Textaleit í útdráttum
Leita í textum Íslenska málfrćđifélagsins    Leita í öllu efni á Kvisti


Pistlar um íslenskt mál:   12. ágúst 2006

Jón G. Friđjónsson

Íslenskt mál - 83. ţáttur

Baldur Ingólfsson skrifar: ‘Eitt þeirra orða sem nú eru ofnotuð er áhersluorðið rosalega sem margir nota ýmist sem jákvætt eða neikvætt orð, t.d. rosalega gott veður, rosalega mikið illveður, rosalega skemmtilegt samkvæmi, rosalega leiðinleg kvikmynd, rosalega ljót mynd og líka rosalega falleg mynd.’ Baldur bendir á að no. rosi, kk. ‘regn og óþurrkur; regn- og vindsöm veðrátta’, og lo. rosalegur ‘sem bendir til úrkomu og storms’ vísi upphaflega til veðurfars.

Umsjónarmaður þakkar Baldri fyrir ábendinguna. Það er vissulega rétt að notkun orða og merking er oft breytingum undirorpin, það á ekki síst við um ýmiss konar ákvæðisorð. Í talmáli er t.d. oft sagt: það var ógeðslega gaman, fjörið var geggjað, kvikmyndin var æðislega/brjálæðislega góð, hroðalegt áfall o.s.frv. Ekki verður sagt að mikil reisn sé yfir málbeitingu sem þessari en þess ber að gæta að fæst slíkra nýmæla eru til langframa. Í sumum tilvikum eru nýjungar af þessu toga vísbending um kynslóðabil, það er eins og ungt fólk á hverjum tíma þurfi að aðgreina sig í málfari frá orðfæri næstu kynslóðar á undan. Umsjónarmaður telur það reyndar eðlilegt, tungan breytist í samræmi við ný viðfangsefni og önnur viðhorf, en tíminn sker úr um hver nýmælanna ná að festa rætur.

Sambeyging í tölu (og kyni ef því er að skipta) með samsettu frumlagi ræðst af því hvers eðlis einstakir liðir eru. Ef einstakir liðir samsetts frumlags eru hlutstæðir stendur sögnin í fleirtölu (bókin og penninn eru týnd; strákurinn og stelpan eru veik). Ef hins vegar um óteljanlega og óhlutstæða liði er að ræða er jafnan notuð eintala og kyn miðast við síðasta lið, t.d.: Áfengi og tóbak er dýrt/óhollt; Frost og fjúk var alla nóttina og Reiði og vín lætur hjartað segja til sín. Þannig hefur þetta ávallt verið eins og dæmin sanna og þannig er þetta enn í máli flestra, t.d.: Vatnsagi og misgengi í jarðlögum hefur tafið borun ganga Kárahnjúkavirkjunar (Frbl. 30.9.05) og Spenna og eftirvænting ríkir fyrir seinni leikinn (Frbl. 17.6.06).

Í nútímmáli gætir þess nokkuð að sögn standi í fleirtölu með samsettu frumlagi óháð því hvers eðlis einstakir liðir eru. Í riti KB-banka um efnahagshorfur (4.7.06) er t.d. að finna dæmi af þessum toga: Hærri vextir, aukin verðbólga og skert aðgengi að lánsfé hafa [þ.e. hefur] þrengt mjög að [þ.e. dregið úr] eftirspurn á fasteignamarkaði (Blaðið 5.7.06). Sambeyging í tölu kemur reyndar greinilega fram í spurnarsetningum. Þannig má spyrja: Hvað hefur dregið úr eftirspurn? – Svarið yrði þá: Hærri vextir, aukin verðbólga og skert aðgengi að lánsfé. Fleiri dæmi af sama toga eru auðfundin, t.d.: Í skjóli þessarar þurrðar hafa [þ.e. hefur] þögn og myrkur umlukið ýmis atvik viðskiptalífsins (Frbl. 12.1.06) og Kuldi og logn valda [þ.e. veldur] auknu svifryki (Mbl. 3.3.06).

Orðasambandið standa á e-u ‘hvika ekki frá afstöðu sinni’ er fornt og viðbótin fastar en fótunum er allgömul. Vísunin er augljós og ekkert svigrúm til að víkja frá hefðbundinni mynd eins og gert er í eftirfarandi dæmi: Mér finnst þetta vera fáránleg þvermóðska að ætla sér að standa við þetta [úthlutunarreglur] fastari fótunum (Blaðið 3.6.06).

Orðasambandið liggja undir e-u er algengt í óbeinni merkingu, t.d. liggja undir (mikilli) gagnrýni/(miklu) ámæli ‘gagnrýni beinist að e-m’ og liggja undir ágjöf ‘sæta gagnrýni’. Orðatiltækið liggja vel við höggi er hins vegar annarrar merkingar ‘gefa færi á sér, bjóða heim aðkasti’. Umsjónarmaður þekkir engin dæmi um afbrigðið liggja undir höggi en lengi er von á einum eins og sagt er: Framsóknarflokkurinn hefur legið undir höggi í umræðunni ‘hlotið gagnrýni, sætt ámæli’ (Sjónv. 6.6.06).

Úr handraðanum

Nafnorðið kredda, kvk., á uppruna sinn í latínu: credo in unum deum ‘ég trúi á einn guð’. Upphafleg merking er ‘bæn, átrúnaður (hin postullega trúarjátning)’ en í nútímamáli merkir það oftast ‘bábilja, hégilja; hindurvitni, hjátrú; e-ð sem menn bíta í sig og trúa blint á’. Í málsháttasafni Hallgríms Schevings er að finna málsháttinn Sérhver hefur sína kreddu ‘sérhver hefur sína sérvisku’ og þar er um að ræða síðari merkinguna. Einnig er kunnur málshátturinn Margar eru kreddurnar ‘ekki er öll sérviskan eins’. Umsjónarmaður rakst á svipað orðafar í Færeyinga sögu: Kristur átti tólf lærisveina eða fleiri og kunni sína kreddu hver þeirra. Nú hefi eg mína kreddu en þú þá er þú hefir numið og eru margar kreddur. Hér virðist nafnorðið kredda vera notað í fyrri merkingunni (‘átrúnaður’). Málshættinum Margar eru kreddurnar svipar til orðalagsins í Færeyinga sögu en þó eru naumast efni til að draga þá ályktun að beint samband sé á milli — en ekki er þó loku fyrir það skotið.