Textaleit í útdráttum
Leita í textum Íslenska málfrćđifélagsins    Leita í öllu efni á Kvisti


Pistlar um íslenskt mál:   27. janúar 2007

Jón G. Friđjónsson

Íslenskt mál - 95. ţáttur

Nafnorðið hregg, hk., merkir ‘stormur með úrfelli, óveður, él’. Orðasambandið súpa hregg er notað um hesta og merkir ‘draga snöggt að sér andann (svo að snörlar í nösum)’, t.d.: Við riðum þéttinginn svo reiðskjótarnir voru orðnir ólmhuga, fnösuðu og supu hregg þegar heim kom. Orðsambandið mun ekki vera algengt í nútímamáli en nýlega rakst umsjónarmaður þó á eftirfarandi dæmi: en Sæunn, sem Össur lýsir sem langhæfasta þingmanni Framsóknar, súpi hregg varaþingmennskunnar því ekki hætti Jónína í pólitík (20.12.06). – Nú kann að vera að unnt sé að nota orðasambandið súpa hregg með vísun til manna, t.d. mætti hugsa sér að langhlaupari sypi hregg að loknu hlaupi. Umsjónarmaður hefur þó efasemdir um að varaþingmaður geti sopið hregg eftir setu utan þings.

Ópersónulegar sagnir

Flestir munu þekkja muninn á persónulegum og ópersónulegum sögnum. Sagt er að sagnorð sé notað persónulega ef það stendur með frumlagi (fallorði í nefnifalli) og þá sambeygist það jafnan frumlaginu í persónu og tölu, t.d. Ég bar pokann og Við bárum pokann. Sagnorð er hins vegar notað ópersónulega ef það stendur með fallorði í aukafalli (í stöðu frumlags) og þá sambeygist það ekki, heldur stendur það ávallt í 3.p.et., t.d. Mig bar þar að; Okkur bar þar að; Mér ber að segja satt og Þeim ber að segja satt. Eins og sjá má er skýr formlegur eða setningafræðilegur munur á persónulegum og ópersónulegum sögnum en merkingarfræðilegur munur á þeim er þó enn mikilvægari. Í dæmunum Ég bar pokann og Við bárum pokann vísa frumlögin (ég, við) jafnframt til geranda, þess sem framkvæmir verknaðinn sem í sögninni felst. Með ópersónulegum sögnum stendur hins vegar aldrei gerandi.

Alloft ber við að ópersónulegar sagnir séu ekki notaðar í samræmi við málvenju og er það reyndar ekkert nýtt, elstu dæmi af þeim toga er að finna í fornu máli. Slík dæmi stinga í stúf en rétt er að leggja áherslu á að í langflestum tilvikum eru Íslendingar sammála um noitkun ópersónulegra sagna. Því má segja að málnotkun og málvenja vísi veginn með ótvíræðum hætti.

Umsjónarmaður hefur haldið til haga dæmum þar sem vikið er frá málvenju og skulu nokkur þeirra tilgreind [innan hornklofa er skotið inn myndum sem samræmast málvenju]: í viðtalinu bar krónan [krónuna] og stöðu hennar gagnvart evrunni á góma (2.1.07); talið er að hvalurinn [hvalinn] hafi rekið á land fyrir nokkrum dögum (29.12.06); Gagnrýnt hefur verið að jarðfræðirannsóknir [jarðfræðirannsóknum] hafi verið ábótavant (23.8.06); það er nánast sama hvar Íslendinga ber [Íslendingar bera] niður, alls staðar gengur þeim vel (4.9.06)

Er Afríka [Afríku] að blása upp? (vegna loftslagsbreytinga) (30.10.06); Ef við höldum að þær (gömlu ræðurnar) séu enn í fullu gildi þá erum við eins og nátttröll sem hafa [hefur] dagað uppi í breyttum heimi (11.11.06); rannsakar nú hvernig það kom til að upplýsingar [upplýsingum] úr afritum af bréfum .... var lekið í Blaðið (30.12.06); Öllum mönnum [Alla menn] mun hrylla við þá tilhugsun [þeirri tilhugsun] að konan þeirra fari til Myke Tyson [Tysons] (18.11.06) og Hálka [hálku] er víða að finna á vegum landsins (10.12.06). Síðasta dæmið er reyndar sérstakt að því leyti að óvenjulegt er að tala um að hálku sé að finna e-s staðar.

Orðasambandið halda utan um e-ð merkir í nútímamáli ‘gæta e-s; hafa umsjón með e-u’, t.d.: Ríkið hætti að halda utan um málið síðasta vor (16.9.06) og halda utan um frístundaaðstöðuna (16.9.06). Þetta mun vera nýmæli og er vísunin augljós. Umsjónarmanni finnst hins vegar hæpið að nota orðasambandið í óbeinni merkingu um menn. Eftirfarandi dæmi er því allsérstakt: Gerðar eru meiri kröfur um sérhæfingu en hefur verið og meiri þverfaglega vinnu teymisvinnu þannig að betur er haldið utan um konuna alveg frá því að hún greinist [með brjóstakrabbamein] eftir skimun (4.1.07). Reyndar er þessi setning öll mjög amböguleg.

Úr handraðanum

Eiður Guðnason bendir réttilega á að orðasambandið enginn afgangur er af e-u sé merkingarlega skylt orðasambandinu ekki leifir af e-u, t.d. enginn afgangur var af því að ég kæmist inn í húsið ‘það leifði ekki af því’. Þetta leiðir hugann að því að merking eða efni virðist jafnan mikilvægara en búningur og þess eru mörg dæmi að sama eða svipuð merking birtist í margvíslegum myndum, t.d. e-ð er út í hött, e-ð er út í bláinn og e-ð er út í loftið

Orðasambandið e-m veitir (ekki) af (e-u) er að merkingu til svipað orðasambandinu e-ð leifir/gengur ekki af (e-u). Grunnmerking þess er (1) ‘e-m verður enginn afgangur af e-u’ en óbein merking er margþætt, t.d.(2) ‘þurfa tiltekinn tíma til að gera e-ð/ljúka e-u’, t.d.: honum veitir ekki af tveimur vikum til að undirbúa sig fyrir prófið. Í nútímamáli mun algengst að nota það í merkingunni (3) ‘hafa fulla þörf fyrir; þurfa’, t.d.: Honum veitti ekki af að hvíla sig/raka sig/þvo sér í framan ...og stráknum veitti ekki af rækilegri ráðningu ‘... þyrfti að fá’. Í síðari alda máli er orðasam­band­­­ið ýmist notað eitt sér (ekki veitir af) eða með persónu (e-m veitir ekki af (e-u)). Í ævisögu Jóns Steingrímssonar er að finna skemmtilegt dæmi: honum [klerki] veitti ei af um árið (‘á ári hverju’) þremur brenni­vínstunnum ‘hann komst ekki af með minna’.