Textaleit í útdráttum
Leita í textum Íslenska málfrćđifélagsins    Leita í öllu efni á Kvisti


Pistlar um íslenskt mál:   2. desember 2006

Jón G. Friđjónsson

Íslenskt mál - 91. ţáttur

Fleirtöluorð

Sum nafnorð í íslensku eru einungis til í fleirtölu, t.d. buxur, dyr og tónleikar. Með þeim eru notuð sérstök töluorð, t.d.: einar buxur, tvennar dyr og þrennir tónleikar. Í nútímamáli ber stundum við að þessa sé ekki gætt, t.d.: Þó gerðum við tvö [þ.e. tvenn] mistök og þeir [Lettar] nýta sér það til fullnustu [þ.e. fulls] (8.10.06); Sótt var að ríkisstjórn Blair á þremur [þrennum] vígstöðvum (28.4.06) og þarna eru tveir [tvenns konar, tvennar] öfgar. Annars vegar Ísland þar sem má bókstaflega allt. Það má selja allar jarðir, búta þær upp [þ.e. niður] og gera hvað sem er á sama tíma og í Noregi ... (19.10.06). — Af síðasta dæminu má sjá að fleirtöluorðið öfgar (öfgarnar þær) er túlkað sem kk.flt. (þ.e. einn öfgi, tveir öfgar, líkt og einn penni, tveir pennar). Í ritmálsskrá Orðabókar Háskólans er að vísu að finna tvö dæmi af þessum toga frá fyrri hluta 20. aldar en ljóst er að kk.-myndirnar hafa ekki náð að festa rætur.

Annað dæmi varðar notkun nafnorðsins pynting(-ar, -ar), kvk. Það er jafnan notað í fleirtölu, t.d.: sæta pyntingum, verða fyrir pyntingum og þola pyntingar. Notkun miðstigsins fleiri samræmist ekki verknaðarmerkingu (‘það að pynta’) orðsins pyntinga. Því er einkennilegt að skrifa: Pyntingar [í Írak] fleiri en áður (22.9.06). Eðlilegra væri að orða þetta t.d. svo: Pyntingar [í Írak] eru orðnar algengari en áður eða Meira er um pyntingar [í Írak] en áður.

Nafnorðahröngl

Á þessum vettvangi hefur áður verið vikið að því að sagnarsambandið koma að e-u ‘eiga aðild að e-u, tengjast e-u’ og afleidda nafnorðið aðkoma ‘aðild’ virðast njóta mikillar hylli um þessar mundir. Lausleg leit í heimildum virðist sýna að sagnarsambandið hafi fram til þessa aðeins verið notað í beinni merkingu (koma að húsinu, koma að landi) og sama er að segja um nafnorðið (aðkoman var hræðileg/ljót; aðkomumaður). Óbein merking (koma að málinu, koma að skipulagningu e-s) felur því í sér nýmæli. Vitaskuld er ekkert rangt við það enda er það myndað í samræmi við reglur málsins. Umsjónarmanni finnst þó gæta ofnotkunar, sbr. eftirfarandi dæmi: við höfum enga aðkomu að þessum málum [styrjöldinni í Írak] í dag (13.10.06); við höfum enga aðkomu að málinu í rauninni (20.7.06) og á einhverjum tímapunkti þurfi ríkið að kanna aðkomu sína varðandi samgöngur (15.6.06).

Önnur dæmi um ofnotkun nafnorða (nafnorðahröngl): eiga aðild að ákvaðanatöku (14.10.05); koma að ákvarðanatöku (14.10.05); meðalhóf við töku stjórnvaldsákvörðunar (9.12.05); reglur um beitingu sérstakra rannsóknarúrræða (30.6.06); lagaskyldur um birtingarfrumkvæði (29.8.06) og útvega börnum meðferðarúrræði (8.9.06). — Ekki má gleyma garminum honum Katli, tískuorðunum auðgunarásetningur (13.8.05); meðferðarúrræði (8.9.06); þóknanatekjur [banka] (29.7.05); inngrip (6.8.05) og kostnaðarþátttaka [sjúklinga] (19.9.05).

