Textaleit í útdráttum
Leita í textum Íslenska málfrćđifélagsins    Leita í öllu efni á Kvisti


Pistlar um íslenskt mál:   18. nóvember 2006

Jón G. Friđjónsson

Íslenskt mál - 90. ţáttur

Í Opinberun Jóhannesar og víðar í Biblíunni er sagt frá því er englar helltu reiði Guðs úr skálum yfir jörðina. Til þessa vísar orðatiltækið hella úr skálum reiði sinnar (yfir e-n) og af sama meiði eru fjölmörg orðasambönd, t.d. hella/(ausa) sér yfir e-n, fá gusuna/dembuna og ausa yfir e-n skömmunum. Í öllum tilvikum er vísað til þess er menn fá skammir, lesið er yfir þeim. Ætla má að sú merking eða túlkun sé hluti af málkennd Íslendinga. Umsjónarmaður misskildi eftirfarandi dæmi við fyrsta lestur: fyrst og fremst hellti ég mér yfir skjalasöfn og las á annað þúsund bréf (14.10.06). Hér virðist merkingin vera ‘sökkva sér niður í; kanna vandlega’ en ekki ‘gagnrýna, skamma’ en þessi nýmerking styðst hvorki við uppruna né málvenju.

Orðatiltækið vera heill á húfi vísar trúlega til þess er sjómenn bjargast úr sjávarháska, þ.e. húfur merkir hér skip. Enda vísar það í nútímamerkingu sinni ‘vera óskaddaður’ ávallt til undangenginna erfiðleika, sbr. afbrigðin bjargast/komast undan heill á húfi. Umsjónarmanni þykir því einkennilegt að segja og skrifa: [kyn barns skiptir ekki máli] mikilvægara [finnst mér] að barnið fæðist heilt á húfi og með hjartað á réttum stað (12.9.06).

Orðatiltækið böndin berast að e-m‘grunur beinist að e-m’ vísar til þess er e-r fellir á sig grun sem leiðir til handtöku. Umsjónarmaður kannast ekki við merkinguna‘áhugi beinist að e-u’. Eftirfarandi dæmi samræmist því ekki málvenju: það er ekki fyrr en búið er að sökkva Jöklu undir Hálslón að böndin berast að jökulánum í Skagafirði (7.10.06).

Málshættir

Í formála fyrir verkinu Íslenzkri málshættir segir Bjarni Vilhjálmsson: ,,Að minni hyggju eru málshættir stuttar og gagnorðar málsgreinar, mjög oft ein setning hver, sem menn bregða fyrir sig í daglegu tali eða rituðu máli, gjarnan sem skírskotun til almennt viðurkenndra sanninda um ýmis fyrirbæri mannlegs lífs. Þeim má líkja við gangsilfur, sem enginn veit hver hefur mótað. ... Málsháttur helzt meira og minna í föstum skorðum.‘‘ Þetta er býsna góð skilgreining að mati umsjónarmanns.

Bjarni leggur áherslu á að málshættir séu fastmótaðir og á það jafnt við um merkingu sem búning en út af því getur þó brugðið. Málshátturinn Frekur er hver til fjörsins ‘sérhver kýs að lifa’ er algengur í fornu máli og síðari alda máli. Fjör merkir hér ‘líf’ og vísar merkingin til þess að menn láti allt fyrri (‘áður en; fremur’) en líf sitt. Þessi gamla speki virðist fara fyrir ofan garð og neðan í eftirfarandi dæmi: Hann stofnaði fyrirtæki ... en knattspyrnan er frek til fjörsins (‘kröfuhörð; tekur mikinn tíma’) (17.9.06).

Flestir munu þekkja málsháttinn Heggur sá er hlífa skyldi en elsta mynd hans (frá 17. öld) er reyndar Oft höggur sá eð hlífa skyldi. Hér hefur því orðið breyting á búningi en hún er óveruleg og andstæðan höggva–hlífa helst. Nýlega rakst umsjónarmaður á nýtt afbrigði sem hann hefur miklar efasemdir um: Heggur sá er síst skyldi (14.10.06).

Ensk áhrif

Í síðasta þætti var vikið að nokkrum dæmum um ensk áhrif á íslensku. Í þeim efnum er af nógu að taka og skal því nokkrum dæmum bætt við: almenningur þurfi að þekkja breiðar línur þess fyrirkomulags (5.9.06) [e. broad outlines]; Eg kaupi heldur ekki þau rök að það verði betri fótbolti í efstu deild [e. buy sth.] (4.10.06); Fyrir þann pening fæst meira þar eystra en [e. money] (4.1.06); en raunveruleikaþættir eru ekki minn tebolli (15.9.06) [e. not my cup of tea]; Hin undirliggjandi sannfæring okkar er sú að ... [e. underlying; d. underliggende] (16.9.06); Sagði K. ... óviljugan að deila upplýsingum (27.10.06) [e. unwilling; not willing] og Að auki búa þau [samræmd próf] til tapara þar sem allir eiga að koma út sem sigurvegarar (17.10.06) [e. loser]. Í þeim dæmum sem tilgreind hafa verið er búningurinn að vísu íslenskur en uppruninn leynir sér ekki. Í öllum tilvikum virðist auðvelt að finna alíslensk orð eða orðasambönd í sömu merkingu og erlenda góssið.

Úr handraðanum

Nafnorðið bankabygg, -s, hk.et., er oft notað með sögnunum vita eða detta í hug og vísar þá til þess er menn þykjast vissir í sinni sök, þ.e.: datt mér ekki bankabygg í hug? ‘átti ég ekki á von’?; Átti ég ekki og vissi ég ekki bankabygg? og Grunaði mig ekki: Bankabygg. — Ekki liggur í augum uppi hvers konar yfirfærsla liggur hér að baki en naumast getur það verið korntegundin bankabygg < d. bankebyg (nema bankabygg merki ‘bankafæða; fé, peningar’ (??)).

Dæmi úr fórum Orðabókar Háskólans kunna að varpa ljósi á upprunann auk þess sem þau benda til að ræturnar séu austfirskar. Fyrra dæmið er úr Árbók Landsbókasafnsins: Og datt mér ekki bankabygg í hug, eins og sagt var fyrir austan í gamla daga. Síðara dæmið er úr Austra frá árinu 1887: dýrmæti banki, helga þú oss í þínu bankabyggi, þitt orð er bankabygg! Hér virðist bankabygg vera einhvers konar gamanyrði fyrir nafnorðið bankabygging.