Textaleit í útdráttum
Leita í textum Íslenska málfrćđifélagsins    Leita í öllu efni á Kvisti


Pistlar um íslenskt mál:   16. desember 2006

Jón G. Friđjónsson

Íslenskt mál - 92. ţáttur

Svandís Svavarsdóttir fer vel með íslenskt mál, minnir reyndar um margt á gamlan skólabróður umsjónarmanns, mælskumanninn Svavar Gestsson sendiherra. Orðasambandið stíga ölduna í merkingunni ‘aðlaga sig aðstæðum’ er ekki að finna í orðabókum en nokkur dæmi um það má finna á vefnum. Svandís notað það á skemmtilegan hátt: [NN] gerði lítið úr vandamálum loftslagsbreytinga og umhverfis í byrjun árs 2005 en talar nú fyrir grænþvotti markaðshyggjunnar, allt til að stíga ölduna og fanga umræðuna (5.11.06). Umsjónarmanni finnst hér er vel að orði komist og er vísunin augljós.

Orðatiltækið fara bónleiður til búðar ‘fara erindisleysu, hafa ekki erindi sem erfiði’ á rætur í Njáls sögu og vísar til þess er Njálssynir hugðust afla sér fylgis á Alþingi. Þegar Þorkell hákur hafði synjað þeim um liðsinni sneru þeir til búðar sinnar, bónleiðir að mati Skarphéðins. Orðatiltækið er algengt í nútímamáli en eitthvað hefur það bjagast í eftirfarandi dæmi: Jón Gerald fór bónleiður til búða íslenskra fjölmiðla með harm sinn ‘fór erindisleysu (til íslenskra fjölmiðla)’ (11.9.06).

Orðatiltækið liggja óbættur hjá garði ‘engar bætur koma fyrir e-n; enginn heldur upp vörnum fyrir e-n’ er einnig að finna í Njáls sögu (og reyndar víðar). Í nútímamáli mun afbrigðið með falla vera algengast, t.d.: riddari svarts fellur óbættur hjá garði. Í eftirfarandi dæmi virðst mega sjá móta fyrir orðatiltækinu en notkun og merking (‘verða afskiptur’) samræmist ekki málvenju: Það verður líka að einfalda allt bótakerfið í landinu því að sumir falla bara hjá garði (14.9.06).

Beyging sagnorða

Þess gætir nokkuð í nútímamáli að beyging sagnorða er ekki í samræmi við málvenju. Að vísu er það svo að ýmis frávik og óregla í sagnbeygingu eru ekki ný af nálinni, t.d. dugar í stað dugir og trónar í stað trónir. Þau nýmæli sem nú eru farin að skjóta upp kollinum eru annars eðlis. Skal nú vikið að nokkrum dæmum af þessum toga.

Sögnin treina, treindi, treint, (þgf)-þf., merkir ‘fara sparlega með e-ð svo að það endist sem lengst’, t.d.: Þeir treindu sér matinn. Eftirfarandi dæmi mun ekki eiga sér neina hliðstæðu: Þau treinuðu nestið og áttu nokkuð eftir í gærkvöldi (6.11.06).

Sögnin hefta, hefti, heft, þf., getur m.a. merkt ‘hindra’. Dæmi um veiku myndina heftaði rak á fjörur umsjónarmanns nýlega: tveir vökulir vegfarendur eltu hann uppi og heftuðu för hans þar til lögreglan kom á staðinn (22.8.06). Sögnin hefta er einnig notuð í merkingunni og ‘festa e-ð saman með þræði eða heftivír’ og í þeirri merkingu mun myndunum heftaði og heftað bregða fyrir í talmáli, t.d.: blöðin voru heftuð saman. Um slíka notkun er þó ekki að finna nein dæmi í orðabókum né í ritmálssafni Orðabókar Háskólans.

Sögnin hygla, hyglaði, hyglað, þgf. merkir ‘annast vel, gefa e-m e-ð (í aukagetu)’, t.d. hygla e-m í e-u ‘hlynna sérstaklega að e-m’. Umsjónarmaður kannast ekki við nútíðarmyndina hyglir: Skattfrelsið hyglir hinum ríku (11.11.06).

Sagnirnar mælast, mæltist, mælst (‘tala, mæla’) og mælast, mældist, mælst (‘vera mælt’) eru ólíkar að merkingu og beygingu og þeim má ekki rugla saman: Þótti þetta vel til takast og mældist sérlega vel fyrir (5.9.06). — Ætli þetta sé ekki prentvilla?

Og loks eru það dæmin makalaus: við bara sitjum hérna og þögum [þegjum] (19.9.06) og reyna að þaga [þegja] málið í hel. Þessar ambögur eru að vísu skiljanlegar en ekki eru þær betri fyrir því. Hinn nýi nafnháttur þaga er myndaður með hliðsjón af veikri mynd lh.þt. þagað.

Úr handraðanum

Í ýmsum föstum orðasamböndum stendur atviksorð aftast og eru það leifar fornrar orðaraðar, t.d.: brjóta e-n/e-ð á bak aftur; e-ð keyr­ir úr hófi (fram) (‘e-s gætir um of’); sjómenn á hafi úti; e-ð kemur í einn/sama stað niður; rasa fyrir ráð fram (‘flýta sér meira en skynsemi býður’); leika af fingrum fram (‘án undirbúnings’); lifa um efni fram; mæla af ­munni fram (‘án undirbúnings’); vera kom­inn af ­fótum fram (‘vera farlama, mjög gamlaður’) o.s.frv. Orðasambandið deyja fyrir aldur fram (‘of snemma, fyrr en vænta mátti’) er af sama toga en í nútímamáli gætir þess nokkuð að það sé notað í myndinni um aldur fram, t.d. deyja langt um aldur fram (12.11.06). Hér gætir ugglaust áhrifa frá merkingu orðasambandsins um of, sbr. e-ð er (einum) um of. Sömu tilhneigingar gætir reyndar einnig í orðasambandinu rasa fyrir ráð fram en af því er einnig kunnugt afbrigðið rasa um ráð fram. Hvorug myndanna deyja um aldur framrasa um ráð fram styðst við uppruna.

­­Til fróðleiks má geta þess að elsta dæmi um orðasambandið um of er frá 16. öld: *Um of var syndin sterk. Atviksorðið of stendur hér sem nafnorð í svipaðri merkingu og ‘megn, afl’. Í Íslensku hómilíubókinni (frá 12. öld) segir t.d.: Nú ef þér er þetta of (‘um’) afl að trúa sögu minni einni saman. Í fornu máli er einnig kunnugt afbrigðið við of.