Textaleit í útdráttum
Leita í textum Íslenska málfrćđifélagsins    Leita í öllu efni á Kvisti


Pistlar um íslenskt mál:   17. mars 2007

Jón G. Friđjónsson

Íslenskt mál - 98. ţáttur

Fallstjórn

Sögnin að stinga getur eins og fjölmargar aðrar sagnir ýmist tekið með sér þolfall eða þágufall í mismunandi merkingu, t.d. stinga mann (í bakið); stinga upp kálgarð, stinga lyklinum í vasann/skrána og stinga einhverju að einhverjum. Munurinn er skýr en í nútímamáli ber þó við að notkun sé ekki í samræmi við málvenju.

Á heimasíðu Flugleiða er að finna eftirfarandi leiðbeiningar: ‘Þegar innritun á sér stað er greiðslukort, sem sett var inn sem auðkenni, stungið í vélina og innritun getur hafist’. Ætla mætti að stórfyrirtæki á borð við Flugleiðir hefði metnað og burði til að sýna sjálfu sér, íslenskri tungu og viðskiptavinum þá virðingu að senda frá sér hnökralausan texta. Það ætti ekki að vera fyrirtækinu ofviða að standa straum af kostnaði við yfirlestur.

Af svipuðum meiði er eftirfarandi dæmi: af ótta við að einhverjir kunni að nota það sem við segjum til að renna stoðir undir ímyndaðar samsæriskenningar (20.10.06). Það er auðvitað eitt að renna e-ð ‘sníða til (í rennibekk)’ en annað að renna e-u ‘láta e-ð renna’.

Merking orða

Talsverður munur er á því að herða e-ð (sig, skrúfuna) og herða á e-u (sér, skrúfunni). Í eftirfarandi dæmi er þessu tvennu ruglað saman: stjórnvöld verði að taka afstöðu til þess hvort að [svo] HÍ verði áfram þjóðskóli opinn öllum eða hvort að [svo] herða skuli á inntökuskilyrðum (28.8.06).

Algengt er að tala um að ganga að e-u vísu ‘telja e-ð öruggt, tryggt’ en orðasambandið ganga af e-m dauðum vísar til þess er e-r liggur dauður eftir (viðureign, viðskipti við annan), sbr. enn fremur að orðasambandið ganga frá e-m (óvini sínum) má einnig nota í svipaðri merkingu. Umsjónarmanni finnst hæpið að tala um að ganga af gæðum dauðum en sýnu verra að ganga að gæðum dauðum, eins og sjá má í eftirfarandi dæmi: Annar fréttastjóri sagði um svipað leyti að niðurskurður á fréttastofum (‘á fé til fréttastofa’) væri að ganga að gæðunum dauðum (Mbl. 17.10.06).

Þegar fara á betur en vel fer oft verr en illa

Jón biskup Vídalín notar málsháttinn í myndinni þegar fara á betur en vel, þá fer verr en illa með vísun til manns sem lagði sig allan fram í verkum sínum en gleymdi þó því sem mikilvægast er. Málshátturinn getur einnig vísað til þess að það er góðra gjalda vert að vanda sig í framsetningu en málvenja og málkennd er þó mikilvægari.

Orðatiltækið taka e-ð óstinnt upp (fyrir e-m) merkir ‘skilja, túlka e-ð illa/(linlega) (fyrir e-m)’ > ‘taka e-u illa’. Lýsingarorðið óstinnur merkir ‘linur, óstæltur’ og af því er myndað atviksorðið óstinnt. Þar sem ó- er neitunarforskeyti og heildarmerking ao. óstinnt er einnig neikvæð finnst mönnum unnt að sleppa forskeytinu, t.d.: stjórnarandstöðuþingmenn tóku ummæli Sólveigar Pétursdóttur ... stinnt upp en þar sagðist hún vera þeirrar skoðunar að kannski þyrfti að takmarka ræðutíma í annarri umræðu (18.1.07). Hér virðist gæta ofvöndunar en vitaskuld ræður málvenja hér sem endranær.

Af sama toga er endurtúlkun lo. óhultur ‘öruggur’ sem verður þá hultur, sbr. enn fremur orðatiltækið vera ómyrkur í máli ‘tala tæpitungulaust; segja hug sinn skýrt og vafningalaust’, sem verður þá ranglega vera myrkur í máli.

Úr handraðanum

Í fyrstu Mósebók (1. Mós 6, 17) greinir frá syndaflóðinu, sem svelgir synduga menn. Syndaflóðið vísar reyndar upphaflega til ‘síflóðs, mikils flóðs’, sbr. fhþ. Sintfluot > Sündflut, þ.e. forskeytið sint- (‘sí-’) er tengt Sünde ‘synd’. Enn er auðvelt að misskilja orð. Fyrir allmörgum árum var þýskur stúdent við nám í Háskóla Íslands. Á hverjum degi lá leið hans upp í Háskóla fram hjá Sundhöll Reykjavíkur og olli heitið honum miklum heilabrotum. Dag einn spurði hann umsjónarmann: Hvað gera Íslendingar eiginlega í þessari sundhöll (Sündenhalle)? Umsjónarmaður svaraði auðvitað um hæl: Þar þvo þeir af sér syndir sínar.

Orðasambandið eftir mig kemur syndaflóðið ‘það lafir á meðan ég lifi’ vísar til hámarks skammsýni og eigingirni. Það á uppruna sinn í fleygum ummælum (í frönsku): après nous le déluge. Ummælin eru oft eignuð Mdm. Pompadour, eiga að hafa fallið í samtali hennar við Loðvík 15. (1757), aðrir leggja ummælin Loðvík 15. í munn. Hvorugt mun vera rétt. Trúlega er um að ræða gamlan franskan málshátt: Après moi le déluge. Elsta dæmi í íslenskum heimildum er frá miðri 19. öld. Orðasambandið er algengt í nútímamáli, sbr. eftirfarandi dæmi: Nú — svo er auðvitað gamla góða ráðið frá Loðvík 15., síðasta Frakkakóngi fyrir stjórnarbyltinguna: Syndaflóðið kemur ekki fyrr en eftir minn dag. — Meinið er bara það að Alcan í Straumsvík er á dagskrá núna strax (20.1.07).

Umsjónarmanni þykir þýðingin ‘það lafir á meðan ég lifi’ bráðsnjöll en því miður hefur hann ekki hugmynd um aldur hennar og uppruna.