Textaleit í útdráttum
Leita í textum Íslenska málfrćđifélagsins    Leita í öllu efni á Kvisti


Pistlar um íslenskt mál:   11. desember 2004

Jón G. Friđjónsson

Íslenskt mál - 42. ţáttur

Enska sögnin download vísar til þess er gögn eru sótt á Vefinn og þau vistuð annars staðar, t.d. í eigin tölvu.

Það hefur reynst erfitt að þýða sögnina á íslensku svo að viðunandi sé en tilraunir í þá átt eru t.d. hala (e-ð) niður og hlaða (e-u) niður en samsvarandi nafnorð eru niðurhal og niðurhleðsla. Er eitthvað athugavert við þessi orð?

Umsjónarmanni finnst þau ekki hljóma vel og svo mikið er víst að þau hafa ekki fundið almennan hljómgrunn. Það er einkum liðurinn down = niður sem fer ekki vel í þessu sambandi. Menn geta hlaðið niður börnum en síður gögnum. Þegar þýtt er má telja mikilvægast að merkingin komist að öllu leyti til skila í því máli sem þýtt er á og framsetning verður auðvitað að samræmast málvenju. Orðrétt þýðing eða þýðing lið fyrir lið er oft gölluð. Í því tilviki sem hér um ræðir (download) væri best að sleppa forliðnum down-, samsvörunin niður hljómar ekki vel með sögnunum hala og hlaða.

Sá sem þetta ritar er þeirrar skoðunar að jafnan fari best á því að þeir smíði nýyrði er þekkja til þeirra hluta sem um ræðir, sérstök málfræðikunnátta er nauðsynleg. Nýlega kom til mín tölvumaður til að setja upp fyrir mig nýja tölvu og færa gögn úr gömlu tölvunni í þá nýju. Ég notaði auðvitað tækifærið og spurði hann spjörunum úr um ýmislegt er varðaði tölvuna, ekki af áhuga á tækinu sem slíku, heldur langaði mig miklu fremur til að fræðast af munni sérfræðings um orðafar á þessu sviði.

Vissulega notaði tölvumaðurinn sögnina dánlóda en aðspurður hafði hann ýmsar aðrar sagnir á hraðbergi, t.d. sækja kvikmynd á Netið, ná í kvikmynd á Netinu og taka kvikmynd af Netinu. Okkur kom saman um að forliðurinn down- = niður væri óþarfur og auðvelt væri að umorða þá hugsun sem felst í nafnorðinu niðurhal. Í stað þess að segja: Auglýsingum beint gegn niðurhali kvikmynda (Mbl. 4.10.04) mætti t.d. segja: Auglýsingum beint gegn því að kvikmyndir séu teknar af Netinu.

Sögninni að þýða e-ð af/úr einu máli á annað samsvarar enska translate from one language into another, danska oversætte fra et sprog til et andet og þýska etwas aus/von einer Sprache in eine andere übersetzen.

Sögnin að þýða merkir ‘merkja, útskýra, útlista’ og er hún dregin af stofninum þjóð og merkir því ‘skýra e-ð fyrir fólki/þjóð.’

Það vekur strax athygli að ensku from, dönsku fra og þýsku aus/von samsvarar íslenska af/úr en alls ekki frá. Enn fremur tölum við Íslendingar um að þýða eitthvað á annað mál, helst ekki yfir á annað mál þótt slíkt sjáist stundum, en enskumælandi menn nota fs. into, Danir til og Þjóðverjar in.

Ætla má að flestir Íslendingar séu sammála um þá málbeitingu sem lýst var hér að ofan en hún samræmist ekki eftirfarandi dæmi: ?Ræðuritarinn sé auðvitað ekki að þýða úr einu tungumáli, t.d. spænsku, í [þ.e. á] annað (Mbl. 4.10.04).

