Textaleit í útdráttum
Leita í textum Íslenska málfrćđifélagsins    Leita í öllu efni á Kvisti


Pistlar um íslenskt mál:   21. júlí 2007

Jón G. Friđjónsson

Íslenskt mál - 107. ţáttur

Hnífurinn gengur á milli þeirra?

Orðatiltækið hnífurinn kemst/gengur ekki (upp) á milli einhverra vísar til þess er einhverjir eru mjög samrýndir en umsjónarmaður rakst nýlega á það í merkingunni ‘spjótin ganga á milli einhverra’: gengur hnífurinn á milli þeirra Geirs og Jóns (18.5.07). Það er furðu algengt að farið sé rangt með orðatiltæki og föst orðasambönd. Nokkur nýleg dæmi: Evrópuskýrslan byði upp á tækifæri fyrir Samfylkinguna til að auka samstarf Íslands við ESB án þess að ganga skrefið til fulls [stíga skrefið til fulls] (21.5.07); kíkja undir tjöldin [skyggnast á bak við tjöldin] (12.5.07) og Nýlega lét herinn skína í klærnar [sýndi tennurnar] og sagði (7.5.07). Í dæmum sem þessum er í flestum tilvikum um að ræða einstök tilvik sem rekja má til klaufaskapar eða fljótfærni. Öllu verra er þegar vikið er aftur og aftur frá hefðbundunum búningi og skal nú vikið að nokkrum slíkum dæmum.

Eftir eða á eftir?

Forsetningarnar eftir og á eftir eru ólíkar að búningi og merkingu en þeim er þó alloft ruglað saman. Í skáldsögunni Maður og kona telur Sigvaldi prestur sig geta lokið predikun efnisins vegna á ákveðnum stað og segir: hér getur verið amen eftir efninu. Hér merkir eftir ‘samkvæmt’ og fs. á eftir á alls ekki við þótt þeim sé oft ruglað saman í þessu samhengi, t.d.: Hér setur fréttastofan amen á eftir efninu (4.6.07). Með svipuðum hætti er mikill munur á því að fylgja á eftir e-m (í röð) og fylgja e-u (fast) eftir. Umsjónarmaður hefur veitt því athygli að í íþróttalýsingum er þessu þráfaldlega ruglað saman, t.d.: fylgir sókninni vel á eftir [þ.e. eftir] (2.1.06); NN fylgir vel á eftir [þ.e. eftir] og skorar (5.3.07) og skoraði fyrsta mark leiksins þegar hann fylgdi á eftir stangarskoti [þ.e. fylgdi skotinu vel eftir] Grétars (25.5.07).

Með þolfalli vísar forsetningin eftir jafnan til tíma, t.d. eftir tvo daga, eftir minn dag o.s.frv. Í nútímamáli gætir þess nokkuð að fs. á eftir sé notuð í þessari merkingu, t.d.: Var árið 2005 ekki eins og lognið á eftir storminum [þ.e. eftir storminn] eða undan honum (2.1.06);

Silvía Nótt verður gestur Kastljóssins á eftir fréttum [þ.e. eftir fréttir] (19. 2.06); á eftir messunni [þ.e. eftir messuna] verður boðið upp á kaffi og Er líf á eftir dauðanum? [þ.e. eftir dauðann].

Til gamans skal á það bent að oft er merkingargreinandi hvort notað er eftir eða á eftir, t.d. sjá eftir e-m ‘sakna e-s, harma að e-r fer’ [eftirsjá] og sjá á eftir e-m ‘horfa á eftir e-m’. Í eftirfarandi dæmi virðist þessu ruglað saman: Þeir eiga eflaust eftir að sjá á eftir [þ.e. sjá eftir] Egidijus Petkevicius úr markinu (27.9.06)

Að axla ábyrgð

Sigurður Karlsson skrifar frá Turku (26.5.07): ,,Að lokum langar mig að minnast á orðasambandið axla ábyrgð. Það virðist ekki lengur notað nema í merkingunni ‘að segja af sér’. Það var mikið talað um að Halldór Ásgrímsson hefði axlað ábyrgð þegar hann sagði af sér formennsku í Framsóknarflokknum í fyrra. Eftirmaður hans Jón Sigurðsson var svo spurður hvort hann ætlaði að axla ábyrgð vegna útkomu flokksins í alþingiskosningunum. Kannski fannst fréttamönnum kurteislegra að orða spurninguna svona frekar en spyrja hreint út hvort hann ætlaði að segja af sér. Mér finnst það hins vegar skortur á háttvísi að spyrja formann flokks á þennan hátt, það er að segja hvort hann sem formaður flokks taki ábyrgð á gengi flokksins. Formaður sem ekki axlar ábyrgð á útkomu flokks síns í kosningum ætti umsvifalaust að segja af sér.

Minn málskilningur segir mér að það að axla ábyrgð hafi einkum tvenns konar merkingu. Annars vegar að maður taki á sig tiltekna ábyrgð, t.d. formennsku í stjórnmálaflokki, og hins vegar að maður taki ábyrgð á gerðum sínum hafi hann brotið eitthvað af sér. Ég get ekki séð að þessir tveir fyrrverandi flokksformenn hafið brotið nokkuð af sér með því að veita Framsóknarflokknum forystu. Hins vegar tókst þeim ekki það sem þeir ætluðu sér og vænst var af þeim og því létu þeir af formennskunni til að þurfa ekki lengur að axla ábyrgðina sem embættinu fylgir. Það var svo Guðni Ágústsson sem axlaði ábyrgð á Framsóknarflokknum þegar hann tók að sér formennskuna.’’

Umsjónarmaður þakkar Sigurði skemmtilegt bréf og fróðlegar skýringar. Orðasambandið axla ábyrgð virðist vera nýtt af nálinni, það er ekki að finna í orðabókum. Það er því gagnlegt að velta merkingu þess fyrir sér.

Hörðum höndum

Árni Björnsson skrifar: ,,Orðalagið að ‘vinna hörðum höndum’ hefur lengi verið ofnotað á síðari árum. Það er tekið úr kvæði Jónasar Hallgrímssonar Alþingi hið nýja sem byrjar svo:

Hörðum höndum
vinnur hölda kind
ár og eindaga;

Í seinni hluta erindisins kemur fram hverja Jónas á öðrum fremur við, sjómenn og bændur, þótt allt hið stritandi mannkyn sem stjörnur skína á eigi reyndar hlut að máli: 

siglir særokinn,
sólbitinn slær,
stjörnuskininn stritar.

Nú er eins og allir vinni hörðum höndum hvort sem menn eru að æfa leiksýningar eða semja ljóð. Þetta getur varla talist smekkleg notkun á hinu lýsandi orðalagi Jónasar. ... þessi frétt var lesin í tíufréttum Sjónvarpsins kvöldið 14. júní 2007: Bresku prinsarnir Vilhjálmur og Harrý undirbúa hörðum höndum tónleika til minningar um Díönu prinsessu móður þeirra.’

Umsjónarmaður þakkar Árna kærlega fyrir ábendinguna.

Úr handraðanum

Það getur verið gaman að velta fyrir sér merkingu og uppruna orða. Mörg orð leyna á sér ef svo má að orði komast. Lýsingarorðið sallafínn merkir orðrétt ‘fínn eins og salli’ en óbein merking er ‘mjög fínn’, t.d. skrifar Þráinn Bertelsson: Tvíburarnir ... er sallafínn róman ... Þarna er feitt á stykkinu (27.3.07). Nú virðist beina merkingin horfin og liðurinn salla (ef.flt.) er notaður í herðandi merkingu, t.d. sallarólegur