Textaleit í útdráttum
Leita í textum Íslenska málfrćđifélagsins    Leita í öllu efni á Kvisti


Pistlar um íslenskt mál:   17. nóvember 2007

Jón G. Friđjónsson

Íslenskt mál - 115. ţáttur

Ný þýðing Biblíunnar

Út er komin ný þýðing Biblíunnar, sú ellefta í röðinni. Margir hafa beðið óþreyjufullir eftir nýju útgáfunni en að henni hefur verið unnið síðustu nítján árin. Sá sem þetta skrifar fylgdist með framvindu verksins og las m.a. nokkur Biblíuritanna níu sem út komu á árunum 1993-2005 en þau voru nokkurs konar sýnishorn eða undanfari lokaþýðingarinnar. Þau voru þannig úr garði gerð að þau vöktu kvíða og efa um að lokagerðin yrði nógu vönduð. Þótt nýja Biblían sé vissulega miklu betur af hendi leyst en sýniheftin staðfestir hún að efasemdirnar voru ekki ástæðulausar, ágallarnir eru miklu meiri en svo að viðunandi geti talist. Þetta eru vissulega stór orð en því miður er auðvelt að finna þeim stað.

Markmið þýðingarnefndar

Í formála fyrir Biblíuriti 8 er gerð nokkur grein fyrir þeim markmiðum sem þýðingarnefndin setti sér í samræmi við erindisbréf sem biskup skrifaði. Þar segir (leturbreytingar mínar): ,,Kapp var lagt á að vanda málfar, og leitast var við að taka tillit til stíls frumtexta án þess að sú viðleitni kæmi niður á íslenskri gerð frumtextans.’’ Enn fremur segir: ,,Þá hafði nefndin í huga að taka tillit til íslenskrar biblíumálshefðar eins og fyrir hana er lagt í erindisbréfi.’’ Svo mörg voru þau orð. Hér á eftir skal litið á örfá dæmi og athugað hvort þau samræmast þeim markmiðum sem þýðingarnefndin tilgreinir.

Vandað málfar?

Í nýju Biblíunni eru fjölmörg dæmi þess að framsetning sé óvönduð og í allmörgum tilvikum er hún beinlínis röng. Í Jóhannesarguðspjalli (Jóh 6, 11) segir (leturbreytingar mínar): Nú tók Jesús brauðin, gerði þakkir og skipti þeim út til þeirra sem þar sátu og eins af fiskunum, svo mikið sem þeir vildu. Ekki verður séð að nýmælið skipta einhverju út til einhverra hafi nokkuð fram yfir hið hefðbundna skipta einhverju meðal einhverra og liðurinn og eins af fiskunum er ekki í neinum röklegum eða setningafræðilegum tengslum við það sem á undan fer.

Misfellur

Beinar villur í nýju Biblíunni eru allmargar en hér skulu aðeins nefndar tvær. Í fyrsta lagi er þar ruglað saman forsetningunum eftir (einhvern) og á eftir (einhverjum), t.d.: Á eftir henni tók hann Maöku, dóttur Absalons, sér fyrir konu (2. Kron 11, 20). Í fyrri útgáfu er þetta rétt: Og eftir hana fékk hann Maöku Absalómsdóttur (1912). Í öðru lagi er þar að finna dæmi um ranga fallstjórn. Í íslensku er sagt krjúpa fyrir einhverjum eða lúta einhverjum og með sama hætti segjum við falla fram fyrir einhverjum en alls ekki falla fram fyrir einhvern. En í Biblíunni nýju stendur: og Jerúsalemsbúar féllu fram fyrir Drottin (2. Kron 20, 18).

Ofnotkun nafnháttar

Það er alkunna að orðasambandið vera að með nafnhætti sækir mjög á í nútímamáli, trúlega fyrir áhrif frá ensku. Allir munu kannast við dæmi eins og Ég er ekki að skilja þetta eða Liðið er að leika vel. Orðasambandið vísar til þess sem gerist samtímis því sem miðað er við. Notkun þess í íslensku er háð verulegum takmörkunum en ekki er svigrúm til að fjalla um þær á þessum vettvangi. Í nýju Biblíunni eru þess fjölmörg dæmi að notað sé nafnháttarsamband í stað einfaldrar nútíðar eða þátíðar í fyrri útgáfum. Hér skulu aðeins nefnd þrjú dæmi og þau lögð í dóm lesenda (leturbreytingar mínar): Þið verðið rekin út úr landinu sem þú ert að halda inn í (5. Mós 28, 63); Ég segi þetta ekki sem skipun heldur er ég að ganga úr skugga um hvort kærleiki yðar einlægur (2. Kor 8, 8) og Jóhannes var líka að skíra í Aínon nálægt Salím en þar var mikið vatn [vatn mikið (1912)] (Jóh 3, 23). Með einföldum samanburði má sjá að samsvaranir í eldri þýðingum eru miklu fegurri.

Vel má vera að sumum finnist ekkert athugavert við ofangreind dæmi en augljóst er að minnsta kosti að breytingarnar eru ekki til bóta og svo mikið er víst að þessi málnotkun getur ekki talist hluti af íslenskri biblíumálshefð. Hið alvarlega er að dæmi sem þessi skipta ugglaust tugum í nýju Biblíunni.

Það læra börnin sem fyrir þeim er haft

Á liðnum öldum hefur Biblían verið einn hornsteina íslenskrar menningar, ekki aðeins sem trúarrit heldur einnig í málfarslegum efnum enda er það engum vafa undirorpið að ekkert eitt rit hefur haft jafnmikil áhrif á íslenska tungu. Nú á tímum margmiðlunar og alþjóðavæðingar hefur þörfin fyrir málfarslegan hyrningarstein aldrei verið brýnni. Lesefni Íslendinga hefur gjörbreyst á skömmum tíma. Á netinu er að finna mikið efni sem ekki stenst lágmarkskröfur um frágang og sama er að segja um blogg og dagblöð. Glanstímarit og afþreyingarefni ýmiss konar er sama marki brennt. Því má segja að oft hafi verið þörf en nú nauðsyn að vel tækist til um nýja biblíuþýðingu. En nú er sýnt að sú von hefur brugðist. Þar er að vísu margt vel gert og einstök rit vel þýdd en ágallarnir eru miklir. Þau dæmi sem hér hafa verið tínd til virðast undirrituðum sýna að framsetning og málfar í nýju biblíuþýðingunni er hvergi nærri nógu vandað, stíllinn er fremur rislítill og fjarri fer því að fylgt sé íslenskri biblíumálshefð. Biblían nýja veldur miklum vonbrigðum að þessu leyti.