Textaleit í útdráttum
Leita í textum Íslenska málfrćđifélagsins    Leita í öllu efni á Kvisti


Pistlar um íslenskt mál:   1. júlí 2006

Jón G. Friđjónsson

Íslenskt mál - 80. ţáttur

Íslenskt mál - 80. þáttur

Gamall orðskviður segir: Sjaldan fer betur þá breytt er. Í boðskapnum felst vitaskuld nokkur íhaldssemi en einnig er vísað til þess að það beri að virða sem liðnar kynslóðir hafa komið sér saman um. Nú á tímum hraða og alþjóðavæðingar eru breytingar miklar og stundum virðist breytt til þess eins að breyta. Íslensk tunga er þar ekki undanskilin enda breytist hún hratt.

Ein mesta breytingin felst að mati umsjónarmanns í ofnotkun orðasambandsins vera að + nafnháttur. Að þessu nýmæli hefur nokkrum sinnum verið vikið á þessum vettvangi. Dæmi af þessum toga eru t.d.: Hinn almenna borgara grunar að ríkisstjórnin sé ekki að segja satt [‘segi ekki satt’] (Blaðið 22.4.06); þjóðin er að upplifa verðbólguskot (Blaðið 22.4.06); við erum að sjá minni verðbólgu og meiri hagvöxt [‘sjáum að verðbólgan er ...’] (Útv. 25.4.06); Við erum að spá [‘spáum’] auknum hagvexti (Útv. 25.4.06) og Þar sem við erum að ná [‘höfum náð’] árangri erum við að byggja [‘byggjum við’] á mjög víðtæku samstarfi (1.5.06). — Umsjónarmaður hefur heyrt því haldið fram að ekkert sé athugavert við þessa breytingu enda sé um merkingarmun að ræða en ekki verður séð að svo geti verið.

Eftir sveitarstjórnarkosningarnar 27. maí fylgdist umsjónarmaður með umræðum um niðurstöðurnar í sjónvarpi og fjölmiðlum. Það var fremur regla en undanteking að notað væri ‘dvalarhorf hið nýja’, jafnvel til að vísa til þess sem er liðið. Sem dæmi má nefna: Flokkurinn er að bæta [‘hefur bætt’] við sig manni; Flokkurinn er að ná árangri [‘hefur náð’]; Í úrslitunum eru að birtast [‘birtast’] skýr skilaboð og Flokkurinn er að koma [‘kom’] mjög vel út. Málbeiting sem þessi er orðin býsna algeng og umsjónarmanni virðist hún ekki bundin við lýsingar á kappleikjum. Því má ætla að hún sé um garð gengin í máli flestra og því komin til að vera eins og stundum er sagt.

Allt annars eðlis eru ágallar í málbeitingu sem rekja má til þess að farið er rangt með föst orðasambönd eða föstum orðasamböndum er ruglað saman. Þá er sjaldnast um breytingar að ræða, sanni nær er að tala um klaufaskap eða klúður. Dæmi þessa eru reyndar algeng í nútímamáli og skal nú vikið að nokkrum.

Í sköpunarsögu Gamla testamentisins segir: Í upphafi skapaði Guð himin og jörð. Jörðin var þá auð og tóm og myrkur grúfði yfir djúpinu og andi Guðs sveif yfir vötnunun (1. Mósebók). Til þessa vísar orðatiltækið e-ð svífur yfir vötnunum, t.d.: Á bókasafninu svífur andi fræðimannsins yfir vötnunum. Hér fer ekki betur þá breytt er og því þykir umsjónarmanni eftirfarandi dæmi hæpið: Ég á sannarlega von á því að þess uppgjörsandi liggi yfir söguþinginu (Blaðið 16.5.06).

