Textaleit í útdráttum
Leita í textum Íslenska málfrćđifélagsins    Leita í öllu efni á Kvisti


Pistlar um íslenskt mál:   7. júní 2003

Jón G. Friđjónsson

Íslenskt mál - 3. ţáttur

Íslenskt mál - 3. þáttur

Forsetningar í íslensku eru að ýmsu leyti vandmeðfarnar enda er rétt notkun forsetninga trúlega það atriði sem veldur útlendingum sem læra íslensku einna mestum örðugleikum. En það eru ekki einungis útlendingar sem lenda í hremmingum að þessu leyti, rétt notkun forsetninga getur einnig vafist fyrir Íslendingum.

Ég þykist reyndar hafa séð þess ýmis merki að nokkurrar óvissu gæti í nútímamáli um notkun forsetninga. Nú er það auðvitað svo að notkun forsetninga hefur breyst töluvert í aldanna rás en hér verður ekki um það rætt.

Mig langar hins vegar að víkja að tilteknum breytingum sem varða kerfið sem að baki liggur, breytingum sem rekja má til erlendra áhrifa. Áður en komið verður að slíkum atriðum er nauðsynlegt að minnast örstutt á tiltekna þætti í forsetningakerfi íslensku.

Forsetningar eru m.a. notaðar til að finna hlutum, verknaði eða hugsun stað í umhverfi sínu. Því má segja að hugtökin staður (í tíma og rúmi), hreyfing og stefna gegni mikilvægu hlutverki í kerfinu. Þannig förum við á fund, erum á fundi og komum af fundi eða við förum í leikhús, erum í leikhúsi eða komum úr leikhúsi.

Hins vegar förum við til Akureyrar eða komum frá Akureyri og bréf er frá manni eða eftir atvikum til manns.

Þannig hafa myndast samstæðurnar á (þf.) - á (þgf.) - af (þgf.); í (þf.) - í (þgf.) - úr (þgf.) og til (ef.) - frá (þgf.).

Notkun fer í stórum dráttum eftir því orði sem forsetningarnar eru notaðar með og er hún (eða hefur verið) reglubundin í íslensku. Í öðrum tungumálum eru notaðar hliðstæður sem samsvara íslensku að merkingu en ekki búningi, t.d. e. from-to og d. fra-til. Í talmáli og einnig í fjölmiðlum gætir nokkuð erlendra áhrifa á notkun forsetninga, einkum virðist mér forsetningin frá sækja á á kostnað forsetningarinnar fyrir. Sem dæmi um þetta má nefna:  

 • ?leysa e-n frá kvöð [undan] [release from]
 • ?smitast frá e-m [af] [infected from (person); by disease]
 • ?fjölbreytt efni frá [úr] öllum heimshornum
 • ?flytja gereyðingarvopn frá landinu(Afganistan)
 • ?efni/upplýsingar frá vefnum [af/(úr)]
 • ?fréttir frá öllum heimshornum
 • ?kaupa e-ð frá e-m [af]
 • ?dæmi frá öllum greinum þjóðlífs [úr] [from all sectors]
 • ?fyrirtæki frá [úr] fjármálageiranum
 • ?sleppa óskaddaður frá [úr] árekstri [e. from]
 • ?koma í veg fyrir að um 1800 tonn af saltpéturssýru lækju út í Rínarfljót frá [úr] hollenska skipinu.

Dæmi þessi eru öll raunveruleg í þeim skilningi að þau eru fengin úr fjölmiðlum (blöðum, útvarpi, sjónvarpi). Nú kann sumum að þykja þessi dæmi fullboðleg en ég leyfi mér að merkja þau með ? og innan hornklofa hef ég tilgreint þær forsetningar sem ég kysi að nota.

Mér finnst ástæða til að vekja athygli á þessari þróun því að segja má að hún læðist að okkur, slík dæmi bera það ekki alltaf með sér að um erlend áhrif er að ræða. Enn fremur er hér um að ræða kerfisbreytingu fremur en einstakar eða einangraðar breytingar enda þurfa þeir sem áhuga hafa á ekki að lesa lengi, orðasambönd af þessum toga blasa daglega við í fjölmiðlum.

Nokkurs annars eðlis eru hins vegar orð og orðasambönd sem eiga sér beinar erlendar fyrirmyndir, t.d.: ?vernda e-n/e-ð gegn vatni/tölvuþrjótum [< e. against]; ?halda e-u gegn e-m [< e. hold against] og ?halda frá e-m upplýsingum [< e. keep from]. Dæmi af þessum toga eru að mínu viti orðfræðileg en hin málfræðileg (setningafræðileg).

Úr handraðanum

Ýmis orð og orðasambönd í íslensku sækja þá líkingu sem að baki liggur til daglegra starfa og í sumum tilvikum má ætla að þau beri ekki með sér uppruna sinn. Af þessum toga er orðasambandið vilja ekki/ekkert hafa/eiga saman við e-n að sælda.

Sögnin að sælda = sálda merkir ‘sigta í sáldi’ og er hún kunn í beinni merkingu elsta máli, t.d. sælda mjöl og sælda silfur, en einnig í óbeinni merkingu ‘hrista’: sælda e-n eða hrista sem hveiti.

Elstu dæmi um orðatiltækið eru frá 17. öld: eiga e-ð saman við e-n að sælda og má hugsa sé merkingarþróunina með eftirfarandi hætti: sælda saman ‘sigta saman’ > ‘vinna saman’ > ‘hafa samvinnu við’ > ‘hafa afskipti af’, þar sem sögnin eiga merkir ‘þurfa’. Bein merking orðasambandsins er því ‘vilja ekki þurfa að vinna með e-m við sáld’ en óbein, og sú eina sem kunn er í nútímamáli er ‘vilja ekki (þurfa að) hafa afskipti af e-m.’

Elstu dæmi um afbrigðið með hafa er frá 18. öld: þér hafið ekki haft neitt óhreint við hann saman að sælda. Í nútímamáli virðast afbrigðin með eiga og hafa notuð nokkuð jöfnum höndum, oftast með sögninni vilja.

Til gamans skal þess getið að einnig er kunnugt afbrigði hafa e-ð saman við e-n að saldra (18. öld).

Morgunblaðið, 7. júní 2003