Textaleit í útdráttum
Leita í textum Íslenska málfrćđifélagsins    Leita í öllu efni á Kvisti


Pistlar um íslenskt mál:   28. apríl 2007

Jón G. Friđjónsson

Íslenskt mál - 101. ţáttur

Eiður Guðnason sendi þættinum eftirfarandi dæmi (með leturbreytingum umsjónarmanns): Miklar tafir mynduðust á Miklubraut, bæði á austur- og vesturleið vegna slyssins og benti lögreglan á höfuðborgarsvæðinu þeim tilmælum til ökumanna að nota Sæbraut og eða Bústaðaveg til þess að minnka álag á Miklubrautinni. Ökumenn sem eiga leið hjá vettvangi er bent á að sýna fyllstu varúð þar sem neyðarlið er að störfum (4.2.07). Um þetta segir Eiður: ‘Hér er margt athugavert. ... Þrjár afleitar ambögur í tveimur setningum: Tafir myndast ekki; Lögreglan bendir ekki tilmælum til fólks og Ökumenn er ekki bent á. ... Jafnvel mætti bæta þeirri fjórðu við: Ökumenn nota Sæbraut eða Bústaðaveg (ekki Sæbraut og Bústaðaveg)’.

Umsjónarmaður þakkar Eiði kærlega fyrir dæmið og gagnorðar skýringar.

Óvandað orðalag

Það er furðu algengt að farið sé rangt með orðatiltæki og föst orðasambönd og geta frávikin verið af ýmsum toga. Í orðatiltækinu fara villur vega/(vegar) ‘skjátlast; vera á villigötum’ er villur lýsingarorð og sambeygist því frumlaginu, t.d. Hún fór vill vega eða Þær fóru villar vega. Í nútímamáli (reyndar frá fyrri hluta 20. aldar) er villur stundum skilið sem þf.flt. af villa, t.d. Þeir sem halda að þetta séu hrósyrði, fara villur vega (6.6.06). Slík notkun samræmist hvorki uppruna né málvenju.

Orðatiltækið skipa sér/e-m/e-u á bekk með e-m/e-u vísar til þess er mönnum er vísað til sætis eftir virðingu. Það er því ávallt notað um e-ð jákvætt og hlutstætt og því samræmist eftirfarandi dæmi ekki málvenju: Frumvarpið gerir ráð fyrir því að kynmökum við börn yngri en fjórtán ára verði skipað á bekk með nauðgunum ‘verði lagðar að jöfnu við’ (12.2.07). Því er við að bæta að frumvarp getur naumast gert ráð fyrir einu né neinu.

Flestir munu kannast við orðatiltækið blikur eru á lofti ‘e-ð ógnvænlegt og óvisst er fram undan; það dregur upp óveðursský’ en það vísar til þess er menn reyna að ráða veðurhorfur af skýjafari. Umsjónarmaður kannast hins vegar ekki við afbrigðið e-ð/margt er á lofti en það gat að líta í dagblaði nýlega: rökstyðja það að margar skoðanir séu á lofti um málið í Samfylkingunni (19.1.07) ‘að hver höndin sé upp á móti annarri’. Í sömu grein var spurt hvort þingmenn Sjálfstæðisflokksins væru á einu máli eða allir sömu skoðunar en það var orðað svo: Eru þingmenn Sjálfstæðisflokksins með eina skoðun í RÚV-málinu? (19.1.07). Umsjónarmaður kannast annars ekki við orðasamabandið vera með eina skoðun enda finnst honum það fremur rislágt. 

