Textaleit í útdráttum
Leita í textum Íslenska málfrćđifélagsins    Leita í öllu efni á Kvisti


Pistlar um íslenskt mál:   10. júní 2007

Jón G. Friđjónsson

Íslenskt mál - 104. ţáttur

Á brúsapallinum

Guðni Ágústsson fer oft skemmtilega með íslenskt mál og á það jafnt við um orðaval sem áherslur. Í sjónvarpinu ræddi hann nýlega við Steingrím J. Sigfússon, m.a. um hlut hans í tilraunum til stjórnarmyndunar. Þá sagði hann að Steingrímur hefði trúað því á brúsapallinum að beðið væri eftir sér (17.5.07), sbr. einnig: kveður jafnframt að Steingrímur sé mikill leiksoppur í málinu; hann hafi látið leika á sig, sitji eftir á brúsapallinum með bláa slaufu um hálsinn og sárt ennið (18.5.07). Hér er eftirminnilega að orði komist en ekki er víst að unga fólkið skilji hvað Guðni er að fara. — Umræddur brúsapallur gegndi mikilvægu hlutverki í slagaranum Bjössi kvennagull sem Haukur Morthens gerði ódauðlegan (1954). Þar segir m.a. (eftir minni): við brúsapallinn bíður hans mær og við brúsapallinn fyrirgefst hver sökin. Það skyldi þó ekki vera að mærin sem lét Steingrím J. einan á brúsapallinum sé Ingibjörg Sólrún?

Það fari saman sem saman á

Í Njáls sögu segir: Það mun vera maklegast að fari allt saman, karl og kýll (157.k.). Hér er merkingin ‘réttast er að það fari saman sem saman á’ og getur hún átt við um margt, t.d. að orð og orðatiltæki verður að nota í réttu (venjubundnu) samhengi. Þess eru mörg dæmi í nútímamáli að orð og orðatiltæki séu ekki notuð á hefðbundinn hátt og skal nú vikið að nokkrum dæmum um það.

Orðatiltækið verða fyrir barðinu á e-m ‘fá að kenna á harkalegri framkomu eða viðmóti e-s’ vísar til ásiglingar skipa en miðhluti stefnis nefnist barð. Orðatiltækið vísar oftast til persónu eða hlutar, t.d. geta menn orðið fyrir barðinu á reiðum manni. Það er óvenjulegt að menn verði fyrir barðinu á því sem er óhlutstætt (veikindi, sjúkdómar) og að því leyti er eftirfarandi dæmi svolítið sérstakt: Við sem urðum fyrir barðinu á erfiðum sjúkleik í æsku höfum ekki borið [þ.e. beðið] þess fullar bætur (3.2.07). Sjúkdómi verður naumast líkt við skip.

Orðatiltækið treysta/(styrkja) sig/e-n/e-ð í sessi ‘styrkja stöðu sína/e-s, efla e-n/e-ð’ vísar til þess er einhver tryggir sæti sitt (í óbeinni merkingu). Það hefur að vísu býsna víða skírskotun en umsjónarmaður hefur efasemdir um að unnt sé að styrkja grundvöll í sessi, sbr.: Í svona stóru máli sem ekki er ætlað að raska grundvelli heillar atvinnugreinar ... heldur frekar styrkja þann grundvöll í sessi (8.3.07). Grundvöllur getur ekki skipað sess.

Algengt er að tala um að hafa einhvern (sérfræðing, njósnara ...) á sínum snærum þar sem snærur munu merkja ‘umráðasvæði’ (reitur afmarkaður með snærum) en umsjónarmaður þekkir engin dæmi þess að óhlutstæðir hlutir geti verið á snærum manna: DeCODE hefur aldrei haft á sínum snærum útreikninga sem gefa neitt slíkt til kynna [að eigið fé verði uppurið 2008] (8.3.07).

Nafnorðið gátt/(gætt) merkir ‘bilið á milli stafs og hurðar; dyr’ og er það algengt í ýmsum föstum orðasamböndum, t.d. e-ð er opið upp á gátt og vera utan gátta/utangátta. Umsjónarmaður kannast hins vegar ekki við að unnt sé að opna munninn upp á gátt:

Hún opnar jafnframt munninn upp á gátt og tekur út tvo gervigóma (15.4.07).

Dæmi sem þessi sýna að nauðsynlegt er að vanda sig, orð, orðatiltæki og föst orðasambönd verður að nota eftir þeim reglum sem málvenja hefur mótað.

Ekki ber allt upp á sama daginn

Málshátturinn Ekki ber allt upp á sama daginn vísar til þess að ekki gerist allt í senn (seinna koma sumir dagarnir) og er hann kunnur í ýmsum afbrigðum. Eins og sjá má vísar hann til hreyfingar, sbr. liðinn upp á sama daginn. Umsjónarmaður þekkir engin dæmi um notkun þágufalls í þessari merkingu. Eftirfarandi dæmi samræmist því ekki málvenju: auk þess sem það skjóti skökku við að slíkar aðgerðir [uppsagnir] beri upp á alþjóðlegum baráttudegi verkalýðsins (1.5.07).

Fyrir aftan — aftur fyrir

Kerfi forsetninga í íslensku er býsna flókið en að sama skapi er það nákvæmt í þeim skilningi að með því að nota atviksorð með forsetningum má staðsetja hluti allnákvæmlega í tíma og rúmi. Samsettu forsetningarnar fyrir ofan, fyrir neðan, fyrir framan og fyrir aftan vísa t.d. til kyrrstöðu, sbr. fyrir neðan bæinn er tjörn og maðurinn stendur fyrir framan/aftan bílinn. Samsetningarnar upp fyrir, niður fyrir, fram fyrir og aftur fyrir vísa hins vegar til hreyfingar, t.d. ganga niður fyrir bæinn og ganga fram/aftur fyrir bílinn. Það er afar sjaldgæft að þessu sé ruglað saman eins og í eftirfarandi dæmi: það er langt síðan ég setti það fyrir aftan mig (13.5.07). Umsjónarmanni þykir þetta málleysa, vera má að hana megi rekja til óburðugrar þýðingar úr ensku [e. put something behind oneself].

Úr handraðanum

Margir munu þekkja málsháttinn Það er ekki hægt að taka það sem ekki er til. Hann vísar til raunsæis og aðhaldssemi í fjármálum. Boðskapur hans virðist býsna fjarri þeim hugmyndum sem nú á tímum eru hafðar fyrir börnunum okkar. Í málsháttasöfnum er málshátturinn rakinn til 19. aldar en hann er miklu eldri. Hann er t.d. að finna í Eyrbyggja sögu en þar segir frá því er berserkurinn Halli átti að vinna þrennt til ráðahags við Ásdísi en hann átti ekki fé og sagði: Til [ráðsins] mun eg vinna það er eg má en eigi tek eg þar fé er eigi er til. Umsjónarmaður hefur það fyrir satt að málshátturinn eigi rætur sínar í lögbók þjóðveldisins, Grágás, en þar segir: tekurat [‘ekki tekur’] þar fé sem eigi er til, sbr. einnig og tekura [‘ekki tekur’] þar fé sem ekki er til. — Ætli slíkt ákvæði vanti ekki sárlega í núgildandi lög?