Textaleit í útdráttum
Leita í textum Íslenska málfrćđifélagsins    Leita í öllu efni á Kvisti


Pistlar um íslenskt mál:   10. febrúar 2007

Jón G. Friđjónsson

Íslenskt mál - 96. ţáttur

Fallstjórn

Fjölmörg sagnorð í íslensku geta ýmist tekið með sér þolfall eða þágufall í ólíkri merkingu, t.d. ausa bátinn en ausa vatninu; sópa gólfið en sópa ruslinu; ryðja götuna en ryðja e-u burt; hella e-n/sig fullan en hella víninu og moka tröppurnar en moka snjónum. Í fyrra tilvikinu vísar þolfallið til kyrrstöðu (það sem sópað er hreyfist ekki) en þágufallið vísar oftast til ‘hreyfingar’. Merkingarmunur er jafnan skýr og málkennd bregst sjaldan en lengi er von á einum eins og sagt er: NN vinnur á vörubíl, nokkurs konar saltbíl, sem saltar götuna og ryður snjóinn [þ.e. snjónum] (22.11.06).

Óskýrt orðalag

Eiður Guðnason sendir eftirfarandi dæmi og segist hafa hrist hausinn að lestri loknum: Veðurstofu Íslands hafa borist fyrirspurnir varðandi (‘um’) meinta jarðskjálfta með stærðir yfir 4 (‘fjórum’) á Richter kvarða og staðsetningu á Vesturöræfum ... Veðurstofan segir að til að taka af allan misskilning þá séu þetta ekki raunverulegir skjálftar, heldur orsakir bilunar á einni jarðskjálftastöð (14.12.06). Umsjónarmaður tekur undir með Eiði að dæmið sé óskýrt og illa orðað. Venjulega er talað um upptök jarðskjálfta en ekki staðsetningu þeirra og þeir eru af tilteknum styrkleika en ekki ‘með stærðir’. Þá er venja að komast svo að orði að koma í veg fyrir misskilning og taka af allan vafa en í tilvitnuðu dæmi virðist þessu hafa slegið saman.  

Aðsent bréf

Halldór Þorsteinsson skrifar: ,,Það kemur því miður æði oft fyrir að menn rati ekki á rétt fall nafnorða þegar þeir tala opinberlega ... Þetta henti nýlega .... [mann] nokkurn ... er haft var við hann viðtal ... Þar var honum tíðrætt um fjáröflun til styrktar Háskóla Íslands ... og þá varð honum á að segja afla fé í stað þess að segja afla fjár, ekki einu sinni heldur þrisvar sinnum. En hann er áreiðanlega ekki einn um það að hafa farið flatt á þessu eins og gamalt og gott dæmi úr þættinum Daglegt mál í RÚV sýnir en honum stjórnaði Guðni Kolbeinsson á sínum tíma. Þar greindi hann m.a. frá því að fjármálaráðherra .... hefði sagt í miðri ræðu afla fés í stað afla fjár og í beinu framhaldi af því velti hann því fyrir sér hvort ráðherrann vildi ef til vill láta kalla sig fésmálaráðherra. Sýnir þetta ekki okkur og sannar að eignarfallið af geti reynst mörgum fjárans erfitt.’’

Umsjónarmaður þakkar Halldóri skemmtilegt bréf.

Vegna, vegna, vegna ...