Flestir munu þekkja hina gullnu reglu kristinna manna: Allt sem þér viljið, að aðrir menn gjöri yður, það skuluð þér þeim og gjöra (Matt 7, 12). Í viðtali sem birtist í Morgunblaðinu var svipaðan boðskap að finna: Flestum þykir það sjálfsagt að vel sé tekið á móti Íslendingum erlendis og mætti því ætla að við skyldum koma á móts við aðra eins og við viljum að komið sé á móts við okkur (Mbl. 5.5.06). Hugsunin er fögur en ekki verður sama sagt um búninginn. Orðasambandið koma til móts við e-ð (kröfur e-s eða óskir) er algengt í merkingunni ‘mæta; nálgast’ og (samsetta) forsetningin á móts við er notuð til að vísa til staðar, t.d.: Óhappið varð á móts við bensínstöðina. Umsjónarmaður kannast hins vegar ekki við orðasambandið koma (vel/illa) á móts við e-n í merkingunni ‘koma (vel/illa) fram við e-n’.

Orðatiltækið sitja (fast) við sinn keip ‘halda (fast) við afstöðu sína; breyta ekki skoðun sinn’ er gamalt í íslensku. Það vísar til manns sem er fastheldinn á róðrarstað sinn í skipi. Í nútímamáli er algengt að skotið sé inn atviksorðinu fast. Umsjónarmaður taldi að vísunin væri býsna augljós en svo getur ekki verið í máli þess sem segir: halda fast um sinn keip (Útv. 15.5.06).

Eitt er að geta sér gott orð en annað að afla sér einhvers. Þessu má ekki rugla saman eins og í eftirfarandi dæmi: Miðað er við að kennarar ... hafi getið sér góðs orðs [þ.e. gott orð] fyrir kennslu (Mbl. 30.4.06).

Orðatiltækið vakna við vondan draum ‘átta sig skyndilega á e-u neikvæðu’ er hundgamalt í íslensku og eftir því sem umsjónarmaður veit best hefur búningur þess haldist lítt breyttur í um 800 ár. Í nútímamáli eru þess þó nokkur dæmi að í stað vakna sé notað vakna upp, t.d.:

Kisi vaknaði upp við vondan draum (Blaðið 27.5.06). Hér kann að gæta áhrifa frá ensku: wake up, sbr. einnig dönsku vogne op og þýsku aufwachen. — Í dæmum sem þessum hlýtur málvenja og málkennd að ráða.  

Úr handraðanum

Forsetningarliðurinn á við e-n/e-ð er naumast eldri en frá 17. öld. Hann samsvarar fs. við + þf. í eldra máli, sbr.: skyldi gjalda honum einn pening heilan þann er denarius heitir. Sá er við aðra tíu. Við skýringu á breytingunni við > á við virðast einkum tveir kostir koma til greina.

Annars vegar gæti verið um liðfellt orðasamband að ræða, þ.e. til móts við > móts við > á móts við > á við. Breytinguna til móts við > við er reyndar að finna í Grettis sögu (17.k.): voru þá fengnir til tveir að ausa til móts við hann og Svo segja sumir menn, að átta jósu þeir við hann áður en lauk

Hinn kosturinn er að líta svo á að fs. á við eigi rætur sínar að rekja til orðatiltækisins e-ð er á borð við e-ð ‘e-ð er sam­bærilegt/svipað e-u (að e-u leyti)’, sbr.: þótt þvílík brot sýnist á borð við hinar sakirnar. Þá yrði að gera ráð fyrir liðfalli: e-ð er á borð við e-ð > e-ð er á við e-ð ‘e-ð er eins og e-ð, jafngildir e-u’. Síðari skýringin byggist á svipaðri merkingu forsetningarinnar (á við) og orðatiltækisins (vera á borð við) en hún verður ekki studd beinum dæmum eins og fyrri skýringin. 

Í nútímamáli er fs. á við einkum notuð með tilteknum sögnum, t.d.: borða á við tvo; jafnast (ekki) á við e-n/e-ð; tala á við þrjá; vinna á við tvo o.s.frv. Eftirfarandi dæmi mun hins vegar ekki eiga sér hliðstæðu og er því að engu hafandi: Þau [samkeppnisyfirvöld] staðfestu að álagning hér á landi væri sambærileg og lægri á við nágrannalöndin (Frbl. 10.5.06).