Textaleit í útdráttum
Leita í textum Íslenska málfrćđifélagsins    Leita í öllu efni á Kvisti


Pistlar um íslenskt mál:   28. júní 2003

Jón G. Friđjónsson

Íslenskt mál - 5. ţáttur

Íslenskt mál - 5. þáttur

Flestir munu kannast við orðasambandið það blæs ekki byrlega fyrir/hjá e-m í merkingunni ‘það gengur/horfir ekki vel fyrir/hjá e-m’.

Orðasambönd af þessari gerð eru fjölmörg í íslensku, t.d.:

 • e-ð/allt er komið í óefni fyrir e-m
 • það var ekki ein báran stök (fyrir e-m)
 • það er farið að syrta í álinn fyrir e-m
 • e-ð bætir ekki úr skák (fyrir e-m)
 • e-ð/allt fer í hrærigraut fyrir e-m
 • það hleypur á snærið (fyrir/hjá e-m)
 • nú er fokið í flest skjól (fyrir e-m)
 • vel/illa stendur á fyrir/hjá e-m


Orðasambönd þessi vísa jafnan til óþágu eða óþæginda sem e-r stendur frammi fyrir og er forsetningarliðurinn fyrir einhverjum upprunalegur, vísar reyndar upphaflega til staðar.

Ég hef veitt því athygli að í nútímamáli verður vart tvenns konar breytinga á samböndum af þessum toga.

Annars vegar er algengt að nota forsetninguna hjá í stað fyrir, t.d.: Hvernig stendur á hjá þér í kvöld? Breyting þessi er ekki ný af nálinni og hún er skiljanleg, staðarforsetningin hjá leysir staðarforsetninguna fyrir af hólmi auk þess sem fs. hjá er mjög oft notuð um menn (persónur). Ég hef vanist því að nota fremur fyrir en hjá í dæmum af þessari gerð en geri ráð fyrir að margir kjósi ekki síður að nota hjá. Hins vegar gætir þess talsvert í talmáli og einnig fjölmiðlum að segja fyrir e-n í stað fyrir e-m, t.d.:

 • ?nú er farið að syrta í álinn fyrir hana
 • ?það blæs ekki byrlega fyrir Valsara
 • ?fjárskortur gæti sett strik í reikninginn fyrir Rússa
 • ?enn er ekki öll von úti fyrir flóttamennina


Ég leyfi mér að merkja ofangreind dæmi með spurningarmerki enda hygg ég að þau styðjist ekki við hefð né heldur að þau samræmist íslensku málkerfi. Öll þau dæmi sem ég á í fórum mínum af þessari gerð eru úr nútímamáli, fengin úr talmiðlum og dagblöðum. Ég þekki að vísu eina hliðstæðu þar sem breytingin er um garð gengin:

 • +bera í bætifláka fyrir e-m > bera í bætifláka fyrir e-n (19. öld)


en það dæmi er ekki sambærilegt, þótt það verði ekki rökstutt hér. Niðurstaðan er því að breytingin samræmist ekki málvenju. Eins og áður gat vísar fsl. fyrir e-m (upprunalega kyrrstaða) í dæmum af þessum toga til óþágu, þess sem er neikvætt, en fsl. fyrir e-n (upprunalega hreyfing) vísar í mörgum samböndum til þágu, þess sem er jákvætt, t.d.:

 • búa í haginn fyrir sig
 • e-ð er gott/hollt fyrir e-n
 • ganga í ábyrgð fyrir e-n
 • gera e-ð fyrir e-n
 • staðan í leiknum er 1-0 fyrir Valsara


Ég hef talað hér um þágu og óþágu en aðalatriðið er að forsetningarliðirnir fyrir e-m (kyrrstaða) og fyrir e-n (hreyfing) gegna mismunandi hlutverki. Ég geri ráð fyrir að það sem einkum truflar mig í dæmum eins og ?e-ð setur strik í reikninginn fyrir einhvern sé einmitt sú staðreynd að fsl. fyrir e-n er hér ekki í réttu hlutverki.

Til gamans skal þess getið að til eru dæmi um hið gagnstæða, þágufallið sækir á þol-fallið. Eftir því sem ég best veit munu flestir segja: eitra fyrir refinn/varginn, enda er eitur lagt fyrir þessi dýr. Hins vegar munu margir kjósa að segja: eitra fyrir einhverjum. Hér hefur því orðið breyting og skýringin blasir við, það er hin neikvæða merking sem togar í, sbr. einnig spilla, skemma, eyðileggja e-ð fyrir e-m.

Úr handraðanum

Bein merking orðasambandsins ekki veitir af (e-u) er ‘ekkert gengur af (e-u), ekki leifir af (e-u); enginn afgangur verður’ og er hana að finna í fornu máli:

 • þar sem þér mun ekki af veita áður en skammt líði héðan
 • Svo sýnist mér Guðmundur sem þú hafir þurft báðar hendur við Þorkel frænda minn og hafi þó ekki af veitt um.


 • Fyrra dæmið er kunnugt með öðru orðalagi þar sem merkingin kemur glöggt fram: þar sem þér mun ekki af ganga áður skammt líði héðan ‘þér verður enginn afgangur af liði/afli þínu’ > ‘þú munt þurfa á öllu þínu að halda.’

  Í síðari alda máli er orðasambandið ýmist notað eitt sér eða sem hluti forsetningar-liðar, t.d.:

  • sængin (‘rúmið’) er svo þröng að þar veitir ekki af
  • honum veitti ei af um árið (‘á ári hverju’) þremur brennivínstunnum (‘komst ekki af með minna’)
  • Honum veitir ekki af hjálp þinni (‘hann þarf á (allri þinni) hjálp að halda’)
  • henni veitti ekki af að hvíla sig (‘þyrfti að hvíla sig’)
  • Ég ætla að hjálpa honum, ekki veitir af
  • segir hún að sér muni ekki af veita að fara út í kirkju, ef hún eigi að líta eftir peningunum

  Eldri merkingin mun naumast notuð í nútímamáli en hún er kunn frá lokum 19. aldar: það veitti ekki af að mér væri svo (‘hræddur’) (‘litlu munaði, ekki var laust við’).

  Morgunblaðið, 28. júní 2003