Textaleit í útdráttum
Leita í textum Íslenska málfrćđifélagsins    Leita í öllu efni á Kvisti


Pistlar um íslenskt mál:   31. mars 2007

Jón G. Friđjónsson

Íslenskt mál - 99. ţáttur

Merking orða

Ragnar Ingimarsson gerir athugasemd við eftirfarandi dæmi: Því svarar Guðni eins og væri hann nautheimskur eða kýrskýr og fær fjölda atkvæða út á ruglið (23.2.07). Eins og sjá má er lo. kýrskýr notað hér í merkingunni ‘nautheimskur’ en Ragnar kveðst aðeins þekkja það í merkingunni ‘mjög skýr’ og jafnframt bendir hann á að í Íslenskri orðabók er aðeins gefin merkingin ‘heimskur’. Umsjónarmaður er sammála Ragnari, merkingin ‘mjög skýr’ er honum töm en merkinguna ‘heimskur’ þekkir hann alls ekki. Við lauslega athugun kom í ljós að lo. kýrskýr er hvorki að finna í ritmálssafni Orðabókar Háskólans né í orðabók Blöndals. Umsjónarmaður spurðist fyrir um orðið á vinnustað sínum og þá kom í ljós að enginn þekkti merkinguna ‘heimskur’. Ef orðinu er slegið upp í leitarvélinni Google má finna um það tæplega 200 dæmi, öll í merkingunni ‘mjög skýr’, einkum er það algengt í orðasambandinu e-ð er kýrskýrt.

Niðurstaðan er því sú að engar ritaðar heimildir séu kunnar um lo. kýrskýr í merkingunni ‘heimskur’ nema áðurnefnt dæmi og Íslensk orðabók. Getur það verið að hér sé um að ræða svo kallað ‘draugorð’ (öllu heldur ‘draugmerkingu’)? Ekki skal það fullyrt hér en gaman væri að fá línu frá lesendum sem telja sig þekkja merkinguna ‘heimskur’. Því má svo velta fyrir sér hvernig merkingin ‘heimskur’ sé til orðin. Á það má benda að með réttu eða röngu eru kýr oft taldar heimskar skepnur en enn fremur kunna hliðstæðurnar kýrvit ‘heimska’ (Blöndal) og nautheimskur að hafa haft áhrif á merkinguna.

Ragnar gerir enn fremur athugasemd við orðasambandið til langs tíma í merkingunni ‘lengi’, t.d.: kennari til langs tíma og selja buxur til langs tíma (reyndar er óljóst hvort sá sem um ræðir hafi lengi stundað þá iðju að selja buxur eða hvort buxurnar eigi að endast lengi). Umsjónarmaður er sammála Ragnari um það að þessi notkun orðasambandsins til langs tíma er framandleg og óþörf enda styðst hún ekki við málvenju. Umsjónarmaður hefur hvergi rekist á þessa merkingu orðasambandsins og hvorki er hana að finna í orðabókum né í ritmálssafni Orðabókar Háskólans. Vera má að hér sé á ferðinni afbrigði af hinu danskættaða orðasambandi til margra ára, sbr. enn fremur hliðstæðuna til skamms tíma (‘fram til þessa, þar til nú fyrir skemmstu’).

Breiðavík

Það er alkunna að oft er vandfarið með staðarnöfn, annars vegar að því er tekur til beygingar og hins vegar er notkun forsetninga með þeim oft staðbundin og getur þá verið breytileg eftir landshlutum.

Staðarnöfn sem hafa lýsingarorð að fyrri lið geta beygst með þrennu móti. Í fyrsta lagi eru báðir liðir oftast beygðir, t.d.: Fagriskógur (frá Fagraskógi), Rauðisandur (á Rauðasandi), Djúpivogur (á Djúpavogi), Kaldidalur (á Kaldadal), Mjóifjörður (í Mjóafirði), Langidalur (í Langadal) o.s.frv., sbr. langatöng (til löngutangar). Í öðru lagi getur nefnifallsmynd fyrri liðar orðið ráðandi, t.d. Djúpavík, á Djúpavík. Í þriðja lagi er aukafallsmynd fyrri liðar stundum notuð í nefnifalli, t.d. Breiðafjörður, á Breiðafirði, sbr. Enn fremur hvítabjörn.

Með staðarnöfnum sem enda á -vík er ýmist notuð forsetningin í (sunnanlands og vestan-) eða á (norðanlands og austan-), t.d. er sagt í Reykjavík, Bolungarvík, Breiðavík, Grindavík, Keflavík, Njarðvík, Ólafsvík, Súðavík, Vík í Mýrdal o.fl. en hins vegar á Dalvík, Djúpavík, Grenivík, Hólmavík, Húsavík o.fl.

Á liðnum vikum hefur drengjaheimilið í Breiðavík (Rauðasandshreppi) oft borið á góma. Umsjónarmaður hefur veitt því athygli að mjög er misjafnt hvernig með beygingu þess er farið og enn fremur er notkun forsetninga með því talsvert á reiki. Sem dæmi má taka að í stuttri umfjöllun um það í dagblaði (7.3.07) var forsetningin á (dvöldu á Breiðavík; á drengjaheimilinu á Breiðavík) notuð tvívegis og forsetningin í þrisvar (á drengjaheimilinu í Breiðavík; voru vistaðir í Breiðavík). Í öðrum tilvikum hefur verið rætt um dvöl Breiðavík (eða Breiðuvík). Þá hefur beyging orðsins mjög verið á reiki, ýmist Breiðavík eða Breiðuvík í aukaföllum.

Umsjónarmaður verður að játa að hann hefur ekki mikla tilfinningu fyrir beygingunni en finnst hins vegar ótækt annað en málvenja og heimamenn fái að ráða ferðinni um beygingu og notkun forsetninga. Af fornbréfum, annálum og öðrum heimildum má sjá að heimamenn tala um í Breiðavík, t.d. hjá Þorláki í Breiðavík, að því ógleymdu að í Íslenskri orðabók stendur í Breiðavík. Við þurfum því ekki frekar vitnanna við, Breiðavík beygist eins og Djúpavík og með henni er notuð forsetningin í: í Breiðavík.

Úr handraðanum

Bólu-Hjálmar kvað svo um Sólon Íslandus (Sölva Helgason): *Heimspekingur hér kom einn á húsgangsklæðum. / Með gleraugu hann gekk á skíðum, / gæfuleysið féll að síðum. Hér er dregin upp eftirminnileg mynd, hér er hvorki of né van. Alloft er vitnað til þessa með beinum eða óbeinum hætti, þannig lifir brotið gæfuleysið féll að síðum sem orðatiltæki. Umsjónarmanni finnst það frábært af hendi skáldsins og því til lýta að auka það á nokkurn hátt eins og gert er í eftirfarandi dæmi: Að hann skuli vera sá, sem verst er leikinn og gæfuleysið fellur að breiðu baki og síðum (3.2.07).