Textaleit í útdráttum
Leita í textum Íslenska málfrćđifélagsins    Leita í öllu efni á Kvisti


Pistlar um íslenskt mál:   20. október 2007

Jón G. Friđjónsson

Íslenskt mál - 113. ţáttur

Beyging sagnorða

Sumir menn eru jafnari en aðrir og sum sagnorð eru vandbeygðari en önnur. Sögnin að heyja (heyjaði, heyjað) ‘afla heys’ er regluleg í beygingu og veldur engum vandkvæðum. Sögnin að heyja (háði, háð) ‘framkvæma/gera eitthvað’ er hins vegar óregluleg í beygingu [ég hey, þú heyrð, hann/hún heyr; lh.þt.kk.et. háður]. Hún tilheyrir fáliðuðum flokki sagnorða og er einkum notuð í föstum orðasamböndum, t.d.: heyja styrjöld/stríð/einvígi; hann/hún hefur marga hildi háð; hann/hún heyr baráttu sína (fyrir einhverju) í kyrrþey og valdabaráttan var háð fyrir opnum tjöldum. Þessum tveim sögnum má ekki rugla saman eins og gert er í eftirfarandi dæmi: Þar [í tölvuleik] stjórnar maður dreka sem svífur um loftin blá og heyjar [þ.e. heyr] orrustu við aðrar hersveitir dreka (13.8.07).

Beyging sumra sagnorða er að því leyti óregluleg að á skiptast sterkar og veikar myndir eftir þeim reglum sem málnotendur hafa komið sér saman um. Sögnin að þvo beygist jafnan svo: þvo (ég þvæ), þvoði, þvegið, þ.e. myndirnar þvæ og þvegið eru ‘sterkar’ en þvoði hins vegar ‘veik’. Sterku myndunum þó (þt.et.) og þógum bregður örsjaldan fyrir en þær má telja úreltar. Veika myndin þvoð er kunn úr talmáli en ekki styðst hún við málvenju. Eftirfarandi dæmi er því ekki til fyrirmyndar: Hlýtur að hafa þvoð [þ.e. þvegið] sér um hendurnar (12.9.07). 

Allur pakkinn

Það eru gömul sannindi og ný að ekki verður deilt um smekk manna, það sem sumum finnst fullboðlegt þykir öðrum ekki til fyrirmyndar. Eitt tískuorðanna í íslensku nútímamáli er pakki, einkum í orðasambandinu allur pakkinn, t.d.: einfaldast að hafa þetta með sama hætti og hjónavígslu gagnkynhneigðra; að fólk geti fengið allan pakkann á einum stað (22.8.07). Hér er á ferðinni nýmæli, myndað að enskri fyrirmynd (full package deal), sbr. enn fremur nafnorðið pakkaferð (package tour). Í sjálfu sér er ekkert rangt við að nota orðasambandið allur pakkinn en umsjónarmanni þykir það ofnotað og alls ekki svo rismikið að ástæða sé til að gera það að kjörorði sínu eins og Síminn gerir.

Súr vínber

Í dæmisögum Esóps segir frá því er refur sem gat ekki náð vínberjum fullyrti að þau væru hvort eð er súr. Litlum sögum fer hins vegar af súrum eplum að því er umsjónarmaður best veit, þó að ógleymdu tökuorðatiltækinu bíta í það súra epli. En lengi er von á einum: Það er eins og eplin séu súr þegar kemur að því að segja frá veðrinu þar [á Inn-Héraði] (9. 9.07).

Hellingur

Nafnorðið hellingur í merkingunni ‘eitthvað mikið’ er ekki gamalt í íslensku, elstu dæmi um það í seðlasafni Orðabókar Háskólans eru frá miðri 20. öld, t.d. eiga helling af peningum; hellings fiskirí og eitthvað kostar heilan helling. Umsjónarmaður veit ekki hvar rætur þessa nýmælis liggja, kannski er það sjálfsprottið á akri tungunnar, en vísunin er augljós. Hellingur merkir upphaflega ‘það sem hellt er’ en fær síðan merkinguna ‘hellidemba’ og sú merking virðist liggja til grundvallar merkingunni ‘mikið magn; eitthvað mikið’. Notkun orðsins er einkum bundin við talmál og mál líðandi stundar, t.d.: Þetta féll ekki með okkur í dag og mér finnst við sem lið eiga helling inni miðað við það sem við sýndum í þessum leik (14.9.07); Það er hellings svigrúm til mótvægisaðgerða (13.9.07); þetta [stuðningur áhorfenda] hjálpaði alveg helling (3.9.07); Við höfum ágætis skyttur sem hafa veitt helling [af tófum] (16.7.07) og síðan er hellingur af stelpum sem verða tilbúnar fljótlega (20.12.06). 

