Textaleit í útdráttum
Leita í textum Íslenska málfrćđifélagsins    Leita í öllu efni á Kvisti


Pistlar um íslenskt mál:   7. október 2006

Jón G. Friđjónsson

Íslenskt mál - 87. ţáttur

Beyging nafnorða í íslensku virðist í föstum skorðum en út af því getur þó brugðið. Dæmi um það eru auðfundin í fjölmiðlum.

Nafnorðið hnoða er hvorugkyns (beygist eins og auga, hjarta, eyra o.fl.) en ekki kvenkyns eins og í eftirfarandi dæmi: þetta [2800 stiga markið] er ákveðin leiðarhnoða (12.3.06).

Nafnorðið orðs_tír er í þf./þgf.et. orðstír og ef.et. orðstírs. Síðari liðurinn, tír, merkir ‘heiður’ og hann er óskyldur heitinu Týr (goð) sem beygist Týr, Tý, Tý, Týs. Þessum orðum er þó stundum ruglað saman, t.d.: Tony Blair berst fyrir orðstí innanríkisráðherrans (Frbl. 4.5.06). Algengt er hins vegar að komast svo að orði að menn falli við góðan orðstír eða geti sér góðan orðstír.

Nafnorðið drykkur er karlkyns og beygist svo: drykkur, drykk, drykk, drykkjar; drykkir, drykki, drykkjum, drykkja. Það er algengt í samsetningum, t.d. drykkjarföng, drykkjarhorn, drykkjarvatn og drykklangur (drykklöng stund). Eignarfallsmyndin drykks mun vera kunn í talmáli en hún á ekki heima í vönduðu ritmáli: áhrif drykksins og innihald drykksins (31.5.06).

Nafnorðið beð, hk. ‘reitur í matjurta- eða blómagarði’ beygist svo: beð, beð, beði, beðs; beð, beð, beðum, beða. Eðlilegt væri því að segja: marka fyrir beði; sá fræjum í beðið og í blómabeðunum er arfi. — Nafnorðið beður, kk. ‘rúm’ beygist hins vegar svo: beður, beð, beði, beðjar/beðs; beðir, beði, beðjum, beðja. Við gætum sagt: búa e-m beð; e-r liggur á banabeði/banabeðnum; koma að sjúkrabeði e-s; heimsækja e-n á sjúkrabeð hans; liggja á sjúkrabeði og leggjast á knébeð. Það er því skýr beygingar- og notkunarmunur á nafnorðunum beð, hk. og beður, kk. og þeim má ekki rugla saman: Sharon á dánarbeðinu (Txt 23.7.06). 

Nafnorðið hringur beygist oftast svo í nútímamáli: hringur, hring, hring, hrings; hringir, hringi, hringjum, hringja. Í eldra máli var fleirtalan hins vegar hringar, hringa, hringum, hringa og er hún reyndar einnig kunn í nútímamáli (setja upp hringana). Í ýmsum samsetningum helst eldri beygingin og því segjum við hringamyndun en ekki hringjamyndun.  

Nafnorðið réttur er jafnan notað í eintölu og beygist svo: réttur, rétt, rétti, réttar. Eignarfallsmyndina réttar er einnig að finna í samsetningum, t.d. skilaréttarreglur. Umsjónarmaður kannst hins vegar ekki við ef.-myndina rétts sem hann rakst á nýlega: taka á sig aukakostnað vegna skilarétts (31.5.06). 

Orðfræði

Nafnorðið áhlaupaverk, hk., merkir ‘fljótunnið (auðvelt) verk’ og vísar það ugglaust til verks sem hlaupið verður í. Nýmælið auðhlaupaverk getur ekki talist til fyrirmyndar: það er ekki auðhlaupaverk að komast yfir gatnamótin (24.5.06).

Algengt er að menn dragi sér fé eða komist yfir fjármuni með ýmsum hætti. Þá geta menn tileinkað sér ýmislegt (t.d. vönduð vinnubrögð, nýjustu tækni) og enn fremur geta menn tileinkað vini sínum bók/verk. Það eru þó verulegar hömlur á því sem menn geta tileinkað sér, málkenndin vísar mönnum veginn um það efni. Eftirfarandi dæmi þykir umsjónarmanni ótækt: Hann benti á að það teldist fjárdráttur um leið og viðkomandi hefði með ólögmætum hætti tileinkað sér fjármuni (14.9.05).  

Óveður getur skollið á og ár flætt yfir bakka sína. Bylur getur brostið á en naumast flæðir hann á land: Risafellibylur flæðir nú á land með brimi og sjávarflóði (1.9. 05). 

Um þolmynd

Svo kölluð ópersónuleg þolmynd er mynduð með hjálparsögnunum vera/verða og lýsingarhætti þátíðar af aðalsögn sem stýrir ef. eða þgf., t.d.: Maðurinn fleygði bókunum (gm.) > Bókunum var fleygt (þm.) og Hún vænti einskis (gm.) > Einskis var vænst (þm.). Eins og sjá má helst andlag germyndarsetninganna (bókunum, einskis) óbreytt í þolmyndarsetningunum, sögnin er ávallt í 3.p.et. (var) og lh.þt. er í hk.et. (fleygt). Þessa er ekki gætt í eftirfarandi dæmum (hefðbundin málnotkun er sýnd innan hornklofa): Eftir að reiðuféð [reiðufénu], ásamt pappírsörkum, var komið fyrir [hafði verið komið fyrir] í sérstöku umslagi (30.4.06); fórnarlömb [fórnarlömbum], sem hlutu læknisfræðilega örorku undir 16%, var meinað um bætur (31.1.05) og Ríkjasamband [-sambandi] milli Serbíu og Svartfjallalands verður slitið (23.5.06). 

Úr handraðanum

Spurnarfornafnið hvor vísar til annars af tveimur en hver til fleiri en tveggja. Í samræmi við það er (eða ætti að vera) merkingarmunur á orðasamböndunum öðru hvoru og öðru hverju. Orðasambandið öðru hverju vísar til þess sem gerist aftur og aftur með ákveðnu millibili (endurtekin merking), t.d.: Hann heimsækir mig öðru hverju eða á morgun er búist við rigningu öðru hverju. Öðru hvoru vísar hins vegar til annars tilviks af tveimur, t.d.: Hann kemur öðru hvorum megin við helgina. Umsjónarmaður hefur veitt því athygli að í nútímamáli er algengt að enginn munur sé gerður á öðru hverju og öðru hvoru, t.d.: segir að tilvik sem þessi komi upp öðru hvoru (28.6.06) og Okkur vantar þjónustulundað starfsfólk í vinnu aðra hvora helgi (19.8.06).

Til gamans má geta þess að í orðasambandið öðru hverju er liðfellt, í fornu máli var myndin að öðru hverju ‘við og við’. Í nútímamáli má finna hliðstæðu þessa, við getum sagt hvort sem er: þessu sinni eða að þessu sinni.