Textaleit í útdráttum
Leita í textum Íslenska málfrćđifélagsins    Leita í öllu efni á Kvisti


Pistlar um íslenskt mál:   7. júlí 2007

Jón G. Friđjónsson

Íslenskt mál - 106. ţáttur

Orðatiltækið hjakka í sama farið vísar upphaflega til sláttumanns sem slær linkulega en síðar er far tengt hjólfari og þá koma fram orðatiltækin hjakka í sama (hjól)farinu og komast ekki upp úr (hjól)farinu. Það er skiljanlegt að orðatiltæki og orðasambönd breytist með breyttum aðstæðum en bagalegt er þegar útkoman verður rökleysa. Eftirfarandi dæmi virðist umsjónarmanni á mörkunum að því leyti: komast út úr  [þ.e. upp úr] hjólfari ósamkomulags og deilna (6.5.07).

Fleiri dæmi af svipuðum toga eru auðfundin: Stjórnin er algjörlega í járnum eins og allar kannanir sýna (11.5.07) (‘það er í járnum hvort hún heldur velli’); umhverfisráðherra hefur verið borið á brigsl (‘hefur verið borið á brýn; hefur verið brigslað um’) að hafa greitt götu kærustu sonar síns (7.5.07); Ég vil leggja þetta að baki [e. put it behind me] (8.5.07) og Flest fólk vildi setja þetta á bak við sig [e. Most people would like to put these things behind them] (28. 5.07). Í síðari tveimur dæmunum virðist reyndar vera um að ræða tilraun til að þýða erlent góss á íslensku.

Kyn orða

Fjölmörg orð í íslensku eru til í fleiri kynjum en einu, t.d. er skúr karlkyns (skúrinn, hann) í merkingunni ‘kofi, skúrbygging’ en kvenkyns (skúrin, hún) í merkingunni ‘regndemba’. Hér ræður merking kyni en í öðrum tilvikum skiptir hún ekki máli, t.d. segja sumir jógúrt-in (hún) en aðrir jógúrt-ið (það).

Talsverður munur er á nafnorðunum skrið (hk.) ‘það að skríða’ og skriður (kk.) ‘hreyfing, ferð’. Þannig getum við sagt barnið er komið á skrið, sbr. enn fremur samsetningar eins og launaskrið og skriðdýr. Hins vegar tölum við um að mikill skriður sé á skipi eða viðræðum.

Í sumum tilvikum er þó ekki allur munur á hk.-orðinu skrið og kk.-orðinu skriður, vel má vera að málkennd manna sé að þessu leyti nokkuð mismunandi. Í eftirfarandi dæmum hefði umsjónarmaður kosið kk.-myndina: Sú umræða [um byssueign] er komin á fullt skrið. Bæði innan Bandaríkjanna og utan þeirra (19.4.07) og Það eru ánægjuleg tíðindi fyrir Val og handknattleiksunnendur að .... BÞ ... sé að komast á eðlilegt skrið á nýjan leik (12.2.07).

Verða e-ð að orði — hafa e-ð á orði

Það er talsverður munur á orðasamböndunum e-m verður e-ð að orði, sem merkir upphaflega ‘e-m verður e-ð að umræðuefni’ en síðar ‘e-m verður e-ð á munni’, og hafa e-ð á orði ‘minnast á e-ð, nefna e-ð, tala um e-ð’. Hvor tveggja eru kunn í fornu máli og ekki verður annað séð en þeim sé ávallt haldið aðskildum. Í eftirfarandi dæmi hefur þeim þó slegið saman: [í þættinum] varð mér á orði að sú staðreynd væri hræðileg (15.5.07). Hér hefur eitthvað farið úrskeiðis en af samhengi má ráða að átt er við ég hafði það á orði ‘ég minntist/drap á það’. — Góðgjarnar menn kynnu að vilja líta svo á sem hér sé um mismæli að ræða sem prófarkalesari hefði átt að leiðrétta.

 

Undir — fyrir neðan; yfir — fyrir ofan

Forsetningin undir vísar jafnan til þess sem er ‘beint undir e-u’ en fs. fyrir neðan vísar til þess sem er/liggur lægra en það sem miðað er við. T.d. er eðlilegt að segja kötturinn er undir borðinu;  fyrir neðan bæinn er tjörn og e-ð er fyrir neðan virðingu e-s. Enn fremur getum við sagt að kona beri barn undir belti en það sem er ósæmilegt getum við sagt að sé fyrir neðan belti. Hér er merkingarmunurinn skýr eins og reyndar í flestum tilvikum. Svipuðu máli gegnir um fs. yfir ‘beint yfir’ og fyrir ofan ‘á stað sem liggur hærra en það sem miðað er við’. Samkvæmt málvenju er sagt að hitastig sé undir eða yfir meðallagi (síður fyrir ofan/fyrir neðan meðallag) og enn fremur er talað um yfirverð og undirverð. Eftirfarandi dæmi samræmist ekki málkennd umsjónarmanns: Síðasta viðskiptagengi ... var 70 prósentum fyrir ofan yfirtökutilboð [þ.e. yfir yfirtökutilboði] (9.5.07).