Fallstjórn

Talsverður munur er á því hvenær eitthvað gerist og fyrir hve löngu eitthvað gerðist. Umsjónarmanni til nokkurrar furðu er þessu tvennu stundum ruglað saman í nútímamáli, t.d.: Kvöldinu áður [þ.e. kvöldið áður] hafði lagst inn með óstöðvandi blæðandi magasár ungur stúdent (29.8.07). Svipuðu máli gegnir um aukafallsliði sem vísa til fjarlægðar, t.d.: Íslenska landsliðið flutti sig um set í gær og er komið í rólegan sveitabæ tæpum 100 kílómetrum [þ.e. tæpa 100 kílómetra] frá Dortmund (24.1.07) og stóð tíu metrum [þ.e. tíu metra] frá skottertu sem sprakk (7.1.07). 

Klúður

Alkunna er að orð krefjast rétts samhengis en alloft vill verða misbrestur á að þess sé gætt, t.d.: Mér er til efs að það [lokun vínbúðar í Austurstræti] lagi ofbeldisverk að næturlagi (22.8.07) og Evrópusambandið segir viðbrögð sambandslanda þau stærstu síðan sérstakt kerfi ... (27.8.07). Í fyrra dæminu er að finna orðasambandið laga ofbeldisverk en ekki er venja að laga það sem neikvætt er. Hér mætti tala um að draga úr ofbeldisverkum. Í síðara dæminu er rætt um stór viðbrögð en venja er að tala um mikil viðbrögð. Af svipuðum toga er notkun lo. yfirvofandi. Það mun upphaflega vísa til reiði (hefndar) Guðs sem vofir yfir mönnum og því er skiljanlegt að vísunin sé jafnan neikvæð. Út af því er þó brugið í eftirfarandi dæmi: minnti Svavar á [í nóv. 1995] að fimmtíu ára afmæli SÞ væri yfirvofandi (5.9.07).

Í sumum tilvikum veldur klúður því að setningar verða nánast óskiljanlegar, í fyrstu atrennu að minnsta kosti. Dæmi um það er eftirfarandi: Niðurstöðurnar leiða í ljós grundvallarmun á þeim eldri og yngri á vitrænu klukkuverki í garði kímnigáfunnar (17.7.07), þ.e. ‘hækkandi aldur dregur úr kímnigáfu’. Umsjónarmaður er naumast búinn ‘vitrænu klukkuverki’ til að skilja þetta en merkingin virðist vera ‘eldri menn gera meiri kröfur um vitrænt gildi kímnigáfu en þeir yngri.’

Úr handraðanum

Ritháttur sumra orða í íslensku er allnokkuð á reiki. Eitt þeirra er lo. ýtarlegur eða ítarlegur og samsvarandi atviksorð. Í fornu máli merkir ítur ávallt ‘fagur’, t.d.: ítur postuli, og sömu merkingar er ítarlegur, t.d.: ítarlegur konungur; ítarleg klæði; klæðast ítarlega og vera búinn ítarlega. Frá fyrri hluta 16. aldar eru kunn dæmi í íslensku um ao. ítarlega í merkingunni ‘rækilega’. Trúlega er sú merking fengin úr dönsku [yderlig ‘rækilegur’, lo., af yder-, skylt ísl. út og utar]. Á 17. og 18. öld. er oft ritað ýtarlega. Í nútímamáli rita þó sumir ítarlegur þegar lo. merkir ‘rækilegur’ enda þótt hið forníslenska orð hafi aldrei haft þá merkingu. Forsenda þess að lo. ítarlegur (með í en ekki ý) fær merkinguna ‘rækilegur’ er sú að þessu orði hefur slegið saman við tökuorðið ýtarlegur (‘rækilegur’) enda féllu í og ý saman í framburði. Þeir sem kjósa að skrifa ítarlegur í merkingunni ‘rækilegur’ líta væntanlega svo á að um merkingarbreytingu (tökumerkingu) sé að ræða, merkingin sé fengin úr dönsku yderlig.

Umsjónarmaður hefur vanist því að skrifa ýtarlegur ‘rækilegur’ enda gerir hann ráð fyrir að hér sé tökuorð úr dönsku á ferð. Honum virðist merking styðja þá afstöðu.