Textaleit í útdráttum
Leita í textum Íslenska málfrćđifélagsins    Leita í öllu efni á Kvisti


Pistlar um íslenskt mál:   14. apríl 2007

Jón G. Friđjónsson

Íslenskt mál - 100. ţáttur

Þegar fara á betur en vel fer oft verr en illa

Í pistlum sínum hefur umsjónarmaður alloft vikið að því að ofvöndun geti leitt út í ógöngur einkum ef ekki er tekið tillit til málvenju. Með forsetningunum á og í er ýmist notað þolfall (hreyfing) eða þágufall (kyrrstaða) og ef atviksorð eru notuð með þeim er ýmist notuð styttri myndin (inn, út, upp, fram) eða sú lengri (inni, úti, uppi, frammi), t.d. fara upp í skóla en vera uppi í skóla og sigla út á vatnið en sigla úti á vatninu. Þessi ‘regla’ virðist vera mjög traust í íslensku, fjölmörg dæmi frá elstu heimildum og fram til nútímans staðfesta hana.

Í nútímamáli gætir þess nokkuð að framangreind ‘regla’ sé einnig notuð með forsetningunni við, þ.e. niður við > niðri við; inn við > inni við; út við > úti við o.s.frv. Umsjónarmann grunar að það feli í sér ofvöndun er sagt er: Búist er við rigningu úti við [þ.e. út við] ströndina; Prikið stendur uppi við [þ.e. upp við] vegginn eða Strákurinn er besta skinn inni við [þ.e. inn við] beinið. Svo mikið er víst að engar traustar heimildir eru fyrir slíkri málbeitingu og í eðlilegu máli talar fólk ekki svona.

Það er vitaskuld enginn vegur að gera grein fyrir notkun atviksorða með forsetningunni við í stuttu máli en á það skal bent að í flestum tilvikum er vísað til stefnu en ekki kyrrstöðu, t.d.: Bærinn stendur þarna / niður við sjóinn. — Hér sem endranær fer best á því að málvenja og málkennd ráði.

Frekur er hver til fjörsins

Í málshættinum Frekur er hver til fjörsins merkir fjör ‘líf’ og vísar hann til þess að öllum er lífið kærast. Hann er víða að finna í fornu máli, einnig í öðrum myndum. Í Laxdæla sögu (61.k.) segir t.d.: Þykir mér og sem svo verður flestum gefið að allt láti fjörvi fyrri og í Njáls sögu (83.k.) stendur: Fé er fjörvi firra (‘fé er minna vert en lífið’). Það á sér því enga stoð að nota orðasambandið vera frekur til fjörsins í merkingunni ‘vera fyrirferðarmikill; vilja láta til sín taka’ eins og í eftirfarandi dæmi: Hann [forseti Íslands] hafi verið frekur til fjörsins sem pólitíkus og hann sé frekur til fjörsins sem forseti (30.1.07).

Auðlærð er ill danska

Á það hefur verið bent að málshættir feli í sér skírskotun til almennra sanninda, vísi til reynslu genginna kynslóða, og geymi þannig með nokkrum hætti það sem kalla má heimspeki alþýðu. Málsháttinn Auðlærð er ill danska má rekja aftur til 17. aldar. Hann vísar vitaskuld ekki til þess að danska sé ill heldur til þess að auðvelt sé að slá um sig með lélegri dönsku. Málshátturinn er barn síns tíma, sýnir afstöðu manna til dönskuskotins málfars. En nú er öldin önnur, nú er það enska sem sækir á en ekki danska. En ætli sú enska sem nú sækir á sé ekki ‘ill’ í sama skilningi og ‘ill danska’? Það getur naumast talist vandað mál að ‘skreyta’ framsetningu sína með hráum þýðingum úr. Þessa gætir þó talsvert í fjölmiðlum, sbr. eftirfarandi dæmi:

Áður hafði Levin bætt við að leggja þyrfti aukinn þrýsting á Íraksstjórn (13.11.06) [e. put a pressure on]; á fundum bak við luktar dyr (‘fyrir luktum dyrum’) (4.12.06) [e. behind closed/locked doors]; sagði stóráfall að svona hlutir gætu gerst undir nefinu á Alþingi og eftirlitskerfi þess (20.1.07) [e. under the nose of]; stór mistök [e. big mistake]; Mér finnst við eiga rétt á stórri afsökunarbeiðni [fyrir mistökin í Írak] (22.1.07); frá þeim leik [tapleik fyrir Dönum] höfum við ekki náð að frelsa okkur (5.2.07) [e. free oneself from sth.]; Sigurður Tómas Magnússon settur saksóknari átti gólfið einn í gær og spurði Tryggva Jónsson spjörunum úr (20.2.07) [e. have the floor]; Hann hafði ekki lokaorðið um myndina (6.2.07) [e. have the last word] ‘átti ekki síðasta orðið’ (sbr. d. få sidste ordet) og Forstjóri stígur af vagninum ‘lætur af störfum’ (4.2.07).

Úr handraðanum

Nýlega urðu talsverðar umræður um banka og bankastarfsemi á Íslandi og sýndist sitt hverjum. Ónefndur bankamaður taldi að bankarnir greiddu með húsnæðislánum en á Alþingi var talað um okur bankanna. Það er reyndar ekki nýtt.

Af einhverjum ástæðum var Jóni Ólafssyni frá Grunnavík, aðstoðarmanni Árna Magnússonar, mjög uppsigað við banka. Hann velur þeim hin herfilegustu heiti sem sum hver eru svo svæsin að umsjónarmaður treystir sér ekki til að hafa þau eftir. Önnur eru meinlausari, t.d. okursbrunnur eigi grunnur, fjárgróðastofn og ágóðauppspretta. — Umræðan um bankana nú á dögum og afstaða Jóns Grunnvíkings staðfestir orð Predikarans: Ekkert er nýtt undir sólunni.

Í textavarpinu var vikið að útþenslu bankanna og þar var ritað: Þrír bankar séu með 90% markaðshlutdeild. Þeir hafi hins vegar breytt [þ.e. breitt] úr sér til Skandinavíu og Bretlands (22.2.07). Það er naumast nokkrum vafa undirorpið að íslenskir bankar hafa aukið umsvif sín eða fært út kvíarnar en hvernig í ósköpunum má það vera að þeir hafi breitt úr sér? Það kemur á óvart að sjá orðalag sem þetta í textavarpinu.