Textaleit í útdráttum
Leita í textum Íslenska málfrćđifélagsins    Leita í öllu efni á Kvisti


Pistlar um íslenskt mál:   11. ágúst 2007

Jón G. Friđjónsson

Íslenskt mál - 108. ţáttur

Orðfræði

Guðni Ágústsson skrifar: Ég treysti henni [Jóhönnu Sigurðardóttur] til að halda fast í feldinn og gefa sig hvergi í þeim átökum sem framundan eru (8.6.07). Hér er eftirminnilega að orði komist. Orðatiltækið halda fast í feldinn ‘gefa alls ekki/hvergi eftir’ vísar til Grettis sögu, viðureignar þeirra Grettis og Gláms, er þeir toguðust á um röggvarfeldinn en þar segir: Glámur ... þreif í feldinn stundar fast. ... kipptu nú í sundur feldinum í millum sín. Umsjónarmaður þekkir svipað orðafar en ekki er það að finna í orðabókum. Það er þó ekki verra fyrir það, aðeins brot af lifandi orðfæri kemst í orðabækur.

Flestir munu þekkja sögnina brynna ‘gefa að drekka (úr brunni), vatna’, sbr. brynna skepnunum og brynna músum ‘gráta’. Nafnorðið brunnur merkir m.a. ‘uppspretta’ og í afleiddri merkingu er algengt að tala um viskubrunn, náðarbrunn og ausa af brunni þekkingar sinnar svo að dæmi séu tekin. Allt er þetta skýrt og gegnsætt, þveröfugt við eftirfarandi dæmi: og fá þeir [sérfræðingar] jafnvel að brynna landsmönnum af visku sinni í hinum ýmsu [e. the various] fréttaskýringaþáttum (6.6.07).

Orðatiltækið e-ð stendur til bóta ‘e-ð á eftir að batna; úr e-u mun verða bætt’ er fornt, t.d. segir Snorri Sturluson: Flest frumsmíð stendur til bóta ‘flest nýtt er unnt að bæta’. Af sama meiði er orðasambandið e-ð er til bóta ‘ávinningur er að e-u’. Umsjónarmaður kannast hins vegar ekki við afbrigðið e-ð er til batnaðar en það er að finna í eftirfarandi dæmi: Breytingarnar á leik liðsins í gær voru til batnaðar og flestir leikmenn eru að leggja [svo] sig fram af heilum hug (‘leggja sig alla fram’) (15.6.07).

Orðatiltækið standast e-m (ekki) snúning (‘vera (ekki) jafnoki e-s’) vísar trúlega til einhvers konar líkamlegra átaka, e.t.v. glímu en þá merkti snúningur ‘glímubragð’. Í svipaðri merkingu er kunnugt orðatiltækið standa e-m (ekki) á sporði (‘jafnast (ekki) á við e-n’) en það vísaði til þeirrar trúar að afl dreka væri í sporði þeirra og með því að standa þeim á sporði mætti sigra þá. Þessu tvennu má ekki rugla saman eins og gert er í eftirfarandi dæmi: ... enginn standist honum [Gordon Brown] á sporði hvað varðar reynslu og þekkingu (12.5.07).

Orðatiltækið lyfta grettistaki ‘afreka mikið, áorka miklu’ á rætur sínar í Grettis sögu en grettistak eða grettishaf vísar til stórra steina sem hvíla einatt ofan á smærri steinum. Því var trúað með vísun til sögunnar að Grettir sterki hefði ‘hafið þá’ eða ‘tekið þá upp’. Engum sögum fer hins vegar af því að hann hafi velt þeim og því er eftirfarandi dæmi býsna skoplegt: Íslenskar konur veltu grettistaki á þeim árum þegar þær voru að ávinna sér þau sjálfsögðu mannréttindi að fá kosningarétt (19.6.07).

Drottinn gaf og drottinn tók

Í Jobsbók segir: Drottinn gaf og drottinn tók, lofað veri nafn drottins. Þessi sannindi hafa fylgt okkur í liðlega 800 ár hið minnsta, allt frá Íslensku hómilíubókinni og fram á okkar daga, að vísu í örlítið breytilegum myndum. Svipaðan boðskap er að finna í Predikaranum og víðar. Umsjónarmaður hélt satt að segja að þetta væri runnið okkur í merg og blóð og því rak hann í rogastans að lesa eftirfarandi eftir nýbakaðan þingmann: Drottinn gaf og drottinn tók, segir í gömlum kviðlingi og á jafnt við um þann drottinn allsherjar sem lengstum var þjóðinni hugleiknastur og landsdrottna þá sem veraldlegir eru (16.6.07). Umsjónarmanni þykir allur munur á ‘kviðlingi’ og Jobsbók og túlkunin er vægast sagt frumleg. Um hana má kannski segja: Miklir menn erum við Hrólfur minn.

Maðurinn lifir ekki á brauði einu saman

Munurinn á sögnunum lifa á e-u og lifa af e-u er býsna flókinn enda hefur málnotkun hvað þetta atriði varðar breyst í aldanna rás. Sú saga verður ekki rakin hér en aðalatriðið er að málvenja ræður, ekki síst þegar tilvitnun liggur að baki. Í Nýjatestamentinu segir frá því er djöfullinn freistaði Jesú og sagði freistarinn: Ef þú ert Guðs sonur, þá bjóð þú, að steinar þessir verði að brauði. En Jesús svaraði: Maðurinn lifir ekki á brauði einu saman, heldur sérhverju orði, sem fram gengur af Guðs munni (Matt 4, 4). Tilsvarið hefur orðið grundvöllurinn fyrir orðasambandinu Maðurinn lifir ekki á e-ju einu saman, ávallt með lifa á. Eftirfarandi dæmi stingur því í stúf: Það er frábært að geta lifað af fótboltanum einum saman (26.6.07).

Fallstjórn

Þess eru mörg dæmi að merking geti haft áhrif á fallstjórn. Sem dæmi má taka orðasambandið e-ð er á enda sem merkir ‘e-u lýkur’. Merkingin getur valdið því að sagt er e-u er á enda, t.d.: Langri bið Marie Browne er loks á enda (25.6.07).  Slík málbeiting styðst vitaskuld ekki við málvenju. Ætla má að röng fallstjórn í eftirfarandi dæmum sé af svipuðum toga: Það er ljóst að Valmönnum [þ.e. Valsmanna] bíður þungur róður í seinni leiknum (24.6.07) og Nýjum [þ.e. Nýs] leiðtoga Verkamannaflokksins bíður mikið verk (25.6.07). Hér er það vafalaust orðasambandið bíða eftir e-m sem ruglar málkenndina.

Úr handraðanum

Nafnorðið argafas, hk.et., er myndað af lo. argur ‘illur’ og hk.-no. fas ‘skelfing’. Það merkir m.a. ‘ill ógnun; huglausra manna látæði’. Elstu dæmi um orðið er að finna í Jónsbók (1281): Ef maður hleypur að manni og heldur sér sjálfur, það heitir argafas, engan á konungur rétt á því. Merkingin ‘jag, nudd’ er frá 18. öld og ætla má að hún hafi alið af sér nútímamyndina argaþras, t.d. skrifar Jón Trausti: Ég sneiði mig hjá þessu daglega argaþrasi eins og ég framast get. Umsjónarmaður kannast hins vegar ekki við myndina komast upp úr argaþrasi en hana gat nýlega að líta í dagblaði: við höfum ekki komist upp úr þessu argaþrasi með kvótakerfið (25.6.07).