Textaleit í útdráttum
Leita í textum Íslenska málfrćđifélagsins    Leita í öllu efni á Kvisti


Pistlar um íslenskt mál:   14. júní 2003

Jón G. Friđjónsson

Íslenskt mál - 4. ţáttur

Íslenskt mál - 4. þáttur

Áður hefur verið vikið að því að forsetningunum og af slær stundum saman, t.d. að gefnu tilefni (?af gefnu tilefni) og í tilefni af e-u. Annað dæmi um rugling af þessu tagi má sjá með nafnorðunum handrit að/af e-u, líkan að/af e-u og uppdráttur að/af e-u. Þegar nánar er að gætt má sjá að einfaldar reglur gilda um notkun forsetninganna að/af í samböndum af þessum toga.

‘Reglur’ vísa í þessu sambandi til málnotkunar sem ætla má að málhafar séu sammála um. Menn þurfa reyndar ekki að vera vel að sér í málfræði til að ‘kunna’ slíkar reglur, kunnáttan kemur fram í málbeitingu. Umsjónarmaður þáttarins er eindregið þeirrar skoðunar að leiðbeiningar um málfar og málnotkun þurfi að vera settar fram með þeim hætti að allir geti skilið það sem um er rætt og niðurstaðan verður enn fremur að vera í samræmi við málkennd alls almennings.

Til að ná þessum markmiðum virðist undirrituðum vænlegast að tefla fram dæmum og höfða til máltilfinningar lesenda en vitaskuld verða aðrir að dæma um hvernig til tekst.

Nú skal vikið að þeim reglum sem ráða því hvort sagt er líkan að e-u eða líkan af e-u. Til einföldunar verða mikilvægustu merkingarþættirnir kallaðir [undanfari] og [afrit]:

 1. [undanfari]. Forsetningin er notuð í fjölmörgum orðasamböndum til að vísa til upphafs, undanfara eða byrjunar, sbr.:
  • Aðdragandi e-u
  • formáli e-u (bók/verki)
  • frumvarp e-u/lögum
  • inngangur e-u (verki)
  • kveikjan e-u
  • leggja drög e-u
  • leggja grundvöllinn e-u
  • leggja grunninn e-u (sigri)
  • leggja kjöl skipi
  • taka grunn húsi
  • uppkast e-u
  • uppskrift e-u (mat; vandræðum)
 2. [afrit]. Forsetningin af+þgf. felur oft í sér umritun eignarfalls og getur þá m.a. vísað til afrits eða eftirmyndar, t.d.:
  • Afrit af e-u
  • finna lykt af e-u
  • frumgerð af e-u
  • frumrit af e-u
  • föt af e-m
  • e-ð er forsmekkurinn af því sem koma skal
  • kort af landinu
  • mynd af e-m/e-u
  • próförk af bók
  • slitur af e-u (bók)
  • teikning af e-u
  • uppdráttur af e-u (landi)
 3. [undanfari] eða [afrit]. Nokkur orð, t.d. nafnorðin handrit, líkan og uppdráttur, má ýmist nota samkvæmt merkingarreglu eitt eða tvö og þá ýmist með að eða af, merking sker úr. Þannig er gert líkan bátahöfn en þegar verkinu er lokið er um að ræða líkan af bátahöfn og ýmsir skrifa handrit kvikmynd en af Njáls sögu eru til fjölmörg handrit.

Lesendur geta leitað í huga sér að hliðstæðum dæmum en ég vænti þess að flestir geti verið sammála um að í slíkum tilvikum ræður merking málnotkun. Ég hef hins vegar oft rekist á það að forsetningin að sækir á í slíkum samböndum, menn ræða um (fullgerða) ?teikningu að húsi, um (fullbúinn) ?uppdrátt að landsvæði og segja jafnvel: ?Myndin sýnir líkan að byggingunni. Slík málbeiting samræmist hvorki málvenju né þeim merkingarreglum sem að baki liggja.

Málbreytingar eiga sér oftast skýringar og í þessu tilviki hygg ég að skýringanna sé að leita í kerfinu sjálfu. Það geta verið áhöld um það í hvaða merkingarflokki tiltekin orð lenda. Sem dæmi má taka orðið próförk. Er hér um að ræða ‘undanfara’ eða ‘afrit’? Þeir sem lesa próförk að bók líta væntanlega á próförkina sem einhvers konar aðdraganda eða undanfara.

Þeir sem lesa próförk af bók líta hins vegar trúlega svo á að próförkin sé sjálfstætt plagg og fyllir undirritaður þann flokk. Þótt upp komi nokkur álitamáli varðandi þessi atriði má ekki gleyma því að í langflestum tilvikum er málnotkun að þessu leyti í föstum skorðum.

Úr handraðanum

Fjölmörg orð og orðasambönd í íslensku eiga sér skemmtilega sögu en oftar en ekki hafa þau breyst svo mjög á leið sinni til nútímamáls að þau bera ekki með sér uppruna sinn, þau eru ekki lengur gagnsæ.

Jafnframt er það staðreynd að aðeins örlítilla skýringa er þörf til að svipta af þeim hulunni. Eitt þessara orðasambanda er segja af eða á < bera af eða á.

Það á rætur sínar að rekja til lagamáls. Bein merking er ‘bera sök af e-m eða á e-n, sýkna e-n eða sakfella’ en yfirfærð merking er ‘segja já eða nei; taka ótvíræða afstöðu til e-s’, t.d.: Þú verður að ákveða þig, segja annaðhvort af eða á.

Beina merkingu orðasambandsins er að víða að finna, t.d. finna í Njáls sögu: beiði búa ... framburðar um kvið, bera annað tveggja á eða af (142. kafli), þar sem kviður merkir ‘vitnisburður,’ sbr. einnig: mun óvinsælt verða málið að bera af honum kviðinn og dæma fjörbaugsmann ef kviður ber á hann.

Af sama meiði eru orðasamböndin bera e-ð á e-n [áburður] ‘ákæra, bera e-m e-ð á brýn’ og bera e-ð af sér ‘neita sakargiftum’. Bein merking hefur verið gagnsæ í lagamáli allt fram á síðustu öld, t.d.: sanna annaðhvort sökina af eður á (16.öld); Kóngur segir hvorki af né á um það (19.öld) og leita úrskurðar, annaðhvort af eða á (19.öld) en yfirfærð merking er gömul: Það er ýmist af eða á (17.öld).

Morgunblaðið, 14. júní 2003