Textaleit í útdráttum
Leita í textum Íslenska málfrćđifélagsins    Leita í öllu efni á Kvisti


Pistlar um íslenskt mál:   21. október 2006

Jón G. Friđjónsson

Íslenskt mál - 88. ţáttur

Orðfræði

Orðatiltækið tala fyrir daufum eyrum ‘hljóta ekki hljómgrunn, verða ekki ágengt í málflutningi’ mun eiga rætur sínar í Biblíunni og af sama meiði er orðasambandið daufheyrast við e-u. Hér merkir daufur ‘heyrnarlaus’ og er vísunin augljós en hún fer veg allrar veraldar í eftirfarandi dæmi: þeir [sem hafa bent á vandann] tala fyrir dauðum eyrum (23.8.06).  

Orðatiltækið dansa (í) kringum gullkálfinn ‘sækjast eftir auði eða peningum (og meta þá ofar öðru)’ er einnig fengið úr Biblíunni. Gullkálfurinn vísar til (kyrrstæðs) líkneskis úr gulli. Í ensku og þýsku er talað um að tilbiðja gullkálfinn (e. worship; þ. anbeten) en umsjónarmaður þekki engin dæmi þess að menn hlaupi á eftir kálfi þessum: það koma skeið [í Íslandssögunni] þegar allir hlaupa á eftir gullkálfinum (2.9.06). Hér er trúlega um klaufaskap að ræða.  

Þriðja Biblíuorðatiltækið sem hér skal minnst á er það er ljón/eru mörg ljón á veginum ‘e-ð/margt verður til hindrunar eða veldur örðugleikum’. Það á rætur sínar í orðskviðum Salómons og í elstu dæmum er ávallt notuð fs. á. Í nútímamáli bregður afbrigðinu ljón í veginum stundum fyrir en þar gætir trúlega danskra áhrifa (i vejen): Stærsta ljónið í veginum fyrir breyttum aðferðum í meðhöndlun geðsjúkra hefur verið ... (25.8.06). Umsjónarmanni virðist málshátturinn Sjaldan fer betur þá breytt er eiga vel við um þetta nýnæli.  

Ensk áhrif

Í þáttum þessum hefur nokkrum sinnum verið vikið að enskum áhrifum. Þau eru með ýmsum hætti, ýmist öllum sýnileg (meika það, seifa e-ð, seif o.s.frv.) eða dulin í þeim skilningi að búningurinn er íslenskur en hugsunin erlend. Dæmi um hið síðarnefnda blasa við á síum dagblaða, t.d.: Hann [ráðherra] getur í raun handvalið þá sem hann semur við (4.9.06) [e. handpicked]; Heitasta umræðan hefur verið um þátt Sven Nylanders (18.8.06); það er grundvallaratriði fyrir stjórnmálamann að setja liðna hluti á bak við sig (4.2.06) [e. put sth. behind oneself]; það [fíkniefnavandamál] var nánast komið inn í bakgarð hins almenna borgara (9.7.06) [e. backjard]; lofandi sókn hjá Japönum (22.6.06) [e. promising]; Þetta er haugalygi en ég er viss um að hann vill fá athyglina [e. get the attention] (21.8.06); Þetta eru ekki stórir peningar (18.2.06) [e. big money] og Við höfum sett ágreining okkar vegna innrásarinnar til hliðar (18.3.06) [e. put aside]. Umsjónarmaður telur orðfæri sem þetta ekki til fyrirmyndar en í raun eru það málnotendur sem munu ákveða hvað af slíku góssi verður sett á. Tíminn sker úr um það hvað reynist lífvænlegt.  

Þeir sem kjósa að nota þýdd orðasambönd verða að mati umsjónarmanns að nota þýðingar sem samræmast íslensku málkerfi. Enska orðatiltækið see light at the end of the tunnel vísar trúlega til járnbrautarlestar sem nálgast enda jarðganga, yfirfærð merking er ‘vonarglæta’. Þessu hefur verið snarað á íslensku: sjá ljós við enda ganganna (16.6.06) en ætti vitaskuld að vera fyrir enda ganganna enda er erfitt að hugsa sér ljós við e-ð nema í merkingunni ‘ljósker, hlutur sem lýsir’ (ljós við dyrnar). 

