Textaleit í útdráttum
Leita í textum Íslenska málfrćđifélagsins    Leita í öllu efni á Kvisti


Pistlar um íslenskt mál:   25. ágúst 2007

Jón G. Friđjónsson

Íslenskt mál - 109. ţáttur

Sem og aftur sem

Tilvísunarorðin sem og er vísa í íslensku jafnan til nafnliðar, t.d.: Þetta eru skórnir sem ég keypti. Í ensku og dönsku geta samsvarandi tilvísunarorð einnig vísað til sagnorða og jafnvel heilla setninga. Í nútímamáli gætir nokkuð enskra eða danskra áhrifa á notkun tilvísunarorða, t.d.: við töpuðum leiknum á ellefu mínútum sem voru gríðarleg vonbrigði [og voru það ...; en það voru ...] (7.6.07); Um allt samfélagið eru því menjar hins forna misréttis í fullu gildi sem er miður [og er það miður] (19.6.07); Sameinuðu þjóðirnar vilja að gæsluliðið verði undir stjórn samtakanna sem þýðir að [en í því felst] (17.11.06); Spurningakeppni fjölmiðlanna er hefðbundin á RÚV um páska. Sem er gott mál [Það er gott/ágætt] (7.4.07); spurningar séu talsvert léttari en verið hefur. Sem er varhugaverð þróun (7.4.07) og Og þá er þjóðfélagið hætt að geta slappað af yfir höfuð sem er afskaplega vont (7.4.07). Þetta fyrirbrigði er fremur nýtt af nálinni, umsjónarmaður hefur aðeins rekist á það í nútímamáli (einkum fjölmiðlum).

Orðfræði

Umsjónarmaður hefur gaman af að leita skýringa á þeim ambögum sem upp koma enda má oftast finna hliðstæður sem toga í ef svo má að orði komast. Stundum stendur hann þó ráðþrota frammi fyrir málblómunum, sbr. eftirfarandi: á þessum degi fyrir 38 árum gáfust Frakkar upp en Þjóðverjar höfðu brunað í gegnum Frakkland eins og hnífur í gegnum heitt smjör (21.6.07). – Dæmalaust rugl er þetta!

Í mörgum tilvikum blasir þó við að um samslátt er að ræða, tveimur orðatiltækjum er ruglað saman eða búið er til ‘nýtt’ orðatiltæki með því að afbaka annað. Flestir munu t.d. þekkja orðatiltækið skríða undir pilsfald e-s ‘leita skjóls hjá e-m (notað í háði, niðrandi)’ en hitt er nýtt að unnt sé að hlaupa eftir pilsfaldi e-s: Við erum að gagnrýna [svo] alla prófessorana í sagnfræði sem hlaupa eftir pilsfaldi ríkisstjórnarinnar (16.5.06).

Orðatiltækið e-ð fær byr undir báða vængi er eldfornt og flestir munu kannast við orðasambandið brakandi þerrir. Þessu má ekki rugla saman eins og gert er í eftirfarandi dæmi: Airbus fær brakandi byr undir báða vængi í baráttunni við Boeing (28.6.07).

Íturvaxinn

Árni Björnsson skrifar (19.7.07): ,,Fyrir nokkrum árum var einhver feitlagin kona í framhaldsþætti í sjónvarpinu. Ég kem ekki fyrir mig hvað hún hét en í sjónvarpskynningunni var hún sögð ‘íturvaxin’. Ég hélt þá að hér væri um vísvitandi grín að ræða: fólk væri að snúa út úr þessu fallega lýsingarorði. Í gærkveldi sá ég orðið hinsvegar notað um hina digru sjónvarpsfígúru Homer Samper eða hvað hann heitir. Mér flaug í hug hvort fólk væri virkilega farið að tengja ‘ítur’ við ‘ístru’?’’

Umsjónarmaður þakkar Árna kærlega fyrir ábendinguna. Hann telur sig alloft hafa heyrt lo. ítur ‘fagur’ notað í öfugri merkingu eins og Árni bendir á en hins vegar þykir honum með ólíkindum ef sú merking hefur náð að festa rætur sem eðlilegt mál.

