Textaleit í útdráttum
Leita í textum Íslenska málfrćđifélagsins    Leita í öllu efni á Kvisti


Pistlar um íslenskt mál:   26. ágúst 2006

Jón G. Friđjónsson

Íslenskt mál - 84. ţáttur

Tilvísunarorðin sem og er vísa ávallt til fallorða í íslensku, t.d.: Bókin, sem ég las, var skemmtileg. Í öðrum tungumálum, t.d. ensku og dönsku, geta tilvísunarorð einnig vísað til setninga, t.d.: He said he was innocent which is true (‘hann sagðist vera saklaus og það er satt’). Þess gætir í vaxandi mæli að tilvísunarorð í íslensku séu notuð að erlendum hætti, þannig að þau séu látin vísa til sagnorða, t.d.: Hann sagði að þetta væri lygi sem er [þ.e. en það er] ekki rétt. Í eftirfarandi dæmum um hina nýju málbeitingu er venjubundin notkun sýnd innan hornklofa:  

Um tveggja ára skeið hefur Seðlabankinn keppst að því [leitast við; stefnt að; lagt sig fram um] að kæla fasteignamarkaðinn, sem [og það; en það] virðist nú vera að takast (5.7.09); Í því felst að ríkisvæða einkageira og að ríkið fari í beina samkeppni við einkafyrirtæki á markaði, sem [en það] væri afturhvarf til fortíðar (5.7.06); Ég hef aldrei farið á íþróttaæfingu sjálfur sem er [og er það] ótrúlegt [þótt ótrúlegt sé] (16.8.05); viðbrögðin hafa líklega aldrei verið meiri en nú, sem hlýtur [en það hlýtur] að vera forráðamönnum blaðsins umhugsunarefni (12.1.06); að þingmenn láti almannahagsmuni víkja fyrir sérhagsmunum. Sem er [og er það] gott (29.12.05) og MBA námið við HR fer allt fram á ensku sem [en það] eykur færni og sjálfstraust á öðru tungumáli (30.4.06).

Nýmæli þetta mun að vísu ekki alveg nýtt af nálinni en umsjónarmanni virðist hafa færst í það mikill vöxtur á síðustu árum. Vera má að það megi rekja til aukinna þýðinga úr ensku. Hver svo sem uppruninn er virðist nýjungin óþörf.

Fram til þessa hafa menn treyst náunga sín vel eða illa eftir atvikum. Nýverið var birt niðurstaða skoðanakönnunar um trúverðugleika stjórnmálamanna. Fréttablaðið greindi frá þessu og þar stóð: Samkvæmt skoðanakönnun Fréttablaðsins treysta 42,6% Geir H. Haarde mest [þ.e. best] af öllum (2.7.06); segjast 18, 3% treysta honum mest [þ.e. best] (2.7.06) og H.Á. ... er sá sem flestir segjast treysta minnst [þ.e. síst] (2.7.06). – Hér virðist gæta enskra áhrifa.  

Stafsetningarorðabók

Umsjónarmanni hefur borist í hendur nýtt verk: Stafsetningarorðabókin. Ritstjóri Dóra Hafsteinsdóttir. Íslensk málnefnd og JPV útgáfan 2006. Í bókinni eru ríflega 65.000 flettiorð og þar er að finna allan almennan orðaforða íslenskrar tungu, auk fjölda mannanafna, örnefna, ríkja- og þjóðaheita og orðaforða úr helstu fræðigreinum. Verkið er reyndar ekki einungis stafsetningarorðabók því að einnig eru sýndar beygingar orða, notkunardæmi tilgreind og ýmis orðatiltæki. Í sérstökum kafla er gerð rækileg grein fyrir ritreglum og þar er með einföldum hætti fjallað um ýmis álitamál.  

Í formála segir að stafsetningarorðabókinni sé ætlað að gegna fremur vísandi en lýsandi hlutverki og veita traustar upplýsingar um stafsetningu og vandaða beygingu í almennri íslenskri málnotkun. Í samræmi við þetta markmið er ávallt sýnt ef. flt. af veikum kvk.-orðum, t.d. gusna, hviðna, þotna o.s.frv. Vafalaust mál deila um hvort sumar slíkra orðmynda séu yfirleitt notaðar en umsjónarmaður telur gagnlegt að fjallað skuli sérstaklega um þetta atriði. Svipaður háttur er hafður á um þágufallsmynd sterkra karlkynsorða en í mörgum tilvikum er á reiki hvort þau fá endinguna -i eða eru endingarlaus (báti/bát). Víða í bókinni er að finna notkunardæmi sem varða þetta atriði.  

Stafsetningarorðabókin er þarft verk og vandað, ómissandi handbók fyrir alla þá sem vilja vanda málfar sitt og framsetningu.

Úr handraðanum

Um miðja 12. öld skrifaði ókunnur maður, hinn svo kallaði fyrsti málfræðingur, eftirfarandi: Skáld eru höfundar allrar rýnni eða málsgreinar sem smiðir [smíðar] eða lögmenn laga. Fyrri hluti tilvitnunarinnar er nokkurs konar orðskviður þótt hann hafi ekki ratað inn í íslensk málsháttasöfn. Nafnorðið höfundur merkir hér ‘upphafsmaður’, skylt sögninni hefja. Kvenkynsnafnorðið rýnni, skylt rún, er stakorð, það kemur aðeins einu sinni fyrir í heimildum. Hér kann það að merkja ‘hugsun, þekking, rúnaþekking; rýni’ en samhengið virðist benda til þess að merkingin sé ‘mállist, málsköpun’. Ef sá skilningur er réttur má líta svo á sem í orðskviðnum felist ákveðin málstefna. Hann samræmist því vel að Íslendingar hafa jafnan tekið upphafsmenn mállistar sér til fyrirmyndar um málfarsleg efni. Umsjónarmanni þykir það merkilegt að unnt skuli vera að tefla fram liðlega átta hundruð ára gömlu dæmi sem virðist eiga fullt erindi til okkar.