Skipta um stefnu?

Það sem skipt er um er jafnan eitthvað áþreifanlegt, hlutstætt, t.d. geta menn skipt um skó/föt eða hjólbarða undir bíl sínum. Þetta er þó ekki einhlítt því að sumir menn skipta oft um skoðun. Þegar um er að ræða hugmyndir eða afstöðu er sögnin skipta helst ekki notuð (menn skipta ekki um afstöðu eða álit svo að dæmi sé tekið). Svipuðu máli gegnir um fjölmargar aðrar sagnir, t.d. sögnina breyta, menn vita hvernig á að nota hana. Eftirfarandi dæmi samræmast ekki málkennd umsjónarmanns: Er ekki kominn tími til að breyta um stefnu hér? (12.5.07) (‘endurskoða stefnuna; marka aðra stefnu, breyta stefnunni’) og við þurfum að halda áfram að breyta um leikkerfi (‘breyta leikkerfinu, endurskoða leikkerfið’) (13.10.06). — Þetta sýnir glöggt það sem alkunnugt er, málbeiting fer að verulegu leyti eftir málvenju, því sem málnotendur koma sér saman um. Menn hafa tilfinningu fyrir réttri notkun eða geta eftir atvikum slegið upp í orðabók til að fá vitneskju um hana.

Forsetningin frá

Í íslensku geta ýmsar forsetningar myndað andstæðupör, t.d. til – frá (stefna), í – úr (hreyfing (hvert-hvaðan))) og á – af (hreyfing (hvert-hvaðan)). Hér er ekki svigrúm til að ræða notkun slíkra andstæðupara en á það skal bent að þau eru hluti af málkerfinu (regluverkinu) enda virðist umsjónarmanni notkun þeirra hafa verið afar regluleg, allt frá elstu heimildum og fram til nútímans. En nú bregður svo við að greina má bresti í kerfinu, trúlega fyrir erlend áhrif. Eftirfarandi dæmi eru af þeim toga: Ég braust frá [úr] ákveðnu umhverfi og komst til áhrifa og efna (19.11.05); [lagði fram] þingsályktunartillögu á Alþingi ásamt flutningsmönnum frá [úr] öllum stjórnmálaflokkum (22.1.06); fjórðungur orkunnar kemur frá [úr] mat sem inniheldur ... (15.5.06); Ég skal ekki segja hvort þær [fótboltabullur] verða bannaðar frá vellinum [þeim verður úthýst af] okkar í sumar (‘þeim verður meinaður aðgangur að vellinum’) [sbr. e. ban from] (17.6.06); þeir lögðu á ráðin um strok frá [úr] fangelsinu (2.9.06); Á myndbandi sem hægt er að sjá á heimasíðu News of the World í Bretlandi frá [af] atvikinu er ekki að sjá annað en (4.9.06); Fjölskylda hans hafði hins vegar hingað til fengið frið frá [fyrir] ágangi [þ.e. ágengni] fjölmiðlanna (12.1.07) og að nauðsynlegt væri að vernda Ísraelsríki frá [fyrir] Íran og (21.4.07).  

Úr handraðanum

Elsta dæmi í seðlasafni Orðabókar Háskólans um orðasambandið til dæmis (t.d.) er frá 17. öld og þar er það talið samsvara lat. exempli gratia (e.g.) [orðrétt þýðing dæmis þökk þ.e. ‘þökk sé dæminu]. Hér er um að ræða tökuþýðingu, trúlega með hliðsjón af þýsku (zum Beispiel) en í ensku og dönsku er ekki að finna beinar samsvaranir. Í elstu dæmum er orðasambandið notað í lengri mynd: til dæmis að taka en nútímamyndin (til dæmis) er komin fram á 18. öld.

Af heimildum má sjá að sumir málvöndunarmenn töldu að orðasambandið til dæmis væri ekki gott mál enda af erlendum rótum. Í Dægradvöl Benedikts Gröndals kemur t.d. fram að Jónas skáld Hallgrímsson var einn þeirra er taldi orðasambandið ekki til fyrirmyndar. Þar segir: vildi Jónas bæta um margt og kom þá fyrir í viðtalinu að [Hallgrímur] Skeving sagði oft ,,til dæmis‘‘ en Jónas leiðrétti hann í hvert sinn og sagði ,,til að mynda’’, þangað til Skeving leiddist þetta og setti eitthvað ofan í við Jónas. Þetta þykir umsjónarmanni skemmtileg frásögn en hætt er við að nú á dögum kunni sumum að þykja Jónas hafa gengið fulllangt.