Textaleit í útdráttum
Leita í textum Íslenska málfrćđifélagsins    Leita í öllu efni á Kvisti


Pistlar um íslenskt mál:   26. maí 2007

Jón G. Friđjónsson

Íslenskt mál - 103. ţáttur

Lýsingarorðið samkvæmur ‘sem kemur heim við, er í samræmi við’ er algengt í íslensku, t.d. vera sjálfum sér samkvæmur. Hvorugkynsmyndin samkvæmt er notuð sem forsetning (með þgf.) í merkingunni ‘í samræmi við’, t.d.: samkvæmt nánari reglum sem ráðherra setur; samkvæmt lögum; samkvæmt (‘að’) ósk e-s og samkvæmt (‘að’) venju. Elstu dæmi um þá notkun eru frá 18. öld, t.d.: lögum samkvæmt, sbr. enn fremur orðasambandið samkvæmt því sem ‘í samræmi við það sem’.

 Í nútímamáli ber talvert á nýrri merkingu eða notkun fs. samkvæmt, þ.e. ‘eftir; að sögn (vísar til heimildar)’, t.d.: samkvæmt Fréttablaðinu (‘í Fréttablaðinu var greint frá’); samkvæmt gögnum (‘gögn sýna’); samkvæmt könnuninni (‘í könnuninni kemur fram’); samkvæmt talsmanni Hvíta hússins (‘haft var eftir honum’); samkvæmt togararalli (‘niðurstöður úr togararalli sýna’) og Það átti að skrá eignarhald á skemmtibátnum Thee Viking á félagið samkvæmt sækjanda (‘að sögn sækjanda’) (21.2.07). — Umsjónarmaður kann ekki alls kostar við þetta nýmæli, grunar reyndar að hér gæti enskra áhrifa (according to).

Slá út — einhverju slær út

Í Morgunblaðinu var nýlega greint frá því að vinsælir inniskór hefðu verið bannaðir á sjúkrahúsi í Noregi þar sem grunur léki á að þeir hefðu valdið truflunum í viðkvæmum rafmagnstækjum. Fyrirsögnin var: Slá inniskórnir [rafmagninu] út? (Mbl. 26.4.07). Þetta má til sanns vegar færa, sbr. hliðstæðurnar sólgos ... geta slegið út rafveitukerfum (30.10.03) og elding sló línunum út (10.12.06). Í meginmáli sagði hins vegar: á sænskum sjúkrahúsum þar sem mikilvæg lækningatæki hafa slegið út (Mbl. 26.4.07). Umsjónarmaður telur fráleitt að rafmagnstæki geti slegið eitthvað út, en hins vegar getur þeim slegið út, sbr. hliðstæðuna svita(num) sló út um sjúklinginn.

Orðasamböndin slá e-n út ‘sigra e-n og fella jafnframt úr frekari keppni’ og e-ð slær e-ð/allt út ‘e-ð er betra/verra en (allt) annað, tekur öllu öðru fram’ eru kunn í nútímamáli. Þau vísa til hnefaleika og eru af erlendum rótum runnin [d. slå ud; e. knock out].

Ofnotkun nafnháttar

Í síðasta pistli var vikið að ofnotkun orðasambandsins vera að + nh. Þar var á það bent að merking eða vísun sagnar réði úrslitum um notkun þessa orðasambands. Sem dæmi má taka að samkvæmt málvenju eru svo kallaðar skynjunarsagnir (sjá, vita, skilja, heyra o.s.frv.) ekki notaðar í þessu orðasambandi (ég skil þetta ekki en ekki: ég er ekki að skilja þetta) né heldur sagnir sem vísa til ástands eða kyrrstöðu (sitja, liggja, búa o.s.frv.). Ýmsar aðrar hömlur eru á eða reglur um notkun orðasambandsins í íslensku og skal nú vikið að tveimur þeirra.

Til að unnt sé að nota sögn í orðasambandinu vera að + nh. verður sá atburður eða verknaður sem hún vísar til að vera afmarkaður í tíma eða rúmi. Sem dæmi má taka að orðasambandið skrifa bréf vísar til afmarkaðs verknaðar og því er eðlilegt að segja: Hann/hún er að skrifa bréf. Orðasambandið skrifa vel/illa er hins vegar ekki afmarkað með sama hætti enda samræmist það ekki málvenju að segja: Hann/hún er að skrifa illa. Sama á við um eftirfarandi dæmi, ekkert þeirra styðst við hefðbundna málnotkun: við vorum að fá of mörg mörk á okkur (25.1.07); vörnin var ekki að standa sig nógu vel (25.1.07); [Seðlabanki Íslands] er samt ekki að standa sig (4.2.07); Ég held að þarna einhver ekki að fylgjast með (14.2.07); Það var ekkert að ganga upp hjá mér (14.2.07); hann er að hóta því að flytja starfsemina úr landi (11.3.07); Þeir voru ekki að koma fram með allan sannleikann (11.3.07); Það hefur verið að sýna sig að ... (4.3.07) og Hún [formaðurinn] er ekki að finna fjölina sína, hún er ekki að kveikja neina elda (18. 3.07). — Til fróðleiks má benda á að merkingarleg samsvörun í ensku (he is doing fine) er ‘hömlulaus’ í þeim skilningi að hún er ekki háð takmörkunum eins og orðasambandið vera að + nh. í íslensku.

Orðasambandið vera að + nh. vísar í nútíð jafnan til (samtímalegs) verknaðar sem stendur yfir. Af því leiðir að það ætti alls ekki að geta vísað til framtíðar. Þess eru þó dæmi úr nútímamáli: Í fyrramálið er að létta til (15.2.07); Fyrirtækinu verður lokað ef það er ekki að skila hagnaði (11.3.07) og NN er að syngja á tónleikunum á morgun (21.3.07). — Óþarft er að taka það fram að dæmi þessi eru alveg einstök, umsjónarmaður minnist þess ekki að hafa nokkurs staðar rekist á hliðstæður þeirra. 

Úr handraðanum

Orðasambandið missa sjónar á e-m/e-u er ýmist notað í beinni merkingu eða óbeinni, t.d. (bein merking): Lögregluþjónar sem óðu á eftir [manninum] missti fljótlega sjónar á honum (6.6.06) og (óbein merking): missa sjónar á markmiðum sínum. Í nútímamáli gætir þess nokkuð að sagt sé missa sjónar af e-m/e-u, t.d.: missa ekki sjónar af hinum raunverulegu vandamálum (18.4.07). Hér gætir ugglaust áhrifa frá sögninni missa af e-u en slík málbeiting styðst hvorki við málvenju né uppruna. — Til gamans má geta þess að sjón vísar hér til ‘auga’ enda var til afbrigðið missa auga á e-u, t.d.: vér höfum misst auga á framförum tímans (19. öld).