*

 

Sögnin slá e-n/e-ð af merkir ‘drepa e-n/e-ð’ og andlagið (fórnarlambið) stendur ávallt í þolfalli. Eftirfarandi dæmi samræmist ekki málvenju: formaður nefndarinnar, segir að ekki sé verið að slá framkvæmdum af, þeim sé frestað (6.7.06).

Ef umsjónarmann misminnir ekki hafa hnefaleikar verið leyfðir hér á landi. Þar er markmiðið að slá andstæðinginn niður en hæpið er að yfirfæra þennan verknað á huglæga hluti eins og verðbólgu: sýni raunveruleg viðbrögð við efnahagsástandinu og að við sláum verðbólguna niður (15.6.06). Vel má hins vegar hugsa sér að unnt sé að slá á verðbólguna með svipuðum hætti og lyf getur slegið á sótthita. 

*

Það þótti íþrótt og þykir kannski enn að vekja upp draug og margir óttast verðbólgudrauginn, vilja hvorki raska ró hans né vekja hann upp. Notkun atviksorðsins upp er hér eðlileg og helguð málvenju, draugar rísa upp úr gröf sinni. Í ýmsum öðrum orðasamböndum er því hins vegar ofaukið, t.d. getur e-ð vakið efasemdir eða athygli. Umsjónarmanni virðist myndin skýr og fullkomlega gagnsæ en eitthvað virðist farið að fenna yfir hana, sbr.: sú þróun vekur upp margar spurningar um matarvenjur landsmanna (16.8.06); Viðtalið vakti upp fleiri spurningar en það svaraði (27.8.06) og Mikill kostnaður við prófkjörin getur einnig vakið upp spurningar af þessu tagi (23.9.06).

*

Orðasambandið vera upp á sitt besta merkir ‘vera á besta aldri; vera á hátindi ferils síns’ vísar til ástands sem afleiðingar þess að hafa náð ákveðnum áfanga, þ.e.a.s. er menn eru komnir upp á sitt besta aldursskeið, t.d.: NN var liðtækur íþróttamaður þegar hann var upp á sitt besta og NN tefldi mjög vel þegar hann var upp á sitt besta. Umsjónarmaður þekkir engin dæmi þess að það geti vísað til annars en manns og því virðast honum eftirfarandi dæmi hæpin: Lánamöguleikar eru takmarkaðir því þegar þeir voru upp á sitt besta var hægt að fá 70% lán (27.8.06); tímasetningin er ekki alveg upp á það besta (18.9.06) og völlurinn var ekki upp á sitt besta og í raun eins og malbik (8.10.06).

Orð eru dýr

Lýsingarorðið dýr er margbrotið að merkingu og orðasambandið dýr orð er einnig margþætt og merking þess flókin. Í kvæði sínu Davíð konungur segir Einar Benediktsson: Orð eru dýr, þessi andans fræ, / útsáin, dreifð fyrir himinblæ. Umsjónarmaður eftirlætur lesendum að ráða hér í merkinguna. Í Brekkukotsannál segir: Í Brekkukoti voru orðin of dýr til þess að nota þau og í Guðbrandsbiblíu stendur: Hyggnir menn vega sín orð með gullvikt. Þessi dæmi og fjölmörg önnur sýna að Íslendingum hefur ávallt verið annt um móðurmálið og í gömlum texta segir að menn eigi að leggja alla stund á sitt mál að hreinsa.

Þótt Íslendingar hafi löngum borið gæfu til að vera samstíga og einhuga í afstöðu sinni til íslensku er auðvelt að finna ágalla í nánast hvaða verki sem er. Því er hins vegar ekki að neita að misfellurnar virðast vera fleiri í nútímamáli en á öðrum tíma í sögu íslensku. Þetta má e.t.v. rekja til hraða nútímans en jafnframt ber að hafa í huga að nú tjá sig fleiri í rituðu máli en nokkurn tíma áður.