Textaleit í útdráttum
Leita í textum Íslenska málfrćđifélagsins    Leita í öllu efni á Kvisti


Pistlar um íslenskt mál:   23. júní 2007

Jón G. Friđjónsson

Íslenskt mál - 105. ţáttur

Orðasambandið ekkert bítur á e-n merkir ‘ekkert hefur áhrif á e-n’, sbr. enn fremur orðasamböndin láta ekkert á sig bíta og láta e-ð ekki á sig fá. Í svipaðri merkingu er kunnugt orðasambandið ekkert hrín á e-m, sbr. nafnorðið áhrinsorð. Hér er merking svipuð en fallstýring önnur og það samræmist ekki málvenju að rugla þessu saman eins og gert er í eftirfarandi dæmi: Sannleikurinn bítur ekki á þessum mönnum eins og dæmin sýna (25.4.07).

Orðatiltækið drepa e-u á dreif merkir ‘leita undanbragða; eyða e-u, gera sem minnst úr e-u’. Sögnin drepa merkir hér ‘berja, slá’ og helst sú merking í ýmsum samböndum, t.d. drepa á dyr og drepa á e-ð ‘minnast á e-ð’. Orðtiltækið er eldfornt í íslensku og ávallt notað með stuðlaparinu drepa – dreif. Eftirfarandi dæmi á sér því enga stoð: Nú reynir hinn ‘snjalli’ almannatengslamaður ... að kasta málinu á dreif (3.4.07).

Nýmæli

Íslensk málstefna og þó sérstaklega nýyrðasmíð Íslendinga hefur vakið eftirtekt víða um heim og vissulega megum við vera stolt af nýyrðum eins og sími, skeyti, útvarp og tölva. Við stöndum í mikilli þakkarskuld við fjölmarga sem hafa lagt sig fram að smíða eftir þörfum ný og gagnsæ orð yfir nýja hluti og hugtök eða finna gömul orð sem nota má í nýrri merkingu, t.d. sími. Umsjónarmaður telur að Íslendingar séu býsna samtíga í afstöðu sinni til þessa þáttar íslenskrar málræktar enda er nýyrðasmíðin í fullu samræmi við það sem lesa má af spjöldum málsögunnar, Íslendingar vilja tala um hlutina á íslensku og með íslenskum orðum.

Hlutur alls almennings í nýyrðasmíð er afar mikilvægur. Menn af öllum stigum þjóðlífsins tefla fram nýyrðum en síðan er það málkennd þjóðarsálarinnar sem ræður hver þeirra eru sett á og hver deyja drottni sínum. Sem dæmi má nefna að Þráinn Bertelsson kallar i-pod hlaðvarp og minnipokamenn kallar Illugi Jökulsson þá sem enskir nefna loser. Umsjónarmanni finnst minnipokamaður mun betra orð en tapari.

Nýmælin eru ekki einungis á sviði orða, einnig er algengt að fram komi nýstárleg orðasambönd. Nýlega las umsjónarmaður skemmtilega og lipurlega grein þar sem fjallað var um myrkviði trygginga. Þar komst greinarhöfundur svo að orði: Mér líður eins og apa í eyðimörk. Það er ekki nokkurt tré til að hanga í (Mbl. 14.5.07) og Mér líður bara svolítið eins og strút í frumskógi, þessar ferðatryggingar eru svo margslungnar (Mbl. 14.5.07). Hér er frumlega að orði komist. Annað dæmi um nýjung af svipuðum toga finnst umsjónarmanni miklu síðra: skæðasti sóknarmaður KR ... virtist um tíma ekki getað [svo] skotið boltanum í sjóinn þótt hann stæði á bryggjunni (13.4.07). Þetta þykir umsjónarmanni fremur langsótt og ólíklegt til langlífis. Um miðja síðustu öld var sagt um þá sem voru klaufskir með fótbolta að þeir hittu ekki belju þótt héldu í halann á henni og það þykir umsjónarmanni ólíkt nærtækara og betra. Ekki skal það rökstutt hér með öðru en því að um smekkinn verður ekki deilt.

Fallstjórn

Fallstjórn með svokölluðum ópersónulegum sögnum hefur verið á reiki síðustu 500 árin að minnsta kosti og er það enn, t.d.: Sjálfstæðisflokknum [þ.e. Sjálfstæðisflokkinn] munar ekkert um að velta sér á hina hliðina (17.5.07); segir að ríkissjóð muni um hvern þúsundkall en ekki fólkinu [fólkið] í landinu (5.5.07); auðvitað koma alltaf upp atriði sem mönnum [menn] greinir á um (23.10.05); Líklegast er það sú framtíð sem ráðherrunum [þ.e. ráðherrana] hryllir við þegar þeir leggja sig í líma við að tala niðrandi um kosningarnar um deiliskipulagið fyrir Straum (4.4.07) og var ljóst að keppendum [þ.e. keppendur] skorti ekki baráttuandann (15.5.07). Eins og sjá má gætir þeirrar tilhneigingar að nota þágufall í stað þolfalls, enda eru þgf.-sagnir miklu fleiri en þf.-sagnir. Þetta fyrirbrigði hefur verið nefnt þágufallssýki eins og kunnugt er.

Nokkuð annars eðlis eru dæmi þar sem ópersónulegar sagnir eru notaðar sem persónulegar, t.d.: Reykurinn [þ.e. Reykinn] lagði yfir miðborgina (18.4.07); Verkefni af þessari stærðargráðu reka [þ.e. rekur] ekki oft á fjörur fornleifaræðinga (19.4.07) og Hæstiréttur kvað upp þann dóm í vikunni, að Haraldur Johannessen, ríkislögreglustjóri, [þ.e. Haraldi Johannessen, ríkislögreglustjóra] bæri að víkja sæti við rannsókn málsins (27.1.07).

Á liðnum öldum hefur Íslendingum gengið bærilega að halda persónulegum og ópersónulegum sögnum aðskildum, án sérstakrar málfræðikennslu. Ætla má að það sé merkingin sem sker úr. Í dæminu Maðurinn bar pokann er maðurinn jafnframt gerandi. Svo er hins vegar ekki í dæmunum Manninn bar þar að og Manninum bar að segja satt. Þetta drekka flestir í sig með móðurmjólkinni. 

Úr handraðanum

Nafnorðið blogg (ef.et. bloggs, flt. blogg) er tökuorð úr ensku blog dagbókarfærsla á netinu. Enska orðið mun tæpast vera eldra en frá því um 1990 og er það stytting úr weblog, þ.e. < web vefur og log tæki til að mæla hraða skips; skipsdagbók. Af bloggi er dregin sögnin blogga (-aði, -að), ýmis afleidd orð, t.d. bloggari (-a, -ar, kk.), og samsetningar, t.d. Moggablogg. Íslenska bloggið mun naumast vera eldra en þriggja eða fjögurra ára.

Blogg er svo nýtt af nálinni að ekki er neitt um það að finna í nýlegum þýskum, dönskum og enskum orðabókum sem umsjónarmaður hefur kannað en það er býsna fyrirferðarmikið í nútíma þjóðfélagi, snar þáttur í lífi fjölmargra. Vel má vera að bloggið ógni bókinni. Orð Matthíasar Johannessens þykja umsjónarmanni hvort tveggja í senn spakleg og uggvænleg: En nú eru bókahillurnar að mestu horfnar í tölvuhreiðrum bloggaranna (Mbl. 21.4.07).