Eigi leið þú oss í freistni

Sögnin freista (e-s) merkir ‘reyna e-ð’, t.d.: Þeir ætla að freista þess að ná samkomulagi og láta einskis ófreistað, sbr. enn fremur freista gæfunnar ‘láta reyna á heppni sína’. Af sögninni er leitt lýsingarorðið freistinn ‘sá sem freistar e-s, reynir e-ð’ og af því lýsingarorði er dregið nafnorðið freistni sem merkir (í beinni merkingu) ‘próf, prófraun’. Í Biblíunni eru þess mörg dæmi að menn hafi verið leiddir í freistni, t.d. leiddi Satan Job í freistni ‘lét reyna á staðfestu hans í trúnni’ og í Nýja testamentinu eru þess einnig fjölmörg dæmi að Jesús eða lærisveinar hans hafi verið leiddir í freistni. Í Faðirvorinu segir: eigi leið þú oss í freistni; hér er upprunaleg merking vísast ‘leið oss eigi í prófraun’ eða ‘lát eigi reyna á staðfestu vora’. Hér þarf ekki að breyta neinu eins og sumir hafa talið eða endurtúlka neitt. Það hlýtur að vera hluti af barnalærdómnum að skilja þessi orð með réttum hætti. Á hinn bóginn er því ekki að neita að ‘freisting’ er vissulega ákveðin ‘prófraun’ og því hefur orðið freistni einnig fengið þá merkingu í síðari alda máli. — Rétt er að taka það skýrt fram að umsjónarmaður hefur ekki hlotið neina menntun á sviði guðfræði, túlkun hans er einungis byggð á málskilningi og barnalærdómi.                                       

Úr handraðanum

Margir munu kannast við Naglasúpuna, söguna af flakkaranum sem bað um húsaskjól hjá kerlingunni nísku. Hún sagðist ekki eiga nokkurn matarbita en flakkarinn sagði að það gerði ekkert til því að hann ætti nagla sem gera mætti af ágætis súpu. Síðan vélaði flakkarinn kerlinguna til að bæta ýmsu við í pottinn, fyrst mjölhnefa, síðan kartöflutítlum og grjónum og loks mjólkurtári. Hann var að uns soðin var ágætis súpa. Sögu þessa er að finna í Lestrarbók fyrir barnaskóla (upp úr 1950), Freysteinn Gunnarsson tók saman efnið og Halldór Pétursson teiknaði eftirminnilega mynd með sögunni. Í Lestrarbókinni er sagan sögð vera norsk þjóðsaga en hið rétta mun vera að hún var þýdd úr sænsku á norsku og var birt í Læsebog for Folkeskolen II (1893) undir heitinu Fanten og kjerringa, Nordahl Rolfsen þýddi. Í norsku gerðinni er einmitt að finna nafnorðið spikersuppe (‘naglasúpa’).

Í grannmálum okkar eru kunn orðatiltæki sem vísa til sögunnar, t.d. d. å koge suppe på en pølsepind (heiti á ævintýri eftir H.C.Andersen (1858)); n. koke suppe på en spiker ‘(reyna að) fá e-ð úr engu’ og s. koka soppa på en spik. Engar hliðstæður eru kunnar í íslensku og orðið naglasúpa hefur ekki ratað inn í orðabækur. Það er þó býsna algengt, einkum notað með tvennum hætti að því er umsjónarmanni virðist. Í fyrsta lagi virðist það merkja ‘ómerkilegur matur (búinn til úr afgöngum)’, t.d.: Við verðum að lifa á naglasúpu út mánuðinn. Umsjónarmaður telur sig þekkja vel að þegar enginn sérstakur réttur var í matinn talaði húsmóðirin um að hún mundi bara búa til naglasúpu og var þá ekki átt við neins konar súpu heldur samtíning. Í öðru lagi vísar naglasúpa til þess sem er ómerkilegt (ósamstætt) að efni og innihaldi (jafnvel svikið)’, t.d.: Frumvarpsdrögin virðast hálfgerð naglasúpa; Fulltrúar minnihlutans hafa matreitt málavexti eftir eigin uppskrift og úr orðið naglasúpa af verstu gerð (2005); Loforðasúpa Vinstri grænna sem kynnt var um helgina ... var alger naglasúpa (2007); Ég ætla að leyfa mér að staðhæfa að ... [NN] hafi skáldað þetta upp til að bragðbæta hina lapþunnu naglasúpu sem ‘fréttaskýringin’ var (22.3.07).