Textaleit í útdráttum
Leita í textum Íslenska málfrćđifélagsins    Leita í öllu efni á Kvisti


Pistlar um íslenskt mál:   12. maí 2007

Jón G. Friđjónsson

Íslenskt mál - 102. ţáttur

Tungumálið endurnýjast stöðugt, við bætast ný orð og orðasambönd eftir þörfum. Umsjónarmaður rakst nýlega á nýjung af þessum toga, orðasambandið yfir og undir og allt um kring. Það vísar til þess að einhvers gætir hvarvetna. T.d. skrifar Indriði Aðalsteinsson: ... ásamt fjölbreyttu sukki og spillingu svo sem Byrgismálinu þar sem framsóknarmenn virðast vera yfir og undir og allt um kring (15.3.07). Ýmis önnur dæmi eru auðfundin, t.d.: Alþjóðlegt menningarsamfélag þar sem hið íslenska er þó yfir og undir og allt um kring (2007); En þannig er að forstjóri Landsvirkjunar er yfir og undir og allt um kring í öllum þeim ákvörðunum sem teknar hafa verið (2007); Lítið er sýnt af óhugnaði helfararinnar en hann er þarna yfir og undir og allt um kring (2007) og hið trúarlega er yfir og undir og allt um kring í öllum myndum hans (2005). Umsjónarmaður þóttist kannast við orðasambandið, hélt að það ætti rætur að rekja til Hallgríms Péturssonar eða Jóns Vídalíns. Svo reyndist þó ekki vera heldur virðist fyrirmyndina vera að finna í sálmi Sigurðar Jónssonar frá Presthólum (1590-1661): 

Vertu yfir og allt um kring
með eilífri blessun þinni,
sitji Guðs englar saman í hring
sænginni yfir minni.

Eins og sjá má á orðasambandið sér ekki beina samsvörun í sálmi Sigurðar en ættarmótið leynir sér þó ekki. Þetta dæmi er eitt af þúsundum sem sýna hve sterk ítök kristni og kristilegar bókmenntir eiga í þjóðarsálinni.  

Til fróðleiks skal á það bent að sæng merkir hér ‘rekkja, rúm’. Sú merking sem algengust mun vera í nútímamáli (‘ver með fiðri, dúni til að hafa ofan á sér í rúmi’) kemur fyrir í textum frá 18. öld en jafnvel þó hún væri eldri sýnir samhengi umrædds staðar að hún kemur þar ekki til greina. Upphaflega merkingin er reyndar enn algeng í ýmsum orðasamböndum, t.d.: færa konu gjöf á sængina; ganga í eina sæng með e-m; leggjast á sæng (‘taka léttasótt’); liggja á sæng (‘liggja í rúminu eftir barnsburð’); sjá sína sæng uppreidda; skilja að borði og sæng og skríða í eina sæng, sbr. enn fremur: Tak sæng þína og gakk.

Ofnotkun nafnháttar

Í íslensku er (eða hefur verið) gerður munur á einfaldri nútíð/þátíð og orðasambandinu vera að + nafnháttur (dvalarhorf), t.d.: Maðurinn skrifar vel/bréf á hverjum degi en hins vegar: Maðurinn er að skrifa bréf. Í síðara dæminu er um að ræða (afmarkaðan) verknað sem stendur yfir en fyrra dæmið vísar til þess sem er ekki afmarkað í tíma (maðurinn skrifar alltaf vel/skrifar bréf daglega). Þegar í fornu máli má sjá þennan mun en þær reglur sem ráða notkuninni er nokkuð flóknar og að mestu óskráðar. Málnotendur fara eftir málkennd sinni enda dugir hún vel í flestum tilvikum. En eftir hverju fer notkunin?

