Textaleit í útdráttum
Leita í textum Íslenska málfrćđifélagsins    Leita í öllu efni á Kvisti


Pistlar um íslenskt mál:   13. janúar 2007

Jón G. Friđjónsson

Íslenskt mál - 94. ţáttur

Orðatiltækið vera eins og úlfur í/undir sauðargæru á rætur sínar í Biblíunni en þar (Matt 7, 15) segir: Varist falsspámenn. Þeir koma til yðar í sauðaklæðum, en innra eru þeir gráðugir vargar. Ragnar Arnalds leggur út af þessu ef svo má að orði komast en hann skrifar: [kennarar] telja sig hafna yfir gagnrýni og virðast ímynda sér að þeim leyfist óáreittir [óáreittum] að halda uppi villandi málflutningi sem stjórnmálamenn í fræðimannsklæðum (1.12.06). Hér er eftirminnilega að orði komst.

*

Í orðasambandinu á bak við e-ð hefur stofnorðið bak misst eigin merkingu og fengið það sem kalla má hlutverksmerkingu. Þetta má m.a. sjá af því að fs. á er oft felld brott og þá stendur einungis bak við e-ð eftir. Breytingin er frá 16. öld. Liðinn (á) bak við e-ð má nota í ýmsum samböndum, t.d. fara á bak við e-n (með e-ð), standa á bak við e-ð (samsæri) og skýla sér á bak við e-ð og er merkingin jafnan skýr.

Liðurinn að baki (e-u) hefur allt aðra merkingu, hann getur m.a. vísað til þess sem er liðið, t.d. erfiðleikarnir eru að baki, eða þess sem liggur að baki (manni), t.d. brenna/brjóta allar brýr að baki sér (‘koma sér í þá stöðu með framferði sínu að ekki verður aftur snúið’).

Liðirnir á bak við e-ð og að baki (e-u) eru ólíkrar merkingar og þeim má ekki rugla saman eins og gert er í eftirfarandi dæmum: Knattspyrnustjóri með góðan feril á bak við sig [þ.e. að baki] (14.12.06); segir Jón ... standa að baki [þ.e. á bak við] uppsögn hennar (2.12.06) og Þegar ég fór að kynna mér efnið að baki myndanna [þ.e. á bak við myndirnar] komst ég að því (24.12.06).

Í huga umsjónarmanns er skýr munur á forsetningunum á bak við og fyrir aftan, t.d. fela sig á bak við runna og standa fyrir aftan bílinn. Í samræmi við það finnst honum eðlilegt að tala um bílastæði á bak við Háskólann en ankannalegt að segja bílastæði fyrir aftan Háskólann. Ekki er víst að allir séu þessu sammála um þetta.

*

Eiður Guðnason fylgist grannt með notkun íslensku í fjölmiðlum og sendir umsjónarmanni ambögulista, skýringar og athugsasemdir. Nokkur dæma Eiðs eru eftirfarandi:

Með hliðsjón af verðbólgu og leiðréttingu sem gerð var á launum ASÍ, leikskólakennara, þroskaþjálfa, bankamanna og æðstu ráðamanna þjóðarinnar þykir okkur full ástæða til að laun okkar [kennara] verði leiðrétt í samræmi við aðra (15.11.06), þ.e. ‘til samræmis við aðra’.

Hún segist þekkja dæmi þess að stúlkur vakni upp minnislausar og timbraðar eftir gleðskap án þess að rekja minni til þess að hafa neytt vímuefna í óhófi (16.11.06), þ.e. ‘án þess að þær (þf.) reki minni til’ eða ‘Hún sagði sig ekki reka minni til’.

Stjórn VLFA óttast um öryggi þeirra sem búa í iðnaðarhúsnæðum (21.11.06), þ.e. ‘búa í iðnaðarhúsnæði’.

Tveir voru stöðvaðir í umferðinni í gær og á þeim fundust smáræði af fíkniefnum (24.11.06), þ.e. ‘á þeim fannst smáræði’.

[á fundi] í janúar verði tekin bein afstaða til einkaframkvæmdar. Þar verður væntanlega gefið upp með þann möguleika að við förum í farveg einkaframkvæmdar (4.12.06). Eiði finnst óþaft að nota lo. beinn með no. afstaða og orðsambandið gefa upp með telur hann bull.

Eiður sendir einnig fjölmörg dæmi úr smáauglýsingum í Fréttablaðinu (30.11.06). Hér skulu þrjú tilgreind með skýringum innan hornklofa:

Vaknar úthvíld/(ur) og tekur [þ.e. tekst] brosandi á við daginn; Tilboðið gildir á [þ.e. á við um] öllum nýjum bílum og Fáðu fæturnar mjúkar [fæturna mjúka] og fínar [fína] með

Umsjónarmaður þakkar Eiði Guðnasyni kærlega fyrir ágætar ábendingar. 

*

Orðasambandið gera grein fyrir e-u er algengt í íslensku.Í þolmynd sambeygist lýsingarhátturinn þolfallinu grein, þ.e. gerð var grein fyrir e-u. Það er hins vegar furðu algengt að þessa sé ekki gætt í nútímamáli heldur notuð hvorugkynsmyndin gert, t.d.: Hann vildi ekki tjá sig um hvort ásakanir á hendur NN sem gert var grein fyrir í fréttaskýringaþættinum ... hafi haft skaðleg áhrif á vistmenn (30.12.06). Þessi málnotkun samræmist hvorki reglum málsins né styðst hún við hefð.

Úr handraðanum

Frá árinu 1990 hefur þátturinn Kryddsíld verið sýndur á gamlársdag á Stöð tvö. Eins og flestir munu vita er formönnum stjórnmálaflokka boðið í þennan þátt og fréttamenn spyrja þá spjörunum úr um landsins gagn og nauðsynjar. En hvernig skyldi standa á því að þátturinn er nefndur Kryddsíld? Það á sér eftirfarandi sögu.

Á fyrsta forsetaári sínu var Vigdísi Finnbogadóttur boðið til Danmerkur. Í tilefni heimsóknarinnar boðaði Margrét Þórhildur, Danadrottning, til blaðamannafundar þar sem þjóðhöfðingjarnir voru spurðir ýmissa spurninga, þeir lentu í ‘krydsild’ danskra blaðamanna eins og sagt er á dönsku. Frá þessu var sagt í íslensku dagblaði og jafnframt greint frá því að boðið hefði verið upp á kryddsíld á blaðamannafundinum, þ.e. upp kom það sem kalla má þýðingarvillu, danska kryds-ild varð krydd-síld. Þessi spaugilegi misskilningur mun hafa höfðað svo mjög til skopskyns manna á Stöð tvö að ákveðið var að þátturinn á gamlársdag skyldi heita Kryddsíld og jafnframt skyldi kryddsíld vera á borðum. Nú eru liðin 17 ár frá því Kryddsíld Stöðvar tvö hóf göngu sína og því kann að hafa fyrnst yfir uppruna heitisins. Því er þessi saga rifjuð upp hér.