Textaleit í útdráttum
Leita í textum Íslenska málfrćđifélagsins    Leita í öllu efni á Kvisti


Pistlar um íslenskt mál:   29. júlí 2006

Jón G. Friđjónsson

Íslenskt mál - 82. ţáttur

Gunnar Skarphéðinsson Verslunarskólakennari skrifar þættinum. Við lestur ritgerða og prófúrlausna nemenda sinna segist hann hafa veitt því athygli að misfellur eru fleiri og í mörgum tilvikum annars eðlis en áður. Máli sínu til stuðnings sendir hann fjölmörg athyglisverð dæmi og skal nú vikið að nokkrum þeirra.

Í úrlausnum nemenda gætir þess nokkuð að ruglað sé saman forsetningunum eftir og á eftir, t.d.: hver kynslóð eftir annarri [þ.e. eftir aðra] og setningin sem hann lét hafa eftir sig [þ.e. eftir sér]. Umsjónarmaður hefur reyndar vikið að hliðstæðum dæmum í pistlum sínum, t.d. á eftir messunni [þ.e. eftir messuna]og Er líf á eftir dauðanum? [þ.e. eftir dauðann]. Meginmunurinn á forsetningunum eftir og á eftir er sá að eftir að viðbættu þolfalli vísar til tíma, jafnt í beinni merkingu (eftir veturinn, eftir þennan dag) sem óbeinni (bók eftir höfundinn, spor eftir fugla) en á eftir að viðbættu þágufalli vísar til raðar í rúmi eða á stað (hlaupa á eftir e-m). Nú er það hins vegar svo að í mörgum tilvikum er unnt að vísa til hvors sem er tíma eða rúms. Það má t.d. sjá af því að orðasamböndin hver eftir annan og hver á eftir öðrum eru algeng í fornu máli og fram til þessa en á þeim er skýr merkingarmunur. Það er því í fullu samræmi við málvenju að segja uppreisnarmennirnir gáfust upp hver á eftir öðrum eða uppreisnarmennirnir gáfust upp hver/einn eftir annan. Það gengur hins vegar ekki að rugla þeim saman og skrifa t.d.: uppreisnarmennirnir gáfust upp hver á eftir annan.

Í nokkrum þeirra dæma sem Gunnar tilgreinir má sjá tilhneigingu til að breyta fallstjórn tiltek-inna sagnorða. Sem dæmi má nefna (þau dæmi sem ekki samræmast málvenju eru merkt *): *tala vitinu í e-n [þ.e. tala vitið í e-n], sbr. koma viti í e-n (algengast koma vitinu fyrir e-n); *engu var til sparað [þ.e. ekkert var til sparað], sbr. kosta öllu/miklu til; *hala niður vinningum/lögum [þ.e. hala niður vinninga/lög], sbr. ná e-u niður, og *fá sínu fram [þ.e. fá sitt fram], sbr. ná sínu fram. Hér er í öllum tilvikum um að ræða það sem kalla má áhrifsbreytingu, fallstjórn sagnar breytist fyrir áhrif frá annarri merkingarskyldri sögn.

Umsjónarmaður þakkar Gunnari kærlega gagnlegar ábendingar. Kennarar, ekki síst íslenskukennarar, eru auðvitað í ágætri stöðu til að fylgjast með þróun íslenskrar tungu. Ábendingar frá þeim eru því mikilvægar og vel þegnar.

Nafnorðið víking, kvk., ‘sjórán, hernaður; ferð víkinga’ beygðist í eldra máli svo: nf. víking, þf. víking, þgf. víkingu, ef. víkingar. Í síðari alda máli hefur sú breyting orðið að flest kvk.-no. sem enda á -ing hafa endinguna -u í þf.et., t.d. breyting, um breytingu. Hér er um að ræða áhrif frá þgf.-myndinni. Gamla beygingin helst þó í föstum orðasamböndum, t.d. segjum við alltaf fara í víking og leggjast í víking. Nafnorðið víkingur, kk., er allt annarrar merkingar, það getur m.a. merkt ‘norrænn sæfari sem stundaði kaupskap, sjórán og strandhögg á víkingaöld; yfirgangsseggur, ójafnaðarmaður; dugnaðarforkur; maður sem afkastar miklu’. Ekki gegnur að rugla saman kvk.-orðinu víking og kk.-orðinu víkingur eins og gert er í eftirfarandi dæmi: [NN] er snúinn heim úr víkingi [þ.e. víkingu] í Danaveldi (Blaðið 28.4.06).

Í nútímamáli verður vart enn annarrar breytingar á beygingu kvk.-no. sem enda á -ing. Breytingin felst í því að í stað ef.et. -ar kemur -u, þá er t.d. sagt er vegna aukningu í stað vegna aukningar. Dæmi af þessum toga eru t.d.: Frá því að starf til undirbúnings styttingu [þ.e. styttingarfór af stað fyrir hálfum öðrum áratug (Mbl. 27.1.06) og athugasemdir vegna byggingu [þ.e. byggingar] sjúkrahúss (Sjónv. 15.6.06). Umsjónarmanni virðist að hér sé um að ræða breytingu á beygingu orða sem enda á -ing fremur en hér sé ‘eignarfallsflótti’ á ferð. Breytingin á þolfallsmyndinni [t.d. stytting > styttingu] er um garð gengin en breytingin á eignarfallsmyndinni [t.d. styttingar > styttingu] hefur ekki öðlast viðurkenningu.

Orðatiltækið hrista e-ð fram úr erminni‘gera e-ð (erfitt) létt og leikandi, fyrirhafnarlaust’vísar trúlega til töfrabragða eða þess að á miðöldum voru ermar oft víðar og notaðir sem vasar. Það sem hrist er fram úr erminni er jafnan eitthvað óhlutstætt, t.d.getur skákmaður hrist nýjung fram úr erminni eða rithöfundur getur hrist nýtt verk fram úr erminni. Einnig vísar orðatiltækið oft til nafnháttar, t.d. getum við sagt: það verður ekki hrist fram úr erminni að gera við skemmdirnar á sundlauginni. Það sem hrist er fram úr erminni (í óbeinni merkingu) má því ekki vera hlutstætt (nema í beinni merkingu: töframaðurinn hristi egg/smápening fram úr erminni) og alls ekki stórt í sniðum. Eftirfarandi dæmi er því nánast skoplegt: svona bílar [öflugir slökkviliðsbílar] eru ekkert hristir fram úr erminni (‘ekki auðgerðir’) (Frbl. 9.7.06).

Úr handraðanum

Lýsingarorðið fornspurður er samsett [forn og spurður] og vísar það til þess er e-ð er gert án vitundar e-s, án þess að spyrja hann. Það er kunnugt í fornu máli í orðasambandinu gera e-n fornspurðan að e-u ‘gera e-ð án vitundar e-s, án þess að spyrja e-n’ (Hrólfs saga kraka). Í síðari alda máli er það algengt í orðasambandinu gera e-ð að e-m fornspurðum, t.d.: segir ... að hann taki enga veturvistarmenn að drottningu sinni fornspurðri og brá hann við og fór að fornspurðri drottningu frá liði sínu. — Í nútímamáli er lo. forspurður stundum notað í svipaðri merkingu en þar stendur for- sem neitandi forskeyti.