Textaleit í útdráttum
Leita í textum Íslenska málfrćđifélagsins    Leita í öllu efni á Kvisti


Pistlar um íslenskt mál:   8. september 2007

Jón G. Friđjónsson

Íslenskt mál - 110 ţáttur

E-ð dettur ekki með/hjá e-m?

Umsjónarmaður hefur veitt því athygli að orðasambandið e-ð dettur/fellur ekki hjá e-m eða hlutirnir falla/detta ekki með e-m/e-u (liði) í merkingunni ‘e-m gengur (e-ð) ekki vel’ er býsna algengt í nútímamáli. Það er einkum algengt í máli íþróttamanna, t.d.: Púttin voru ekki að detta [hjá mér] (30.7.07); Það er auðvelt að segja að þetta hafi ekki dottið með okkur í dag (27.6.07); Hlutirnir féllu ekki með Völsurum (17.7.07); Hlutirnir hljóta að fara að falla með KR (28.6.07); en það datt allt með Pólverjum síðustu mínúturnar (26.1.07) og Hlutirnir féllu ekki okkar megin (‘stríðsgæfan var ekki með okkur’) (26.1.07). — Er þetta íslenska? Trúlega í þeim skilningi að margir kjósa að tjá sig með þessum hætti en þessi talsmáti er óvenjulegur og nýr af nálinni. Ætla mætti að hér væri tökugóss á ferðinni en umsjónarmanni hefur ekki tekist að finna neinar hliðstæður í erlendum málum. Þess skal þó getið að enskumenn á vinnustað umsjónarmanns (Árnagarði) telja sig þó kannast við orðasambandið something is not falling our way og enn fremur er eftirfarandi dæmi að finna á netinu: luck (the ball, everything) is not falling our way

Frá Eiði Guðnasyni

Eiður Guðnason fylgist vel með málfari fjölmiðla og á blogginu og er hann reyndar einkar fundvís á misfellur. Eftirfarandi dæmi eru af ambögulista sem hann sendi þættinum:

Gulrætur Karls úldna (28.6.07). – Um þetta segir Eiður: ,,Fiskur myglar, var einu sinni sagt í útvarpinu. Kartöflur skemmast, skemmast ekki gulrætur líka?‘‘

Starfaði sem bóndi á Klausturseli og vann síðar ... (31.5.07). – ,,Einkennilega til orða tekið. Af hverju ekki: Var bóndi?‘‘

Sífellt fleiri leita sér aðstoðar í Danmörku vegna skorts á kynlífslöngun, samkvæmt upplýsingum Ellids Kristensen, yfirlæknis á Sexologisk Klinik á danska Ríkisspítalanum (2.6.07). – ,,Einu sinni hét þetta náttúruleysi á íslensku.‘‘

En svalir hafa öðlast tilgang. Þótt aldrei sjáist þar fólk eru tvær [tvennar] svalir af hverjum þremur  [þrennum] með útigrilli. Þar geta karlar eldað einir án þess að kveikja í eldhúsinu og fjölskyldunni (5.6.07). – Umsögn Eiðs: ,,Þetta minnir mig á grein sem ég skrifaði í Mogga fyrir einum 20 árum um eina vaðalstöðina í Ljósvakanum þar sem ég hafði heyrt ungan mann tala um ‘köttinn sem datt ofan á svölurnar’, gott ef fyrirsögnin var ekki: ‘Kötturinn sem datt ofan á svölurnar’ — og hann var ekki að tala um fugla heldur svalir! ‘‘

Fyrsti stóri rannsóknaleiðangurinn á hafsbotninum suðvestur af Íslandi hófst í dag (15.6.07). – Eiður spyr: ,,Allir í kafarabúningi eða hvað?‘‘

Umsjónarmaður þakkar Eiði kærlega fyrir dæmin og skemmtilegar umsagnir.

Nafnorðahröngl

Nýlega rakst umsjónarmaður á eftirfarandi þriggja dálka fyrirsögn: Staðarvali mótmæla gegn stóriðju leynt (12.6.07). Þetta er harður biti undir tönn en af meginmáli fréttarinnar mátti ráða að merkingin væri ‘ekki er/verður tilgreint hvar stóriðju verður mótmælt’. Í nútímamáli eru þess fjölmörg dæmi að stíll sé svo samanbarinn að það krefjist nákvæms lestrar að ráða í merkinguna. Umsjónarmanni var kennt í skóla að það væri ills viti ef lesanda ræki í vörðurnar, ef hann þyrfti að tví- eða jafnvel þrílesa einstaka kafla eða setningar. Eftirfarandi dæmi eru af þeim toga:

Aðflæði að sjúkrahúsinu hefur aukist. Fráflæði frá sjúkrahúsinu þarf að batna (24.6.07); er verið að framkvæma sálarmorð á þessum einstaklingi (27.5.07); ætli við séum ekki með eitthvað um tíu mál núna sem eru í ákvörðunarferli (1.6.07); Byggingarfélagið býður upp á ýmis búsetuúrræði (12.6.06); Mistökin má rekja til slæmrar ákvörðunartöku (22.7.07);taldi hann að rafmagnssviptingin væri ólögmæt (Blaðið 19.10.06); verið er að vinna að bætingu á aðflugsskilyrðum (15.11.06); hafi viðvera barna innan skólans aukist gríðarlega (23.10.06) og Þeir kvarta undan skorti á skoðanafrelsi (4.11.06).

Verða að saltstólpa

Umsjónarmaður rakst á liðlega árs gamla grein (17.6.06) þar sem Jóhann Hauksson hefur eftirfarandi eftir Gunnari Smára Egilssyni: Maður má ekki líta til baka, þá getur maður orðið að saltstólpa. Hér er vel og eftirminnilega að orði komist, afstöðu (framsækins) blaðamanns lýst með vísun til Biblíunnar en þar (1. Mós 19, 26) segir frá eyðingu Sódómu og Gómorru og því að á leiðinni frá borgunum leit kona Lots til baka og var að saltstöpli.

Tveimur — tveim — tvem

Þgf.flt. töluorðsins tveir (kvk. tvær; hk. tvö) er ýmist tveim eða tveimur og eru báðar myndir notaðar jöfnum höndum frá fornu fari. Í nútímamáli gætir þess allnokkuð að framburðarmyndinni tvem bregði fyrir, sbr. myndina þrem við hlið þremur (af to. þrír), t.d.: Bankinn er búinn að græða sem nemur tuttugu og tvem [þ.e. tveim, tveimur] milljörðum meira (1.8.07). Myndin tvem er ekki viðurkennd sem gott mál.

Úr handraðanum

Orðatiltækið kyssa á vöndinn er kunnugt í íslensku frá 18. öld og mun það eiga rætur sínar í dönsku (kysse på riset). Merkingarlega samsvörun er að finna í Sverris sögu: Margur kyssir á þá hönd er hann vildi gjarna að af væri, sbr. einnig afbrigðið (úr sömu heimild) Margur lýtur nú sá hendinni er gjarna vildi að af væri. Svipað orðafar er að finna í Vídalínspostillu: því margur verður til að kyssa á þá höndina, er hann gjarnan vildi af væri. — Úr nútímamáli er loks afbrigðið kyssa vöndinn en ekki verður séð að það eigi sé stoð í rituðum heimildum.