Textaleit í útdráttum
Leita í textum Íslenska málfrćđifélagsins    Leita í öllu efni á Kvisti


Pistlar um íslenskt mál:   9. september 2006

Jón G. Friđjónsson

Íslenskt mál - 85. ţáttur

Telja má að beyging sagnorða í íslensku sé í föstum skorðum en þess eru þó dæmi að út af því geti brugðið. Sterka sögnin kveða beygist svo: kveða, kvað, kváðum, kveðið og vh.þt. er kvæði. Beyging veiku sagnarinnar kveðja er hins vegar: kveðja, kvaddi, kvatt og vh.þt. er kveddi.  Þessum sögum má ekki rugla saman eins og gert er í eftirfarandi dæmum: Ég hefði talið eðlilegt að borgin ákveddi [þ.e. ákvæði]  (19.2.06) og Vart líður sú vika að málsmetandi menn og konur kveði [þ.e. kveðji] sér ekki hljóðs á þessum síðum (23.3.06). 

Í íslensku er að finna fjölmörg orðasambönd sem notuð eru til að heilsa eða kveðja, t.d.: Heil(l) og sæl(l), Sæl(l) (vertu), (komdu/vertu) blessaður, blessuð o.s.frv. Í nútímamáli hafa slíkar kveðjur eignast skæða keppinauta því að unga fólki (einkum) notar kveðjurnar og í tíma og ótíma að ógleymdu orðskrípinu ókei [e. orl/oll korrect < all correct] en það er m.a. notað sem svar eða kveðja. Til okkar hafa einnig borist annars konar kveðjur eða óskir sem tíðkast með öðrum þjóðum, t.d. e. have a nice weekend og þ. Schönes Wochenende. Það má kallast góðra gjalda vert að þýða slíkt góss ef menn kjósa að nota það, t.d. góða/(hæga) helgi, en kveðjurnar verður þá að nota í samræmi við reglur íslenskrar tungu. Á ónefndri útvarpsstöð heyrði umsjónarmaður þáttarstjórnanda tönnlast í sífellu á eftirfarandi: Áttu góða helgi! (23.6.06). Hér virðist orðmyndin áttu notuð í stað boðháttarmyndarinnar eigðu. Orðasambandið eigðu góða helgi hljómar reyndar sérkennilega, góða helgi nægir í þessu samhengi. 

Sögnin smella beygist svo: smella, smellti, smellt en sögnin fella hins vegar: fella, felldi, fellt. Þátíðarmyndin fellti mun vera til í óvönduðu talmáli en umsjónarmaður minnist þess ekki að hafa séð hana á prenti áður: Hann þreif í ... sýslumann[inn] á Selfossi og fellti (27.4.06). 

Forsetningar

Forsetningin í gegnum/gegnum [< í geng um] er eldforn í íslensku. Í síðari alda máli er hún einkum notuð til að vísa til staðar í beinni merkingu og óbeinni, t.d.: brosa gegnum tárin; brjótast í gegnum e-ð (erfiðan texta); fara í gegnum e-ð (mál/skjöl) og kalla í gegnum svefninn. Í fornu máli gat hún einnig vísað til tíma, t.d.: þau vöktu nótt þá alla í gegnum og hann grét alla nótt í gegnum. Í nútímamáli er algengt að hún sé einnig notuð í fremur óljósri merkingu, samsvarandi d. gennem; e. per, through og þ. durch. Dæmi af þeim toga eru auðfundin í fjölmiðlum, t.d.: auka framleiðslugetu gegnum (‘með’) stóriðju (17.2.06); Upplifun ungra múslíma á boðskap Bandaríkjamenna er í gegnum Ísrael (15.2.06); [vestræn menning] birtist þeim í gegnum ofbeldi (15.2.06); Ef flokkur ... fær ekki að auglýsa stefnu sína og störf í gegnum (‘í’) þá fjölmiðla sem (24.4.06) og tjá ólíkar tilfinningar í gegnum (‘með’) vel valin orð (3.6.06).

Í nútímamáli er forsetninunum og af alloft ruglað saman. Í ýmsum orðasamböndum vísar til dvalar (með sögninni vera) en af til hreyfingar (með sögninni hafa) og þá kemur fram kerfisbundinn munur, t.d.: gaman er e-u — hafa gaman af e-u; ávinningur er e-u — hafa ávinning af e-u; e-m er skapraun e-u — hafa skapraun af e-u; gagn er e-u — hafa gagn af e-u og það er skömm ­e-u — hafa/fá skömm af e-u. Þessa einföldu reglu hafa Íslendingar virt í að minnsta kosti 800 ár en eftirfarandi dæmi samræmast henni ekki: Gay Pride er hátíð sem hefur gaman að [þ.e. af] sjálfri sér (12.8.06) og Það er að mörgu leyti eftirsjá af [þ.e. að] Árna Magnússyni úr stjórnmálum (7.3.06).

Úr handraðanum

Í nútímamáli eru orðasamböndin vera búinn að + nh. og hafa + lh.þt. svipaðrar merkingar, t.d.: Ég er búinn að lesa bókina [núna] og ég hef lesið bókina [áður]. Í grannmálum okkar, t.d. ensku, dönsku og þýsku, er ekki að finna samsvörun við orðasambandið vera búinn að + nh. Í fornu máli var merking þess reyndar önnur en í nútímamáli, sbr.: þá eru þau Gísli og Auður búin að láta upp tjöldin (‘tilbúin, reiðubúin til að); er eg nú búinn að berjast (‘tilbúinn til að berjast’) og nefna að því votta að hann er búinn að taka við tíund (‘reiðubúinn til að taka við greiðslu’). Merkingarbreytingin vera búinn að berjast ‘tilbúinn til að berjast’ > ‘hafa barist’ felur því í sér nýmæli. Elstu öruggu dæmi um þá breytingu eru frá miðri 16. öld.

Orðasambandið vera búinn að + nh. í nýrri merkingu er notað með kerfisbundnum hætti í nútímamáli, vísar einkum til þess sem er nýlokið og er jafnan notað með lifandi frumlagi (ekki hlutum). Það getur að vísu reynst snúið að gera nákvæma grein fyrir þeim notkunar- og merkingarmun sem er á orðasamböndunum vera búinn + nh. og hafa + lh.þt. en málkenndin ein ætti að duga.

Umsjónarmaður hefur veitt því athygli að notkun orðasambandsins vera búinn að + nh. hefur aukist talsvert á kostnað hafa + lh.þt., t.d.: Skólinn er búinn að búa [hefur búið við] mörg undanfarin ár við fjárskort (10.11.05); við erum búin að bíða [höfum beðið] með 64 milljónir vegna þess að framlag ríkisins kemur ekki (26.5. 06); allt búið að ganga vel [hefur gengið vel] frá fyrsta degi, veðrið búið að haldast [hefur haldist] gott (1.7.06) og Þessi námstími er búinn að styttast [hefur styst] mikið (23.7.06). Ugglaust mun sumum finnast ofangreind dæmi góð og gild en umsjónarmaður kann ekki við málbeitingu sem þessa og ekki styðst hún við málvenju.