Textaleit í útdráttum
Leita í textum Íslenska málfrćđifélagsins    Leita í öllu efni á Kvisti


Pistlar um íslenskt mál:   23. júlí 2005

Jón G. Friđjónsson

Íslenskt mál - 56. ţáttur

Íslenskt mál - 56. þáttur

Prófessor Jón Helgason var mikill málræktarmaður og afstaða hans til erlendra orða í íslensku var skýr. Um þetta segir hann: En eigi íslensk máltilfinning að haldast óspillt, verðum við að berjast af alefli gegn erlendum, hingað til mest dönskum, orðum og talsháttum sem ekkert erindi eiga, ekkert skarð fylla, heldur aðeins þvælast fyrir og byggja út jafngóðum eða betri orðatiltækjum af innlendri rót sem við áttum fyrir.

Umsjónarmanni virðast þessi varnaðarorð enn eiga fullan rétt á sér að því breyttu að nú er það enskan sem sækir á af sífellt auknum þunga.

Nýlega setti KEA á Akureyri nýja afurð á markað, skyrdrykk undir nafninu Smoothie. Um þetta segir Guðmundur Andri Thorsson: ‘En óneitanlega finnst manni það hálf leiðinlegt að gamalgróinn framleiðandi skuli finna sig knúinn til að grípa til ensku í því skyni að laða ungt fólk til að leggja sér til munns framleiðsluna’ (Fréttabl 20.6.05).

Undirritaður tekur heilshugar undir þetta og þykir reyndar vægt að orði komist. En KEA-menn eru því miður ekki einir á báti því að Síminn lætur sér sóma að skreyta auglýsingar sínar með ensku. Í einhvers konar auglýsingarherferð fyrirtækisins getur að líta þrjá menn við ýmsar aðstæður og textinn hljóðar t.d. svo: Spjallaðu eins og þú vilt við þrjá flippaða vini. ... Sæktu foxý músik og fönkí myndir. ... Með öllum GSM tilboðum fylgja grúví símalínuskautar á 2.000 kr. — Hver er boðskapurinn? Sonur umsjónarmanns reyndi að útskýra það: ‘Pabbi, skilurðu þetta ekki. Það er gaman hjá þeim. Allir vilja vera þar sem gaman er.’

Vel má vera að þetta sé rétt en umsjónarmanni finnst það ekki bera vott um mikinn metnað að velja hugsun sinni eða boðaskap þennan búning. Verst er þó að umsjónarmann grunar að málfar símaauglýsinganna beri vott um það sem kalla má ‘ýkt eða tilbúið unglingamál’. Svo mikið er víst að þeir unglingar sem ég hef talað við kannast ekki við þetta enskuhröngl, flestir svara hlæjandi: ‘Nei, við tölum ekki svona.’

Hráar enskuslettur eru algengar í talmáli en sem betur fer eru þær ekki algengar á prenti þótt vissulega bregði þeim fyrir. Um alllangt skeið hefur umsjónarmaður reynt að fylgjast með málfari dagblaða og fjölmiðla og virðist honum Síminn hafa skapað sér nokkra sérstöðu á þessu sviði, að minnsta kosti fetar hann fáfarnar, jafnvel ótroðnar slóðir. Reyndar treystir umsjónarmaður málsmekk almennings það vel að hann hefur ekki mjög miklar áhyggjur af hráum slettum, t.d. víla og díla við vini sína (Fréttabl. 12.4.05). Öllu verri þykja honum óbein áhrif þar sem búningurinn er íslenskur en hugsunin ensk. Lítum á nokkur dæmi.

 • Við leituðum húsið (til að kanna hvort þar leyndist eldur)(Sjónv 24.4.05) = e. search the house.

 • Af hverju Mannréttindastofa? (Mbl. 19.5.05) = e. why ...?

 • Ég er upplýstur um innihald skýrslunnar (Mbl. 5.6.05) = e. informed.

 • Felt virðist hafa samúð fyrir [svo] spurningum þessa týnda manns (Mbl. 5.6.05) = e. lost man.

 • Nadal ... kom til baka eftir að hafa tapað fyrsta settinu (Fréttabl 6.6.05) = e. come back. ...

 • það var ekki einfalt að setja fingurinn á veiluna (Mbl 15.6.05) = e. put a finger on.

 • Þegar leikkonan kom heim frá spítalanum (Fréttabl 13.6.05) = e. ... from the hospital. ...

 • taka u-beygju (Textav 29.5.05) = e. take a u-turn. ...

 • ég hef sett allt vandræðalegt á bak við mig (Blaðið 10.6.05) = e. put behind oneself. 

 • tók þá ákvörðun til baka í dag (Textav 22.6.05) = e. take back. ...

 • en hlutirnir eru ekki að falla með okkur ‘okkur gengur ekki vel’ (Fréttabl. 18.6.1005).

Af síðasta dæminu eru afbrigði með detta algeng en í báðum tilvikum virðist um að ræða nýmæli sem samsvarar ensku fall. Framangreind dæmi sýna ensk áhrif á orðaforðann en breytingar á málkerfinu sjálfu blasa einnig við, t.d. í síðasta dæminu: ... eru ekki að falla með okkur = are not going our way.

Úr handraðanum

Orðasambandið gera e-ð að e-m fornspurðum merkir ‘gera e-ð án vitundar e-s, án þess að spyrja hann’. Svipað orðafar er kunnugt í fornu máli, þ.e. gera e-n fornspurðan að e-u, t.d.: Þykir mér illa að faðir hennar er gjörður fornspurður að þessu.  Orðmyndin fornspurður [lo. forn + lh.þt. spurður] er einhöfð í fornu máli og fram á 20. öld. Á síðari hluta 20. aldar skaut afbrigðið forspurður upp kollinum í sömu merkingu en þar stendur for- sem neitandi forskeyti. 

Morgunblaðið, 23. júlí 2005