Textaleit í útdráttum
Leita í textum Íslenska málfrćđifélagsins    Leita í öllu efni á Kvisti


Pistlar um íslenskt mál:   23. september 2006

Jón G. Friđjónsson

Íslenskt mál - 86. ţáttur

Íslensk tunga er ekki kyrrstæð fremur en aðrar tungur. Orðaforðinn endurnýjast stöðugt m.a. til að unnt sé að tjá sig um nýja hluti og ný viðfangsefni. Dæmin sanna að Íslendingum er sú list í blóð borin að smíða ný orða eða aðlaga erlend orð íslensku málkerfi. Það er því ekkert athugavert við það að upp komi ný orðatiltæki og ný orðasambönd en slík nýmæli verða að samræmast málkerfinu og vera rökleg, þau verða að falla að málkennd manna. Í sumum tilvikum vill verða nokkur misbrestur á þessu. Skal nú vikið að nokkrum slíkum dæmum.

Kunnugt er orðatiltækið blása eldi að e-u ‘koma e-u neikvæðu af stað, magna e-ð’ en það mun vera sjaldgæft í nútímamáli. Sama er að segja um orðatiltækið blása í glæðurnar í svipaðri merkingu. Vera kann að merking þeirra liggi að baki nýju orðatiltæki (blása í seglin) sem umsjónarmaður rakst nýlega á: Í stað þess að skammast sín og biðja þjóðina afsökunar er blásið í seglin og örstutt myndbrot með blótsyrðum sýnt í sjónvarpinu daginn eftir (6.6.06). Vant er að sjá hvernig þetta nýmæli er hugsað.

Í íslensku eru kunn fjölmörg orðatiltæki með stofnorðinu borð ‘samningaborð’, t.d. e-ð stendur út af borðinu ‘e-u er ólokið’; fá e-ð/allt upp á borðið ‘ræða öll atriði, draga ekkert undan’ og sitja báðum megin borðsins ‘vera tvíbentur í afstöðu sinni’. Þá vísar orðasambandið hreint borði til þess þegar e-u hefur verið lokið eða gengið hefur verið frá e-u. Af þeim meiði er trúlega afbrigðið slá e-ð úr af borðinu, t.d.: slá þyrfti frekari virkjunaráform í Þjórsárverum út af borðinu (30.6.06). Hér mætti fremur búast við myndinni sópa e-u út af borðinu, sbr. þ. etw. vom Tisch wischen. Annað nýmæli: Það [fyrirbrigðið pappírslöggur] var hlegið út af borðinu (15.6.06). Tíminn sker úr um hversu lífvænleg slíkar nýjungar munu reynast.

Orðatiltækið vera ómyrkur í máli merkir ‘tala tæpitungulaust; segja hug sinn skýrt og vafningalaust; nota stór orð’. Lo. myrkur vísar til þess sem er óljóst eða hulið og er bein merking því ‘segja e-ð skýrt, berum orðum’. Þess ber að gæta að engar traustar heimildir eru fyrir afbrigðinu vera myrkur í máli. Eftirfarandi dæmi samræmast því ekki málvenju: talsmaður [stjórnvalda] var myrkur í máli [vegna hryðjuverka] (25.4.06) og [borgarfulltrúinn] talaði um vonbrigði og var myrkur í máli yfir skugga sem hann taldi að hefði borið á farsæl samskipti þeirra [NN] (30.5.06).

Um þolmynd

Svo kölluð persónuleg þolmynd er mynduð með hjálparsögnunum vera/verða og lýsingarhætti þátíðar af aðalsögn sem stýrir þolfalli, t.d.: Maðurinn barði strákinn/strákana (germynd) > Strákurinn/strákarnir var barinn/voru barðir (þolmynd). Eins og sjá má breytist þolandi (andlag í þf., strákinn/strákana) germyndarsetningarinnar í frumlag (nf., strákurinn/strákarnir) og lýsingarháttur þátíðar af aðalsögn sambeygist nefnifallslið þolmyndarsetningarinnar í falli, kyni og tölu (var barinn/voru barðir).

Í nútímmáli gætir þess nokkuð að ekki sé gætt samræmis við myndun þf.-þolmyndar, t.d. [innan hornklofa er hefðbundin málnotkun sýnd]: var [voru] viðkomandi fyrirtækjum boðið [boðnir] falsaðir milljón dollara seðlar sem trygging fyrir láninu (15.10.05); Um sjö þúsund tonn af erfðabreyttu sojamjöli var [voru] flutt hingað til lands (29.4.06); þeim hafði verið gert [gerð] grein fyrir því hvað til stæði (21.8.06) og Hluti af núverandi starfsemi Byggðastofnunar yrði þá flutt [fluttur] til atvinnuþróunarfélaga (Mbl. 1.12.05).

Í ensku og ýmsum öðrum málum er algengt að þolmynd sé notuð með forsetningarlið sem táknar geranda (e. by-passive), t.d. The picture was taken by me. Í nútímaíslensku er slík málbeiting fremur óvenjuleg enda hefur fsl. af e-m sérstaka merkingu í íslensku, sbr.: Myndin var tekin af mér (‘frá mér; ég er á myndinni’) og Þessi saga er sögð af henni (‘um hana’). 

Úr handraðanum

Sögnin geta beygist svo: geta-gat-gátum-getað/(getið). Lýsingarháttarmyndin getið er notuð í merkingunni ‘nefna’ og ‘geta barn’ en annars er notuð myndin getað.

Sögnin geta er oft notuð sem hjálparsögn í merkingunni ‘vera fær um e-ð’ og tekur hún þá með sér lh.þt. í hk.et., t.d.: Hann getur ekkert að þessu gert; þú hefðir getað sagt mér þetta fyrr; Mér gat ekki dottið þetta í hug o.s.frv. Þessi notkun á sér hliðstæður í fornu máli.

Sögnin geta tekur einnig oft með sér nafnhátt af sögninni hafa og vísar orðskipanin þá til möguleika, t.d.: hún gæti hafa lesið þetta áður; snjókoman getur ekki hafa verið mikil; Ari leitar að ... því sem síst getur hafa í munni gengist; Hann getur hafa stórskaðað sig o.s.frv. Elstu dæmi um orðskipanina eru frá 18. öld og hefur hún trúlega orðið til fyrir áhrif frá dönsku: kunne have (været). Hún hefur fyrir löngu öðlast fastan sess í íslensku enda er skýr merkingarmunur á orðasamböndum hefði getað og gæti hafa. Orðasambandið hefði getað hafað á sér hins vegar enga stoð í íslensku máli: sagði að Zidane hefði getað hafað brotið bringubeinið á Materazzi (14.8.06).