Umsjónarmaður hefur nokkrum sinnum vikið að því á þessum vettvangi að honum finnst forsetningin vegna ofnotuð í nútímamáli. Hann hefur reynt að halda til haga dæmum af þessum toga og skulu nokkur þeirra tilgreind (innan hornklofa eru sýndar þær fs. sem vænta mætti): í mótmælaskyni vegna [við e-ð] þriggja leikja bannsins sem hann þarf að afplána (21.8.06); Saddam Hussein bíður enn dóms vegna [fyrir brot sín, sakir e-s] ásakana um að hafa borið ábyrgð á (13.9.06); Samkomulagið náði þó ekki til kostnaðar vegna [við e-ð] hjúkrunarheimila (12.10.06); þegar hafið undirbúning vegna [fyrir e-ð] hvalveiða (14.9.06); Hafin er vinna vegna [við e-ð] jarðganga (14.9.06); Hún á auðvitað að uppskera vegna [í samræmi við e-ð] þess [reynslu og þekkingar] (4.11.06); gagnrýna e-n vegna e-s [fyrir e-ð] (26.11.06); Biskup Íslands segir vegið að æru sinni vegna [með e-u] ásakana um meint afskipti af ráðningu tengdasonar síns (17.12.06); Útgjöld vegna [á fjárlögum] fjárlaga hækka (23.11.06); Óttast að fólk um allt land muni ekki kjósa D vegna [af e-u] ótta um að uppbótaratkvæði gætu ratað í Suðurkjördæmi (29.11.06); hljóta dóm vegna [fyrir e-ð] fíkniefnamála (20.11.06); Litvinenkó kynni að hafa veikst vegna [af e-u] blöndu af þallíni og öðru eiturefni (22.11.06) og Frank D. Wuterich ... er í hópi hermanna sem voru ákærðir vegna [fyrir e-ð] árásarinnar (22.12.06).

Í sumum ofangreindra dæma og öðrum áþekkum kann að vera um álitamál að ræða, um það dæmi hver fyrir sig. Enginn vafi getur hins vegar leikið á því að notkun fs. vegna hefur aukist mjög á kostnað annarra forsetninga.

Hafa skal það er sannara reynist

Í síðasta pistli var fjallað um ópersónulegar orðskipanir og tilgreind dæmi þar sem umsjónarmaður taldi að vikið væri frá málvenju. Eitt dæmanna var: Er Afríka að blása upp? Ragnar Böðvarsson, Selfossi, skrifar þættinum og segir að foreldrar sínir og aðrir fulltíða menn hefðu sagt: Haginn er að blása upp.Hann tilgreinir enn fremur önnur traust dæmi um slíka notkun, t.d. Eftir að Þjórsárdalur blés upp og Þegar heiðin blés upp. Umsjónarmaður kannaði þetta nánar og þá kom í ljós að hvort tveggja styðst við málvenju. Í elstu hliðstæðum sem umsjónarmanni eru tiltækar er notuð ópersónuleg orðskipun og um hana eru traustar heimildir fram til nútímamáls. Frá 18. öld eru hins vegar öruggar heimildir um persónulega notkun og miðað við dæmi í seðlasafni Orðabókar Háskólans virðist hún algengari en ópersónuleg notkun.

Umsjónarmaður þakkar Ragnari kærlega fyrir réttmæta ábendingu. Niðurstaðan er þessi: Sumir segja Dysina blés upp en aðrir Dysin blés upp og því er ekkert athugavert við dæmið ErAfríka að blása upp?

Úr handraðanum

Nafnorðið áfellisdómur merkir ‘dómur um sekt sakbornings’ og orðasambandið áfellisdómur yfir e-m/e-u er talsvert mikið notað í nútímamáli, t.d.: kveða upp áfellisdóm (yfir e-m/e-u); dómur Hæstaréttar er áfellisdómur yfir réttarfarinu í héraði; Er hún [skýrslan] sögð mikill áfellisdómur yfir ríkisstjórn GWB og raunar öllum sem við sögu koma (16.2.06) og áfellisdómur yfir ítalskri knattspyrnu (15.7.06). Úr Jónsbók (lögbók Íslendinga frá 1281) er eftirfarandi dæmi: Friðsemi á að varðveita þar til er réttur dómur fellur á, að eigi verði með bræði ákafur áfellisdómur á lagður. Þessi viska virðist enn eiga fullt erindi til okkar. Í nútímamáli vísar áfellisdómur oft til þess sem veldur hnekki eða hneykslanlegt má þykja. Vera má að sú merking kalli á afbrigðið áfallsdómur.