Sallarólegur

Í 107. þætti var vikið að orðunum sallafínn og sallarólegur. Helgi Skúli Kjartansson skrifar þættinum efnismikið bréf um það efni. Hann segir:

,,Beinu merkinguna í sallafínn þekki ég ekki af eigin raun. En Blöndal tilfærir hana með dæminu sallafínn sandur og undir hana falla þrjú dæmi af 15 í ritmálssafninu [ritmálssafni Orðabókar Háskólans]. Ég hef einungis vanist óbeinu merkingunni, og þá einkum um fólk (‘prúðbúinn’) og kannski föt (‘sparilegur, viðhafnarmikill’). Það er útvíkkun á þessari merkingu þegar Þráinn teygir hana yfir skáldverk (‘prýðilegur’). Sú útvíkkun er mér ekki beint framandi en þó þykist ég ekki alinn upp við hana. Enda er ekki dæmi um hana í ritmálssafni, hins vegar nokkur (4 held ég) í textasafni.

Úr því að sallafínn þekkist (eða hefur þekkst) í beinni merkingu, þá mætti ætla að hún sé upprunaleg, sú óbeina afleidd, og hún sé fyrirmynd furðuorðsins sallarólegur. En á því orði lærði ég einhvern tíma allt aðra skýringu sem líka hlýtur að vera nokkuð til í. Nefnilega að það sé myndað eftir danska orðasambandinu salig rolig. Þetta heyrði ég einhvern tíma (líklega í skóla) bent á og líkt við það hvernig danska orðið fuldskæg (‘alskegg’) hafi getið af sér samsetninguna fúlskeggjaður.

Salig rolig er reyndar orðalag sem ég hef ekki vanist á dönsku. Frekar kannast ég við að sagt sé salig og rolig. ... Um hitt, salig rolig, finn ég dæmi á norsku og sænsku, og þannig trúi ég það hafi verið í dönskunni áður, komið inn í málið úr sálmi Kingos:

Sov da, sov i Jesu arme,
Viger alle Verdens larme,
Jeg er i min Jesu skiød!
Hand mig skal af Mørket føre,
Hand min sidste Søfn vil giøre
Salig, rolig, sagt og sød.
(Thomas Kingo)

Þaðan hafa Íslendingar tekið það. Fyrst með slettunni salí. Ég finn á vefnum (mest bloggsíðum) 16 ólík dæmi um orðasambandið alveg salí. Þar af 7 með sambandinu salí rólegur. Sem kemur heim við mína tilfinningu fyrir orðinu. Ég hef tæplega notað það sjálfur en heyrt það notað og finnst það ekki eiga heima nema í þessu sambandi. Ef ég heyri salí eitt sér, þá finnst mér það vera stytting þar sem rólegur er undanskilið. Það má vera að þessi tilfinning mín sé orðin gamaldags og aðrir skilji salí sem sjálfstætt hugtak. (Þannig er það skýrt í ÍO). En upprunalega hefur orðið verið tekið upp úr dönsku til að nota í þessu ákveðna sambandi. Sem getur svo af sér, með eins konar alþýðuskýringu, aðlagað tökuorð: sallarólegur. Ég hef ímyndað mér að það hafi orðið fyrirmyndin að sallafínn. En líklega er það þvert á móti, þannig að fyrirmyndin sallafínn hafi ýtt undir breytinguna: salí rólegur > sallarólegur‘‘.

Umsjónarmaður þakkar Helga kærlega fyrir skemmtilegan pistil. Skýringar hans virðast traustar enda eru elstu dæmi í ritmálsskrá Orðabókar Háskólans um lo. sallafínn talsvert eldri en um sallarólegur. Framlag Helga sýnir svo að ekki verður um villst það sem flestir vita: Íslensk tunga er margbrotin og á akri hennar er að finna óþrjótandi og áhugaverð verkefni.