En hvernig skyldi standa á því að Íslendingar þýða ýmist af ensku eða úr ensku? Er annað rétt en hitt rangt? - Ástæðan er sú að líta má á íslensku frá tveimur sjónarhornum ef svo má að orði komast, annars vegar getur verið um að ræða málkerfið sem slíkt og hins vegar talið eða málbeitinguna.

Við getum t.d. sagt að í íslensku séu fjögur föll og eigum þá við málkerfið. Hins vegar getum við spurt: Hvernig er þetta sagt á íslensku og þá vísum við til málbeitingar. Andstæða forsetningarinnar í er úr með sama hætti og andhverfa forsetningarinnar á er af. Það er í raun merkingarmunur á því hvort við þýðum eitthvað úr íslensku eða af henni.

Rökrétt virðist að það sem skrifað er á íslensku sé þýtt af íslensku. Hér skiptir þó mestu að málnotendur koma sér saman um tiltekna málnotkun. Í því tilviki sem hér um ræðir virðist umsjónarmanni nokkuð á reiki hvort er þýtt af íslensku eða úr en hvort tveggja hlýtur að teljast rétt. Slík fjölbreytni er reyndar að mati umsjónarmanns eitt af mörgu sem prýðir íslenska tungu.

Orð geta verið vandmeðfarin. Þannig er bein merking orðsins vitlaus ‘galinn, vitskertur; heimskur’ en í ýmsum samböndum getur það vísað til þess sem er rangt eða ranglega gert, t.d. orti Steinn Steinarr:

Að sigra heiminn er eins og að spila á spil
með spekingslegum svip og taka í nefið.
...
Og þótt þú tapir, það gerir ekkert til,
því það er nefnilega vitlaust gefið.

Nýlega las umsjónarmaður í blaði að Bush hefði sagt að Kerry væri vitlaus maður fyrir vitlaust starf á vitlausum tíma og var þar vísað til ummæla sem Kerry lét falla um innrásina í Írak sem hann kallaði vitlaust stríð á vitlausum stað á vitlausum tíma (Fréttabl 29.10.04). Hér virðist augljóst að enska wrong er þýtt með lo. vitlaus. Umsjónarmaður hefur efasemdir um ágæti þessarar þýðingar, einkum orðasambandið vitlaus maður, en það kann þó að fara eftir afstöðu þess sem þýðir hvort wrong er þýtt með vitlaus eða rangur.

Úr handraðanum

Orðasambandið greiða e-ð af hendi er algengt í fornu máli í beinni merkingu ‘greiða fé, reiða fram fé’, t.d.: gjaldi aftur alla þá leigu er þeir höfðu áður af hendi greitt.

Notkunin hefur haldist óbreytt fram á okkar daga, t.d. skrifar Jónas Hallgrímsson: þetta útsvar er oft og tíðum svo þungt að eigi bændurnir að greiða það af hendi með fúsu geði, þá má ekki minna vera en ...

Þegar eitthvað hefur verið greitt af hendi er það í óbeinni merkingu afgreitt, þ.e. því er lokið, og flestir munu kannast við sögnina afgreiða einhvern í merkingunni ‘sigra e-n, ganga frá e-m.’ Umsjónarmaður hélt satt best að segja til skamms tíma að sú merking væri ung, fengin úr talmáli, en svo er þó ekki. Hún er einnig kunn í fornu máli (frá 14. öld): skipta síðan herfangi er hann [foringi hers árásarmanna] væri af greiddur.

Umsjónarmanni finnst þetta dæmi fallegt og lærdómsríkt. Það sýnir óbeina merkingu en jafnframt er ljóst að það getur verið tilviljun háð hvaða dæmi af þessum toga rata á bókfell eða í bækur. Einstök dæmi eru því einungis vísbending um kerfið, hversu mörg sem þau eru geta þau aldrei gefið tæmandi lýsingu á þeim fjölbreytileika sem felst í íslensku máli.

Morgunblaðið, 11. desember 2004