði vatnið sem var orðið vín og vissi ekki hvaðan það var en þjónarnir, sem vatnið [þ.e. vatninu] höfðu ausið, vissu það (Jóh 2, 9 (2007)).

Úr handraðanum

Margir hafa gaman af að velta fyrir sér merkingu og myndun orða, t.d. muninum á lýsingarorðunum blóðstokkinn og blóðstorkinn. Hið fyrra er dregið af nafnorðinu blóð og lýsingarhættinum stokkinn, af sögninni stökkva einhverju á einhvern (‘ýra/úða e-u á e-n’), sbr. blóðstokkið klæði og blóðstokkin föt. Hið síðara, blóðstorkinn, er dregið af nafnorðinu blóð og lýsingarhættinum storkinn (af týndri sterkri sögn), sbr. sögnina storkna og enn fremur: stara blóðstorknum augum á einhvern. Orðmyndin blóðstokkinn er hér trúlega upphafleg, enda algeng í fornu máli, t.d.: vera sveita/svita stokkinn. Breytingin blóðstokkinn > blóðstorkinn er þó býsna gömul og hefur áunnið sér hefð. Eftirfarandi dæmi er því gott og gilt: að ógleymdum rauða, svitastorkna höfuðklútnum (22.11.07).