Textaleit í útdráttum
Leita í textum Íslenska málfrćđifélagsins    Leita í öllu efni á Kvisti


Pistlar um íslenskt mál:   22. desember 2007

Jón G. Friđjónsson

Íslenskt mál - 118. ţáttur

Senda á e-n?

Enska sækir stöðugt á, oftast með svo áberandi hætti að ágengnin blasir við öllum en stundum nánast smeygir hún sér inn í tunguna. Dæmi af síðarnefnda toganum er að nú hika menn ekki við að senda skeyti eða póst á einhvern, t.d.: Við sendum bréf á hundrað stærstu fyrirtækin í landinu (5.4.07) og Hótunarbréf send á einn af meintum gerendum (29.6.07). Hér gætir augljóslega áhrifa frá ensku (mail on) en fram til þessa höfum við sent eða skrifað einhverjum bréf eða sent skeyti til tiltekins lands. Umsjónarmaður kann þessu illa.

Rétt er að geta þess að sagnarsambandið senda e-ð á e-n er kunnugt í öðru samhengi. Í máli íþróttamanna (boltamanna) mun vera algengt að tala um að senda eða gefa boltann á einhvern (‘senda boltann til einhvers’). Þar er merkingin önnur auk þess sem um ‘sérmál’ (íþróttamál) er að ræða.

Fallstjórn

Áður hefur verið minnst á það á þessum vettvangi (58. þáttur) að þeirrar tilhneigingar virðist gæta í nútímamáli að nota jafnan þágufallsmynd af lýsingarhættinum tengdur, einnig þar sem hún á alls ekki við. Svo virðist sem fallstjórn lýsingarháttarins tengdur [tengdur einhverjum] hafi hér áhrif. Dæmi: Hann var ákærður fyrir grimmilega meðferð á hundum og að hafa skipulagt hundaslagsmál [‘hundaat’] og veðmál tengdum [tengd] slagsmálunum (23.8.07); Rannsókn efnahagsbrotadeildar á meintum skattalagabrotum nokkurra einstaklinga tengdum [tengdra] Baugi Group er á síðustu metrunum (2.8.07); Femínistafélag Íslands fagnar úrskurði siðanefndar Sambands íslenskra auglýsingastofa (SÍA) vegna kæru á hendur Vífilfelli tengdri [tengdrar] auglýsingu um kók zero (10.6.07) og Hvalveiðar í vísindaskyni og kostnaður þeim tengdum [tengdur] kostuðu íslenska ríkið um 700 milljónir króna (24.5.07). Svo virðist sem lýsingarhátturinn tengdur stýri falli á sjálfum sér en skýring á fyrirbærinu liggur ekki í augum upp. En það er ekki aðeins lýsingarhátturinn tengdur sem er ofurseldur þessum örlögum, sbr. eftirfarandi dæmi: eftir að hafa hlustað á lofræður beggja frambjóðenda skreyttum [skreyttar] kerskni í garð hvors annars þá ... (25.5.07) og Mig aldrei hefur sárara snert afdrif saklausrar og ástúðlegrar stúlku, óháðri [óháðrar] mér.

Á eða í?

Forsetningarnar á og í vísa oft til hreyfingar á stað (með þolfalli) eða kyrrstöðu á stað (með þágufalli), t.d. setjast á stólinn en sitja á stólnum og setjast í sófann en sitja í sófanum. Merking forsetninganna er að því leyti ólík að á vísar yfirleitt til hins ytra en í til hins innra. Þetta er þó ekki alveg svona einfalt því að stundum er gerður munur, t.d. segjum við fara í hús en fara á pósthús. Ef betur er að gáð má sjá að forsetningin á vísar oft til stofnana (á þingi, á skrifstofunni, á sjúkrahúsi, niður á lögreglustöð o.s.frv.) en í hins vegar miklu sjaldnar (í stofunni, í húsinu, í byggingunni, í leikhúsi o.s.frv.). Það er samkvæmt þessari reglu sem sagt er: Þar [á skerinu] hringdi hann á Neyðarlínuna (19.10.07) og af sama meiði er orðasambandið fara/skeppa á bíó en hvorugt dæmanna getur talist til fyrirmyndar.

Brjóta eða brotna?

Það vefst naumast fyrir nokkrum manni að mikill munur er á sagnorðunum brjóta og brotna. Fyrrnefnda sögnin vísar til verknaðar (‘mola, mölva’) en hin síðarnefnda til breytingar (‘hrökkva í sundur, bresta, molna’). Þannig er allur munur á því að brjóta (lög) á manni og því er alda brotnar e-s staðar. Orðasambandið eitthvað brotnar á einhverju ‘eitthvað strandar á einhverju’ er algengt og gagnsætt að merkingu. Í nútímamáli er stundum farið rangt með það, t.d.: [Að Samfylkingin muni] finna mál til að láta brjóta á (14.10.07); Siv Friðleifsdóttir, sem hafði haft forystu um það innan þingflokksins að efna til átaka og láta brjóta á auðlindaákvæðinu, samþykkti líka (9.3.07); tilraunir ákveðins hluta Framsóknar til þess að skapa sérstöðu og láta brjóta á stjórnarskrárbindingu auðlindaákvæðis stjórnarsáttmálans (9.3.07) og fara í viðræður og láta þá brjóta á málefnum (20.5.07). 

Úr handraðanum

Jóhan Hendrik W. Poulsen hringdi frá Færeyjum og sagði frá því að árið 1994 hefði hann ferðast hjólríðandi um Ísland. Einhvers staðar á Norðurlandi sá hann að einhver sérvitringur, eins og hann orðaði það, auglýsti: Ból og biti, augljóslega í merkingunni ‘bed and breakfast’. ‘Sérvitringnum’ frá Færeyjum fannst þetta snjöll þýðing og kom henni á framfæri í heimalandi sínu. Nú er þetta algengt mál í Færeyjum og Íslendingum sem koma þangað finnst þetta eftirminnilegt að sögn Jóhans. 

Umsjónarmaður óskar lesendum gleðilegra jóla og farsæls komandi árs með kærri þökk fyrir ánægjuleg samskipti á liðnum árum.