Forsetningar

Forsetningarliðurinn fyrir e-n vísar upphaflega til hreyfingar (leggja á borð fyrir e-n) en óbein merking er margs konar, m.a. vildarmerking (‘í þágu e-s; e-m í hag’) og þess vegna segjum við: e-ð er gott/hollt fyrir e-n; vinna fyrir e-n og staðan í leiknum er 2-0 fyrir Dani en alls ekki: Í hálfleik var staðan 2-0 fyrir Dönum (6.9.06). Fsl. fyrir e-m vísar upphaflega til staðar (falla á kné fyrir Guði) en óbein merking er margþætt, vísar m.a. til óþágu. Þess vegna segjum við: Íslendingar töpuðu 2-0 fyrir Dönum eða Íslendingar fóru flatt/biðu lægri hlut/urðu að láta í minni pokann/fóru halloka fyrir Dönum (eftir því hvers eðlis tapið var).

Atviksorð

Munurinn á atviksorðunum niður (hreyfing) og niðri (kyrrstaða) er í flestum tilvikum skýr en í nútímamáli virðist þó gæta nokkurrar óvissu um notkun þeirra í tilteknum orðasamböndum. Hér skal minnst á þrjú dæmi af þeim toga. 

Orðasambandið ná sér niðri á e-m merkir ‘ná fram hefndum, hefna sín’, t.d.: Okkur tókst að ná okkur niðri á þeim og Þetta var einmitt maðurinn, ... sem hann ætlaði nú loksins að ná sér niðri á og gat nú loksins náð sér niðri á. Bein merking orðasambandsins ná sér niðri er ‘kenna botns’ en merkingarþróunina má hugsa sér svo: ‘til botns’ > ‘til fulls’ > ‘hefna sín (til fulls)’. Myndina ná sér niðri á e-m má styðja með traustum notkunardæmum en myndin ná sér niður á e-m á sér enga stoð í málinu. Umsjónarmaður hefur þó rekist á allmörg dæmi um hana, t.d.: Súlnabergur vill finna lögfræðing eða handrukkara til að ná sér niður á Litla og Stóra (26.9.05) og Náðu sér niður á Wade [körfuknattleiksmanni] (24.3.06).

Orðasambandið e-ð kemur niður á e-m merkir ‘e-ð bitnar á e-m’, t.d.: Syndir feðranna koma niður á börnunum; sparnaðurinn kemur niður á skólastafinu og láta hefndina koma niður á e-m. Upphaflega vísar orðasambandið trúlega til þess að refsing guðs (hefnd) kemur e-m í koll. Eftirfarandi dæmi styðst ekki við málvenju: Neikvæð gengisþróun kemur mjög fljótt niðri á spítalanum (1.9.06).

Orðasambandið þagga niður í e-m merkir ‘fá e-n eða þvinga e-n til að þegja’, t.d.: Stjórnvöld reyndu allt sem þau gátu til að þagga niður í gagnrýnendum en án árangurs. Það vísar til hreyfingar, sbr. dregið er niður í lampa, sbr. einnig afbrigðið þagga e-n niður. Í talmáli ber við að notuð sé myndin þagga niðri í e-m og gætir þar trúlega áhrifa frá forsetningarliðnum í e-m, þ.e. mönnum virðist líkingin vísa til kyrrstöðu. Þessi breyting styðst hvorki við uppruna né málvenju. — Áhugasamir lesendur munu sjá í hverju breytingin er fólgin. Í hefðbundinni mynd á niður samstöðu með þagga, þ.e. þagga niður + í e-m, en í nýmælinu stendur niðri með fs. í, þ.e. þagga + niðri í e-m. Nýmælið stríðir vitaskuld gegn málkennd og málvenju og samræmist ekki merkingarreglum.

Úr handraðanum

Forsetningin getur m.a. vísað til staðar (hvar) en forsetningin af vísar oftast til hreyfingar (hvaðan). Í nútímamáli gætir þess nokkuð að ekki sé ávallt skýr munur á þessum forsetningum (gaman er að e-uhafa gaman af e-u) en það er reyndar ekki nýtt að málskilningur og málbeiting breytist. Sem dæmi má nefna að í fornu máli var ávallt sagt kaupa e-ð að e-m (‘hjá’) en í nútímamáli segjum við kaupa e-ð af e-m (hvaðan). Í Eyrbyggja sögu og víðar er að finna málsháttinn Fangs er von að frekum úlfi (‘vænta má harðra átaka við þann sem er frekur’) en í Laxdæla sögu og víðar er myndin önnur: Fangs er von af frekum úlfi  (‘vænta má harðra átaka af þeim sem er frekur’). Það getur verið gaman að velta þeim merkingarmun fyrir sér sem er á myndunum tveimur. 

Í Kjalnesinga sögu er að finna málsháttinn Falls er von að ­fornu tré en í síðari alda máli er myndin Falls er von af fornu tré algeng. Með vísan til málsháttarins Fangs er von að/af frekum úlfi má telja hvort tveggja rétt.