Til einföldunar má segja að merking eða vísun sagnar skipti mestu máli um það hvort notað er orðasambandið vera að + nh. eða ekki. Í fyrsta lagi er það ekki notað með sögnum er vísa til ástands eða kyrrstöðu, t.d. segja flestir: barnið sefur, konan situr við borðið og maðurinn býr í Hafnarfirði. Þessi ‘regla’ hefur frá fornu fari og til skamms tíma verið býsna traust en nú virðist hafa orðið breyting þar á, sbr.: Við erum að liggja [‘liggjum oft, þurfum oft að leggjast] til að ná slösuðum úr bílum (14.9.06). Í öðru lagi eru naumast til ritaðar heimildir um að nafnháttarorðasambandið sé notað með svo kölluðum skynjunarsögnum (t.d. sjá, heyra, vita, skilja), sbr. þó: við erum að sjá það gerast (4.11.05); við erum að sjá hlutina sömu augum (18.12.06) og ég er ekki að skilja þetta. Í þriðja lagi á sama við um sagnir sem lýsa afstöðu eða skoðun (t.d. telja, halda, álíta, trúa, vona) en út af því bregður oft í nútímamáli, t.d.: Ertu að reikna með að gengið hækki? (14.12.06) og Ég var ekkert að hugsa (12.4.07). Í fjórða lagi er nafnháttarorðasambandið sjaldnast notað með sögnum sem eru ekki bundnar við stað eða stund, t.d. leika vel, tala skýrt og standa sig vel. Hér gætir einnig breytinga í nútímamáli, t.d.: leikskólarnir eru að standa sig mjög vel (13.3.07). ‘Reglur’ sem þessar eru auðvitað miklu fleiri en fjórar ofantaldar en mikilvægasta reglan er vitaskuld málkenndin. Með því að velta fyrir sér dæmum og skoða þau geta áhugasamir lesendur auðveldlega fundið fleiri ‘reglur’ um notkun orðasambandsins vera að + nh. Í næsta pistli verður vikið að fleiri slíkum ‘reglum’.

Nafnorðasýki

Í pistlum þessum hefur nokkrum sinnum verið vikið að því sem nefnt hefur verið nafnorðahröngl eða nafnorðasýki (substantívítis). Þetta fyrirbrigði er einnig nefnt nafnorðastíll (stofnanastíll) og vísar það til þess að nafnorð eru notuð þar sem betur færi á að nota sagnorð. Dæmi þessa er auðfundin í nútímamáli, t.d.: reynt verði að hækka þjónustustigið [‘auka þjónustuna’] eins hratt aftur og hægt er (28.12.06); vill þróa lyf til að koma í veg fyrir kransæðasjúkdóma og hefur sótt um einkaleyfi fyrir beitingu slíks lyfs [‘einkaleyfi fyrir lyfi/því að nota lyf’] (5.1.07); Farsæll ferill rithöfundarins Clive Cussler var næstum því eyðilagður vegna kvikmyndaaðlögunar á bók hans Sahara [‘með því að gera kvikmynd eftir bók hans’] (7.2.07); Reykjavíkurborg hefur verið í forystu um aðgerðir til minnkunar svifryks [‘um að draga úr svifryki’] (16.2.07); Leiðastjórnun skipa er nauðsynleg [‘nauðsynlegt að stýra því hvaða leiðir skip sigla’] (8.2.07); Verði skip fyrir vélarbilun, stýrisbilun [‘bili vél eða stýri skips’] (8.2.07); spurði þá saksóknari hver hefði séð um ákvarðanatöku [‘tekið ákvarðanir’] (28.2.07) og stjórn Faxaflóahafna býður aðkomu sína að byggingu Sundabrautar [‘býðst til að eiga hlut að’] (21.3.07).

Í sumum tilvikum er gengið svo langt að framsetning verður nánast óskiljanleg. Hvað merkir t.d. markaður fyrir færsluhirðingu?: Tilefnið var rökstuddur grunur um brot á ákvæðum samkeppnislaga, einkum misnotkun á markaðsráðandi stöðu á markaði fyrir færsluhirðingu sem er innlausn færsluávísana til kaupmanna (15.3.07). Af svipuðum meiði eru eftirfarandi dæmi: um viðhorf landsmanna til veitingar heilbrigðisþjónustu (29.3.07); Formaður umhverfisráðs segir áhersluna nú á að auka loftgæði í borginni (6.3.07) og að sögn varðstjóra var nokkurt ölvunarástand í bænum í nótt [‘talsverð ölvun var’] (24.2.07). — Umsjónarmanni eru minnisstæð orð sem íslenskukennari lét falla er dæmi af þessum toga var borið undir hann: Ekki er það vakurt þótt riðið sé.

Úr handraðanum

Í Morgunblaðinu var nýlega fjallað um menningarsamning um samstarf Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis og Borgarleikhússins (Mbl. 10.3.07). Yfirskriftin var Mjór er mikils vísir og felur hún í sér gömul sannindi og ný. Vísir merkir hér ‘frjóangi, spíra’, sbr. orðasambandið vísir að e-u. Málsháttur þessi er eldforn þótt hann hafi ekki ratað inn í málsháttasöfn (né páskaegg). Hann á rætur sínar í lausavísu Óttars svarta sem Finnur Jónsson telur vera frá því um 1023. Málshátturinn á enn fullt erindi við okkur og merking hans er öllum auðsæ, jafnt nú sem fyrir 1000 árum.