Textaleit í útdráttum
Leita í textum Íslenska málfrćđifélagsins    Leita í öllu efni á Kvisti


Pistlar um íslenskt mál:   4. nóvember 2006

Jón G. Friđjónsson

Íslenskt mál - 89. ţáttur

Málvöndun í Þýskalandi

Í fertugasta tölublaði þýska tímaritsins Spiegel (2.10.2006) er fjallað rækilega um málrækt og stöðu þýskrar tungu. Á forsíðu stendur Bjargið þýskri tungu (Rettet dem Deutsch (í stað ... das Deutsch)) og á bls. 182-190 í sama riti er að finna þrjár greinar. Í fyrsta lagi er þar greinin Deutsch for sale en þar er því haldið fram að þýsku stafi ógn af enskum tökuorðum (Englische Importwörter) og því sem e.t.v. mætti kalla ‘fagrar merkingarleysur’ (flotte Gedankenlosigkeiten). Í öðru lagi er fjallað um málræktarmanninn Bastian Sick en hann er kunnur og mikils metinn fyrir umfjöllun sína um þýsku, m.a. í þáttum á netinu (Spiegel Online). Þriðja greinin er viðtal við forseta þýska sambandsþingsins, Norbert Lammert, þar sem m.a. er rætt um stöðu þýsku í Evrópu nútímans.

Umsjónarmanni þykir nokkrum tíðindum sæta að í stórblaði á borð við Spiegel skuli fjallað með rækilegum hætti um það sem kalla má neikvæða fylgifiska alþjóðavæðingarinnar. Þetta þarf þó ekki að koma á óvart því að auðvitað er Þjóðverjum annt um þýsku eins og Íslendingum um íslensku. Í tímaritinu eru reyndar birtar niðurstöður úr skoðanakönnun um afstöðu Þjóðverja til móðurmáls síns. Ein spurninganna var eftirfarandi: ‘Hve mikilvægt er að geta tjáð sig vel og með réttum hætti í mæltu máli og rituðu?’ 98% svöruðu spurningunni með ‘afar mikilvægt/mikilvægt’ en 2% svöruðu ‘ekki mikilvægt/alls ekki mikilvægt’. Ætla má að afstaða Íslendinga til íslensku sé svipuð.

En það er ekki aðeins enska sem er talin hafa óæskileg áhrif á þýska tungu heldur einnig ýmislegt annað sem er orðið snar þáttur í lífi margra, einkum barna og unglinga, t.d. tölvupóstur í símskeytastíl og sms-skeyti. Í tímaritinu er vitnað til nýlegs rits þar sem komist er svo að orði ‘að hætta sé á að málhæfni falli niður á stig sms-skeyta’ (drohen sprachliche Fähigkeiten auf SMS-Niveau abzusinken).

Umsjónarmaður hefur að vísu afar takmarkaða reynslu af notkun sms-skeyta en þykist þó vita að orðfæri og málbeiting sé með afar sérstökum hætti á þessu sviði. Það virðist enn fremur blasa við að sá miðill sem börn og unglingar nota einna mest, tölvupóstur og sms-skeyti, hljóti að hafa áhrif á málfar og málkennd. Þetta hlýtur að eiga jafnt við um íslensku sem þýsku og því þarf að leiðbeina um framsetningu á þessum vettvangi sem öðrum.

Orðfræði

Það er alkunna að miklu máli skiptir að nota orð með réttum hætti, í samræmi við málvenju. Sem dæmi má taka að sumir ákvæðisliðir ganga ágætlega með ákveðnum orðum en aðrir eiga ekki við. Vitaskuld er unnt að setja fram reglur um atriði sem þessi en í flestum tilvikum dugir málkenndin ágætlega. Ætla má að flestir geti verið sammála um að eftirfarandi dæmi samræmist ekki málvenju: Ég vona að þeir geri það [hefni sín], hann [þjófurinn] á það innilega (‘sannarlega’) skilið (30.8.06); Þar hrasaði Friðrik á eigin klofbragði (‘féll á sjálfs sín bragði’) (22.8.06); bjarga lífi og limum fiskanna (1.9.06); draga úr biðlistunum (‘stytta þá’) (13.9.06); því safnast biðlistarnir upp (‘lengjast’) (13.9.06); vörubíll með tengivagn valt og dreifði gleri þvert yfir götuna (‘gler dreifðist’) (23.9.06) og sem leikstjórnandi á miðjunni getur hann dreift boltanum í allar áttir (16.9.06).

Svipaðs eðlis en þó af öðrum toga eru dæmi þar sem ruglað er saman orðasamböndum, t.d.:

Nú halda tvær fylkingar þjóðarinnar fast við sinn keip (24.9.06) [sbr. halda fast við e-ð og sitja (fast) við sinn keip]; Nú er honum farið að finnast nóg til komið (29.8.06) [sbr. e-m finnst nóg komið (af svo góðu) og e-m finnst mikið til e-s koma]; fylgistap flokksins er að finna í óvinsælli utanríksstefnu Blairs [þ.e. má rekja til] (8.9.06) og Við hlupum af öllum toga [þ.e. eins og fætur toga] heim til mín (27.6.06).

Nýmæli

Flestir munu kannast við orðatiltækið frá/(af) sjónarhóli e-s (séð) ‘að skoðun e-s’. Það er tiltölulega ungt í íslensku og er vísunin augljós. Umsjónarmaður rakst nýlega á skemmtilegt afbrigði af því: Frá kögunarhóli kjósenda er auk heldur eðilegt að óskir komi fram um (Frbl. 23.9.06). Nafnorðið kögun er leitt af sögninni kaga ‘skyggnast um, horfa yfir’ og því merkir kögunarhóll ‘útsýnishæð, sjónarhóll’, sbr. sérnafnið Kögunarhóll (við Ingólfsfjall).

Sögnin leka er oftast notuð sem áhrifslaus sögn (bensíntankurinn lekur) en hana má einnig nota sem áhrifssögn, t.d. leka e-u í e-n. Sögnin sytra ‘renna (hægt), seytla, vætla’ er jafnan áhrifslaus. Umsjónarmaður þekkir engin dæmi þess að hún taki með sér lið í þágufalli. En lengi er von á einum: Heilindin eru engin lengur, stjórnarflokkarnir sytra á báða bóga trúnaðarmálum sem eru á vinnslustigi (27.9.06). Hér er vel að orði komist og dæmið er í fullu samræmi við íslenska málfræði.

Úr handraðanum

Í sögu Davíðs Stefánssonar, Sólon Islandus, kemur fram að Sölvi Helgason var stórlega ýkinn. Þar segir m.a. frá því að þóttist hafa keppt við ítalskan reiknimeistara. Ítalinn reiknaði barn í konu en Sölvi reiknaði það úr henni eða eins og segir í sögunni: þá tókst þeim ítalska að reikna barn í eina danska. Ég var viðbúinn og reiknaði það strax úr henni og Og loks tókst mér að reikna tvíbura í eina afríkanska, og var annað barnið hvítt en hitt svart. Til þessa vísar orðatiltækið reikna barn í konu ‘ýkja stórlega; gera hið ómögulega’ og af sama meiði er trúlega reikna kálf í kú (4.9.06).