Textaleit í útdráttum
Leita í textum Íslenska málfrćđifélagsins    Leita í öllu efni á Kvisti


Pistlar um íslenskt mál:   15. desember 2007

Jón G. Friđjónsson

Íslenskt mál - 117. ţáttur

Aflsáttur á eða af eða kannski frá einhverju?

Nafnorðið afsláttur er m.a. notað í merkingunni (1) ‘undanlátssemi; það að slá af e-u’ og (2) ‘verðlækkun’. Ég hef vanist því að nota með því forsetninguna af, t.d.: afsláttur af fatnaði; gefa e-m afslátt af skuld; enginn afsláttur verður gefinn af íslensku (7.10.07) og En íslenskan er það tungumál sem á að vera númer eitt alls staðar og af því verður enginn afsláttur gefinni (7.10.07). Hins vegar hef ég rekist á traust dæmi frá 19. öld þar sem notuð er forsetningin á, t.d.: fara fram á afslátt á bókum og þrefa um bók sem hann vildi fá afslátt á. Hliðstæð dæmi eru auðfundin í nútímamáli: Við munum ekki gefa neinn afslátt á íslenskunni (7.10.07) og Hvít-Rússar hafa fengið afslátt á gasi frá Rússlandi (29.12.06).

Vel má vera að einhver merkingarmunur sé á orðasamböndunum afsláttur á einhverju og afsláttur af einhverju en hvort tveggja hlýtur að teljast rétt. Hins vegar er engin hefð fyrir myndinni afsláttur frá einhverju: En það er einnig mikilvægt að slá því föstu að enginn afsláttur verði gefinn frá grunngildum íslensks samfélags (8.2.07). Hér kann að gæta áhrifa frá samböndunum víkja ekki frá e-u og hvika hvergi frá einhverju eða öðrum hliðstæðum samböndum.

Spara ekkert til

Orðasambandið kosta e-u/miklu/litlu/öllu til (e-s) vísar til þess er menn kosta fé/peningum til e-s og er það allgamalt í málinu. Orðasambandið spara ekki/ekkert til (e-s) er eldfornt, jafngamalt elstu heimildum. Í Íslensku hómilíubókinni stendur: vísar oss til þess fagnaðar er vér skyldum ekki til spara að vér næðum. Í nútímamáli gætir þess nokkuð að þessu tvennu sé ruglað saman svo að úr verður spara engu til, t.d.: Tyrknesk yfirvöld ætla engu til að spara í þeim ásetningi sínum (11.10.07); Engu er til sparað [til að gera tónleikana sem best úr garði] (16.8.07) og verður engu til sparað til að hafa upp á hinum seku (8.7.05).

Ókey, hæ og bæ

Jóhann Örn Sigurjónsson skrifar (19.10.2007): ,,Fyrir nokkru ákvað ónefnd útvarpsstöð að halda dag íslenskrar tungu. Stjórnandinn talaði fjálglega um gildi slíks dags og gekk nú allt vel í bili, allt þar til hlustandi hringdi og spurði: ,,Á þetta ekki að vera dagur íslenskrar tungu?’’ ,,Vissulega,’’ svaraði stjórnandinn. ,,En af hverju segir þú þá alltaf ókey?’’ Það kom smá hik á stjórnandann en síðan kom þetta merkilega svar: ,,Ókey er orðið hluti af íslensku máli.’’ — Ef það er raunin er illa komið.

Önnur ensk smáorð sem smogið hafa inn í málið okkar eru kveðjurnar og . Hér áður fyrr þegar barnungir synir mínir fóru skyndilega að kveðja og heilsa á þann hátt var mér brugðið. Vörn mín var sú að í hvert skipti sem ég var kvaddur með spurði ég alltaf sömu spurningarinnar: ,,Ertu að fara niður í bæ?’’ ,,Nei,’’ var svarið ,,af hverju heldurðu það?’’ ,,Af því að þú talaðir um bæ.’’ ,,Nei, bæ þýðir bara bless.’’ ,,Nú, af hverju sagðirðu þá ekki bara bless?’’ spurði ég á móti. Eftir nokkur slík orðaskipti gáfust synirnir upp á þessum skilningssljóa föður, fóru að kveðja mig á íslensku og hafa gert síðan.’’ Umsjónarmaður þakkar Jóhanni kærlega fyrir skemmtileg skrif.

Orðfræði

Í Biblíunni (Matt 27, 24) segir frá því er Pílatus hugðist geta firrt sig allri ábyrgð á dauða Jesú, hann þvoði hendur sínar. Oftast er orðatiltækið notað án forsetningarliðar en ef hann er notaður er sagt þvo hendur sínar af einhverju. Eftirfarandi dæmi á sér enga hliðstæðu og er ótækt: Frakkinn Noel Forgeard reynir vafalítið að þvo hendur sínar frá þeim átökum sem dynja á honum ... um meint innherjasvik (11.10.07).

Úr handraðanum

Orðið bitlingur hefur beinu merkinguna ‘lítill biti’ en í óbeinni merkingu vísar það til þess er mönnum er hyglað með einhverju, t.d. með fjárstyrkjum eða störfum án verðleika eða sposlum, sbr.: Það hefur einungis verið gert samkomulag um völd og bitlinga (12.10.07). Segja má að bitlingar séu ‘tímalausir’ í íslensku þótt þeir séu ugglaust misjafnir á ólíkum tíma. Málshátturinn Víða koma Hallgerði bitlingar er býsna gamall í málinu og vísar hann augljóslega beint til Njáls sögu en þar segir frá því er Hallgerður langbrók sendi þrælinn Melkólf í Kirkjubæ til að stela þar mat.